02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

234. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. telur það kappnóg, að húsnæðismálastjórn kjósi tvo menn í verkamannabústaðastjórnina á viðkomandi stöðum og hann getur náttúrlega haft sína skoðun á því. En ég vil bara benda á, að í lögum um verkamannabústaði eða um húsnæðismálastjórn, þar sem verkamannabústaðakaflinn er sérstakur kafli, segir, að þeir, sem þar kom til greina með byggingar, fái framlög eins og allir aðrir, sem fá lán hjá húsnæðismálastjórn, og auk þess fái þeir sérstök lán, sérstök fríðindi, sem ríkið greiðir að hálfu leyti. Það er þess vegna ekki út í bláinn, þó að húsnæðismálastjórn fái þarna 3/7 parta af framkvæmdastjórninni, því að húsnæðismálastjórn ræður undir venjulegum kringumstæðum ein þeim lánveitingum, sem húsnæðismálastjórnin veitir, og til viðbótar við það, sem húsnæðismálastjórn veitir þar, þá kemur stór upphæð með alveg sérstökum lánskjörum, sem húsnæðismálastjórn eðli málsins samkv. hlýtur að hafa mikla íhlutun um, hvernig veitt eru og hennar fulltrúar, sem valdir eru til þess að vera í stjórn viðkomandi verkamannabústaða hér. Ég tel þetta síður en svo um of, að húsnæðismálastjórn tilnefni þarna þrjá menn í staðinn fyrir tvo, þó að það sé ekki aðalatriði málsins fyrir mér, heldur hitt, að eðlileg hlutfallskosning fæst þá í málinu, en ekki þegar tveir eru kosnir.