24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

293. mál, kjördagur 1971

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að þeim hugmyndum hefur verið hreyft hér alllengi, að kjördagur yrði ákveðinn núna 13. júní, en ég er hins vegar ekki sammála hæstv. ráðherra um það, að bara út frá því, að þessari hugmynd hefur verið fleygt manna á milli hér í þinginu, þá megi líta svo á, að fyrir liggi almennt samkomulag um þetta meðal þingflokkanna. A. m. k. hefur ekki verið leitað til míns þín flokks um neitt samþykki við þessari breytingu. Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., að það er sitthvað, sem mælir gegn því, að þessi kosningadagur sé valinn, og persónulega finnst mér hann að ýmsu leyti óheppilegur. Við höfum rekið okkur á það í undirbúningi undanfarinna kosninga, — ég nefni sérstaklega 1963 — að samgöngur svo snemma júnímánaðar eru alls ekki alltaf í því lagi t. d., að eðlilegum fundarhöldum verði við komið. Það var alls ekki þá, og það getur auðvitað endurtekið sig. Á hitt er að líta líka í sambandi við þetta mál, að þegar kosningalögin voru samþykkt, held ég að allir hafi verið sammála um að velja þann kjördag, sem í þeim er ákveðinn, og því hefði verið eðlilegt að leita samráðs allra þingflokka, áður heldur en slíkt frv. sem þetta var borið fram, og allavegana finnst mér rétt og tek undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v., að þetta mál verði athugað fyrir 2. umr., annaðhvort með því að vísa því til n. eða þá kannske öllu frekar með því móti, að þingflokkar ræði málið áður en það verður tekið til 2. umr. Mér finnst kannske eðlilegra, að slíkur háttur sé á hafður, m. a. með hliðsjón af því, að minn flokkur á t. d. ekki fulltrúa í þeirri n., sem um málið mundi fjalla. En sem sagt, ég lýsi því yfir, að ég læt það alveg ósagt mál á þessari stundu, hvaða afstöðu við í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna tökum til málsins, en við munum að sjálfsögðu ræða það á réttum vettvangi og taka afstöðu til þess við síðari umr. málsins.