25.03.1971
Efri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1075 í B-deild Alþingistíðinda. (1277)

213. mál, náttúruvernd

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða almennt um frv. oftar eða einstakar brtt. Ég vil þakka samstarfsmönnum í menntmn. og ekki sízt formanni hennar fyrir samstarfið og þá lipurð, sem hann hefur sýnt til þess að reyna að koma til móts við þær hugmyndir, sem settar hafa verið fram um lagfæringar á þessu frv. Og eins og ég sagði hér um daginn, er það mitt sjónarmið, að það eigi að afgreiða þetta frv. og setja þessi lög á þeim forsendum, að það sé svo margt í þeim til bóta, þó að vafalaust megi að ýmsu finna, og það er mín trú, að ekki muni langt um líða, áður en þessi löggjöf verður á ný endurskoðuð. Sú löggjöf, sem við erum hér að breyta, er ekki gömul og er samt talin úrelt. Þannig mun sjálfsagt fara fyrir þessari lagasmíð okkar. Auðvitað er sjálfsagt að gera þetta eins vel úr garði og menn hafa vit til og tíma. Það höfum við reynt. En það eru tvö atriði, sem ég ætla að gera hér að umtalsefni og skal reyna að stytta mál mitt mjög, því að frv. er nú orðið útrætt hér.

Það er í fyrsta lagi það, sem hv. frsm. gat um, að 26. gr. frv. liggur hér fyrir frá n. umorðuð, en 26. gr. frv. fjallar um það, að svæði er lýst fólkvangur. Það er ljóst af ákvæðum greinarinnar og þeim skýringum, sem okkur hafa verið fengnar á henni, þ. á m. álitsgerð Þórðar Eyjólfssonar hæstaréttardómara, að höfundar frv. hafa eingöngu haft í huga það tilvik, að eitt sveitarfélag yrði aðili að fólkvangi og þegar um fleiri sveitarfélög verður að ræða og samstarf þeirra í milli, þá vantaði ákvæði um það, hvaða aðili gæti skorið úr hugsanlegum ágreiningi, sem upp kynni að koma. Til þess að bæta úr þessu er flutt brtt. við greinina. Þessa brtt. hefur formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Páll Líndal hæstaréttarlögmaður, samið. Ég á engan hlut að henni annan en þann að koma henni á framfæri hér við n. Ég held, að greinin skýri sig að öllu leyti sjálf og skal ekki eyða tíma þdm. í langar skýringar á henni, en hún miðar sem sagt að því, að það sé tilkynnt með hæfilegum fyrirvara, hvaða svæði það er, sem friðlýsa á, þannig að þeim, sem það telja sig eiga, gefist kostur á að koma á framfæri skaðabótakröfum. Þegar svo undirbúningi er lokið, er það úrskurður náttúruverndarráðs, hvort stofna skuli fólkvang, en hér er ekki um að ræða dreifingu kostnaðar, því að í greininni er eftir sem áður gert ráð fyrir því, að sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, greiði allan kostnað, sem leiði af stofnun og rekstri fólkvangs, þ. e. a. s. að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði eða náttúruverndarsjóði, ef hann skyldi einhvern tíma rísa af öðrum ástæðum. Og greininni lýkur svo á því, að ef ágreiningur rís um skilning á lagagreininni eða upp koma sérstök vafaatriði, sem snerta rekstur þessa friðlýsta svæðis, þá skeri náttúruverndarráð úr, en skjóta má þó úrskurði þess til fullnaðarákvörðunar ráðh., eins og segir í niðurlagi greinarinnar. Ég vona, að hv. d. geti fallizt á þetta með okkur í menntmn., að þarna hafi verið nokkur misbrestur á frumvarpssmíðinni, þannig að ekki hafi verið gert ráð fyrir því tilviki, sem hér um ræðir, og upp hefur komið raunar, þegar til stóð að friðlýsa hér ákveðið svæði fyrir forgöngu Reykjavíkurborgar, eins og ég gat um hér við 1. umr. þessa máls.

