24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

293. mál, kjördagur 1971

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér finnst menn gerast nokkuð viðkvæmir í málum eins og þessu, en ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að það, sem dómsmrh. mun hafa sagt hérna, það hefur hann haft eftir mér, en ég tjáði honum, að ég liti svo á, að það væri samkomulag í þinginu um þennan kjördag. Nú segja menn, að þetta hafi ekki verið samþykkt sérstaklega í flokkunum og ekki borið sérstaklega undir þá. Þá tek ég á mig sökina af því, ef hér hefur eitthvað verið ofsagt. Ég held, að rétt væri að hafa þann hátt á að fresta umr., þannig að menn hefðu tækifæri til þess að ræða þetta við sína flokka. En ástæðan til þess, að ég sagði þetta við dómsmrh., sem spurði sérstaklega eftir því, var m. a. sú, að það var ekki aðeins, að hér væri fleygt á milli manna í þinginu, að kjördagur yrði 13. júní, heldur var ég á fundi með forsetum þingsins og formönnum þingflokka, áður en við fórum á þing Norðurlandaráðs, og við vorum að tala um þinghaldið þá, meðan á Norðurlandaráðsþinginu stæði. Þar var beinlínis talað um það, að minn hugur stæði til þess að ljúka þinghaldinu fyrir páska — og voru nokkrar fleiri samverkandi ástæður til þess, — en m. a. hafði ég orð á því þá, að þar sem í okkar huga væri hugmyndin um 13. júní sem kjördag, þá væri betra að ljúka þinginu fyrr en seinna vegna anna, sem allir þm. hafa hver í sínu kjördæmi, þegar almennar kosningar fara fram. Hann er nú svo stór þingflokkur hv. síðasta þm. hér, að ég get fyrirgefið honum, þó hann hafi ekki komið saman til þess að ræða um þetta, en það var formaður þingflokksins, Hannibal Valdimarsson, en ekki hann, sem var á þessum þingfundi. En eins og ég sagði í upphafi, ekki ætla ég að ýfa deilur um málið. Ég tek á mig sök á því, hafi ég mælt um of, en ég taldi mig hafa ástæðu til þess að líta á þetta með þessum hætti, bæði vegna þess, að það var opinberlega um þetta talað í blöðum og útvarpi og ég hafði átt þessar viðræður við formenn þingflokkanna. Og þó að ég hafi ekki beðið þá formlega að bera það undir sína flokka, þá höfðu engin andmæli gegn þessu borizt til mín, þegar dómsmrh. innti mig eftir þessu. Fleiri orð skal ég svo ekki um það hafa. Ég hef þá, eftir því að dæma, sem þessir hv. þm. hafa sagt, tekið of mikið upp í mig við hæstv. dómsmrh. Hann ber ekki sök á því, heldur ég. Ég vona, að menn geti nú jafnað þetta sæmilega friðsamlega.