30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

2. mál, gjaldaviðauki

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Það hefur um mjög langt árabil verið lagt fram til endurnýjunar á hverju þingi og er um framlengingu heimildar fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld með viðauka. Hér er ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem gilt hefur síðustu árin. Frv. hefur þegar gengið gegnum hv. Nd., og var þar samþ. einróma. Ég vildi leyfa mér að vænta þess, að það gæti fengið einnig greiðan gang gegnum þessa hv. d., og mundi mælast til þess, að hv. fjhn. sæi sér fært að afgreiða það sem skjótast, vegna þess að það þarf að hafa tekið gildi fyrir áramót.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.