25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

213. mál, náttúruvernd

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. um náttúruvernd var hér til 1. umr., þá gerði ég við það örfáar athugasemdir varðandi einstaka þætti þess. Ýmsar þær ábendingar, sem ég hafði þá varpað hér fram, hefur menntmn. tekið til athugunar og tekið til greina, en um athugasemd, sem ég hafði að gera við 17. gr., varð ekki samstaða í menntmn. Ég hafði leyft mér að flytja brtt., sem er fyrst á þsk. 654, ásamt fjórum öðrum alþingismönnum. Ég held, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt. hér. Ég vil aðeins benda á það, að hún fjallar um nám ýmiss konar jarðefna og hvernig beri að hamla við því, að þar verði unninn skaði á landi. Það er gert ráð fyrir því í frv. eins og það liggur fyrir, að mönnum séu heimil not jarðefna á landi sínu, en ef flytja á efnið í burtu, þá þurfi að tilkynna það sveitar- eða bæjarstjórn. Við flm. þessarar brtt. teljum, að þetta sé of þungt í vöfum og algerlega óþarft. Teljum við, að halda megi áfram þeim hætti, að þeir, sem jarðefnanámur eiga, megi ráðstafa þeim, nema sveitarstjórn eða náttúruverndarnefnd hafi eitthvað við það að athuga. Þá sé þeim líka fengið það vald, að þeir geti bannað slíkt jarðrask og að ákvörðun sveitarstjórnar megi skjóta til menntmrh. Í þessari sömu gr. er einnig getið um það, hvernig fari um nám jarðefna 'a afréttum og almenningum, og eins og í frv. stendur, þá er talað um þau landsvæði, sem falla utan hreppamarka. Ég gat um það hér við 1. umr. máls, að það væri mjög óljóst, og í lögum vissi ég ekki til, — og síðan hef ég heldur ekki fengið um það upplýsingar — að nein ákveðin eða skýr skilgreining væri til á því, hvar væru hreppamörk miðað við óbyggðir. Við töldum því rétt að umorða greinina á þann hátt, að í almenningum er bannað allt nám jarðefna, sem um getur í 1. mgr., nema til komi samþykki menntmrn., eftir að það hefur leitað umsagnar náttúruverndarráðs. Þessi breyting er ekki viðamikil. Ég tel hana þó sjálfsagða, fyrst og fremst fyrir þá sök, að það eru allar líkur á því, að áður en langt líður, áður en mörg ár eru liðin, þá verði búið að setja um þetta fastari reglur. Og ég tel óþarft og ekki rétt, að í sambandi við þessi lög sé tekin nein afstaða til þeirra hluta, sem koma til ákvörðunar, þegar talað er um eignarrétt á afrétti eða byggðamörk og hreppamörk.

Þetta eru þær breytingar, sem við leggjum til í þskj. 564, að gerðar verði, og tel ég mig ekki þurfa að hafa fleiri orð fyrir þeim, en við væntum þess, að hv. dm. sjái ástæðu til þess að samþykkja þessa brtt. með okkur.