02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist vera andvígur frv. og má vel vera, að hann sé það, það skal ég ekki segja um. Honum þóttu þau rök, sem hafa verið færð fram fyrir breytingunni, vera lítil, en nefndi þau þó. En ég skal bara bæta því við, að það reis upp ágreiningur í húsnæðismálastjórn um það, hvort þessi kosning skyldi vera hlutbundin eða ekki. Og það endaði með því, að í þeim tilvikum, sem komu til framkvæmda, þá var það meiri hl. n., sem kaus báða mennina og taldi sér ekki skylt að viðhafa hlutfallskosningar. Þess vegna er frv. fram komið. Minni hl. húsnæðismálastjórnar, þ. á m. flokksbróðir hv. þm., kærði þetta fyrir félmrn. Félmrn. hefur ekki farið út í að úrskurða um málið, en taldi auðveldast að leysa það á þennan hátt og þá verður auðvitað viðhöfð hlutfallskosning, þegar þrír eru kjörnir og þar með fá þrír aðilar möguleika til þess að tilnefna mann. Auðvitað tilnefna þeir heimamann. Hann segir, hv. þm., að þetta hafi gefizt illa. Ég veit ekkert, hvaða rök hann hefur fyrir því eða hvort þetta er bara fullyrðing út í bláinn, eins og stundum kemur fyrir hjá þessum hv. þm.