24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

213. mál, náttúruvernd

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa að fara mörgum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir til umr. að þessu sinni, þar sem ég vænti þess, að því verði vísað til n., sem ég á sæti í, og að ég muni þá geta komið að þeim athugasemdum, sem ég fyrst og fremst kynni að vilja koma á framfæri. En vegna þeirra umr., sem hér hafa orðið um þetta frv., þykir mér rétt að lýsa ánægju minni yfir því, að frv. skuli vera komið fram. Og gagnstætt því, sem komið hefur fram í ræðum flestra þeirra, sem hér hafa tekið til máls, þá vil ég lýsa ánægju minni yfir ýmsum þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á frv. frá því að það var lagt fram hér í fyrra og sem mér sýnast stefna til bóta.

Ég vil benda á það, og það er skemmtileg tilviljun, að á sama ári og nú er lagt fram hér frv. um náttúruvernd, sem við væntum, að geti valdið straumhvörfum í þessum málum, þá skulum við vera komin á það stig í samskiptum við landið, sem lýst hefur verið af sérfræðingum nú alveg nýlega, að nú séum við í jafnvægi með gróðurvinning og gróðureyðslu, sem hefur gengið í öfuga átt allt til þessa tíma. Og ég vona, að það frv., sem við ræðum um hér í dag, verði til þess að herða á þeirri sókn, sem hafin er í því efni og ég vil vona, að verði á þá lund, að við stuðlum að eðlilegri og ánægjulegri skiptum fólksins og landsins með þeirri náttúruvernd og gróðursókn, sem hafin er.

Mér þykir rétt að geta þess hér, að ég tel, að náttúruverndarnefndir hinna ýmsu héraða séu mjög nauðsynlegar og nauðsynlegur tengiliður milli náttúruverndarráðs og héraðanna og þeirrar afstöðu, sem héruðin hafa til vissra mála, sem kæmi til álita, að náttúruverndarráð hefði afskipti af. Og ég hygg, að það sé eðlilegasta uppbyggingin á náttúruverndarráði, sem hér er lagt til, að náttúruverndarþingið kjósi það og meðal þeirra fulltrúa, sem það skipa, séu fulltrúar frá hinum ýmsu náttúruverndarnefndum. Ég vil einnig benda á það, að ég tel ákvæðið í 21. gr. um sumarbústaði og umsagnir náttúruverndarnefnda héraðanna um byggingu þeirra mikilvægt, því að þrátt fyrir það, að nú séu í gildi lög, sem heimila ekki byggingar í sveitum nema byggingarnefndir og sveitarstjórnir leyfi þær, þá verðum við að viðurkenna það, að æði oft hefur verið farið í kringum þann lagabókstaf, en ég hygg, að þetta ákvæði mundi herða nokkuð á í þessu efni og það tel ég mjög mikilvægt. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, tel ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um þetta frv. að þessu sinni. Ég get þó ekki stillt mig um að benda hér aðeins lítillega á tvö atriði enn, sem ég vil vekja athygli á. Það er síðari hluti 17. gr., þar sem sagt er: „Á afréttum og almenningum, sem falla utan hreppamarka, er bannað allt nám jarðefna.“ Ég vil benda á það, að mér er ekki kunnugt um, að hér sé nokkur örugg skilgreining til á því, hvar eru hreppamörk næst óbyggðunum, og þess vegna þarf að athuga þetta atriði í n. Í annan stað vil ég benda á það, að í 25. gr. er gert ráð fyrir því, að náttúruverndarráð fari með stjórn þjóðgarða og setji reglur um meðferð þeirra og umgang almennings. Það má vel vera, að hér þurfi ekki að taka neitt undan, það sé fullnægjandi, sem segir í 38. gr., að lög um friðun Þingvalla haldi gildi sínu þrátt fyrir gildistöku þessara laga, en mér hefði þótt allt eins eðlilegt, að það hefði verið tekið fram í þessari 25. gr., að þjóðgarðurinn á Þingvöllum væri hér undanskilinn. Og það er mál, sem verður að kanna, svo er og um önnur atriði, sem ég hefði áhuga fyrir að benda á í þeirri n., sem fær frv. til meðferðar, og ég sé því ekki ástæðu til að þessu sinni að hafa fleiri orð um frv.