25.02.1971
Efri deild: 54. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

213. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þeirri fsp., sem hv. síðasti ræðumaður beindi til mín. Ég lít eindregið þannig á, að nefndin hafi ekki lokið störfum sínum, henni hafi verið falið að endurskoða löggjöfina um þjóðgarð á Þingvöllum og hún eigi það eftir. Sú till. til þál., sem nefndarskipunin byggðist á, hljóðar svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, og lög nr. 48/1956, um náttúruvernd, og semja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. til nýrra laga um náttúruvernd, friðun Þingvalla og þjóðgarða. Endurskoðunin miði að því að auka náttúruvernd og auðvelda almenningi aðgang að heppilegum stöðum til útivistar og náttúruskoðunar. Einnig verði verk- og valdsvið náttúruverndarráðs og Þingvallanefndar skilgreint sem gleggst.“

Þar sem nefndarskipunin var byggð á tillögunni og tillagan var send með til þeirra þm., sem þess óskuðu, var augljóst, til hvers rn. ætlaðist af nefndinni. Hitt er annað mál, að ég er persónulega nefndinni sammála um það, að ákvæði um náttúruvernd og ákvæði um friðun Þingvalla eigi ekki að vera í einu og sama lagafrv. þegar af þeirri ástæðu, að náttúruvernd heyrir undir menntmrh., en Þingvellir heyra undir forsrh., og það er óeðlilegt, að framkvæmd einnar löggjafar sé í höndum tveggja rn. eða tveggja ráðh. Þegar af þessari ástæðu — fleiri ástæður koma einnig til, sem nefndin gerði grein fyrir í sínu áliti á sínum tíma þegar af þessari ástæðu tei ég, að þessir lagabálkar eigi að vera tveir. Og ég lít þannig á, að nefndin eigi þennan hluta verksins eftir og beri að senda niðurstöður þess hluta verksins, þ. e. a. s. lagabálks um friðun Þingvalla, til forsrh., sem Þingvellir heyra undir.