Hitt atriðið, sem ég ætla aðeins að gera að umtalsefni með örfáum orðum, er náttúruverndarsjóður. Ég gat þess við 1. umr. og raunar aftur síðar, að ég tel það mjög til hins verra, að ekki skuli vera náttúruverndarsjóður, og ég lýsi þessari skoðun og hún byggist ekki fyrst og fremst á því, að ég vantreysti svo þeim ríkisstjórnum, sem við eigum eftir að búa við, að þær hafi ekki út af fyrir sig eða einstakir ráðh. þeirra fullan hug á því að verja fjármagni til náttúruverndar. Ég er ekki að gera neinum upp neinar slíkar skoðanir. En ég bara óttast það, að svona mál verði út undan, þegar, eins og oft vill verða, að margt þarf að gera af takmörkuðum fjármunum, þá verði það skoðun manna, að einmitt þessi mál þoli að bíða svo sem eins og eitt ár enn, þegar tiltekinn vegarspotti eða hafnarbót, svo að við tökum eitthvert dæmi, þoli það alls ekki. Og þess vegna held ég, að það væri miklu öruggara fyrir framgang þeirrar náttúrufriðunar, sem nýtur fyllsta stuðnings og skilnings að ég held hvers einasta þdm., að það væri sérstakur sjóður, sem hefði ávallt nokkra fjármuni undir höndum og gæti mætt þessum kostnaðarliðum um leið og þeir myndast. Því var lýst hér fyrir nokkrum dögum í sameinuðu Alþ., hvaða dráttur hefði orðið á friðlýsingu á tilteknum náttúruminjum hér í grennd Reykjavíkur. Það voru allir, sem töluðu þar, sammála um það, að hér væri um hin merkustu náttúrufyrirbæri að ræða, gíg, sem væri einstakur í sinni röð, og það væri kannske að verða hver síðastur að friðlýsa hann og náttúruverndarráð hefur lagt þetta til. En það kom fram af svari hæstv. menntmrh., að það hefði ekki verið unnt að friðlýsa þennan reit, vegna þess að enginn vissi, hvaða kostnaður mundi leiða af því og það væru engir peningar fyrir hendi til þess að verja í því skyni, þannig að ákvörðunin hefði af þessu dregizt. Ég tel víst, að ef náttúruverndarsjóður hefði verið til eða væri til, þá hefðu menn lagt í þá áhættu, sem fylgir því að friðlýsa þetta svæði, og það jafnvel áður en fyrir lægi sundurliðaður kostnaður, sem af því kynni að leiða og menn voru raunar sammála um, að aldrei gæti orðið mikill. En vegna þess að það er enginn, sem hefur yfir tilteknu fjármagni að ráða í þessu skyni, þá hefur framkvæmdin dregizt, eða svona skil ég það, sem gerðist í þessu ákveðna tilviki, og tel mig ekki vera að gera neinum upp óeðlilegar hugrenningar eða hvatir í þessu sambandi, heldur einungis það, að vegna þess að ekkert tiltekið fjármagn er fyrir hendi til þess að greiða úr slíkum málum, þegar upp koma, þá dragast þau.

Þetta mál lá fyrir, þegar fjárlög voru samin fyrir þetta yfirstandandi ár. Það var engin beiðni lögð fram fyrir alþm. um að leggja til hliðar fjármagn til þess að standa straum af þessu. Ég óttast, að svona kunni að fara í framtíðinni, ef náttúruverndarsjóður verður ekki endurreistur, eins og fyrra frv. lagði til. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að gera úrslitatilraun til þess að koma náttúruverndarsjóði inn í frv. á ný og flyt hér skrifl. brtt. ásamt hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundssyni, en hann hafði áður við 2. umr. borið fram brtt. um, að sjóðurinn yrði tekinn upp á ný og varið til hans 20 millj. kr. a. m. k. af ríkissjóðsframlagi.

brtt., sem ég ætla að leyfa mér að lýsa hér og leggja fram, er þá svona: „9. gr. orðist svo:“ — og það er nú raunar óbreytt frá því, sem orðað var í tillögu hv. 5. þm. Reykn. — ég sé ekki ástæðu til þess að lesa það, en 10. gr. er um fjáröflunina og orðist svo:

„Tekjur náttúruverndarsjóðs skulu vera:

1.½% af heildsöluverði þeirrar vatnsorku og 1/4% af söluverði þeirrar varmaorku, sem virkjuð er í landinu.“

Þennan hluta tillögunnar höfum við flm. tekið óbreyttan upp úr fyrra náttúruverndarlagafrv. Og ég tel víst, að hugsunin með þessum tekjustofnum sé fyrst og fremst sú, að einmitt þessar verklegu framkvæmdir séu þær, sem hvað mest geta raskað náttúru landsins, og það sé því ekki óeðlilegt, að af slíkum framkvæmdum verði greitt nokkurt gjald til þess m. a. að lagfæra það, sem úrskeiðis fer við þessar framkvæmdir. Þriðji tekjustofn náttúruverndarsjóðs samkv. fyrra frv. var svo einhver prósenta af áfengi, sem framleitt var í landinu. Það hef ég fellt niður. Við flm. teljum það þessu máli allt of óskylt til þess, að það sé nokkurt eðlilegt samhengi í því að fara að tengja það hér saman.

Því er haldið hér fram og sjálfsagt með nokkrum rétti, að allir slíkir skattar, sem lagðir eru á í tilteknu augnamiði, séu hvimleiðir og þeim beri að fækka. Undir þetta sjónarmið getum við flm. að mörgu leyti tekið, en þessir tilteknu eða svo kölluðu eyrnamörkuðu skattar hafa þó einn kost. Þeir hafa þann kost, að yfirleitt fylgjast þeir með í verðbólguþróuninni, þannig að tekjustofninn hækkar um leið og verðbólgan vex, þannig að hækkun þeirra tekna, sem tilteknum sjóðum, í þessu tilviki náttúruverndarsjóði, koma til góða af tekjustofnunum, helzt nokkuð í hendur við almenna tilkostnaðarhækkun í landinu.

Í öðru lagi er svo hér samkv. þessari tillögu lagt til, að til viðbótar þessum litlu tekjustofnum — þeir eru litlir núna a. m. k., þeir gætu náttúrlega vaxið — komi fast framlag úr ríkissjóði, er nemi a. m. k. 5 millj. kr. á ári. Og þriðji liður brtt. er svo, að kafla fyrirsögn á undan 9. gr. orðist þannig: „Náttúruverndarsjóður og fjáröflun til hans“.

Ég skal stytta þetta mál og ljúka því, en meginhugsun þessarar tillögu er sú, að til eigi að vera sérstakur náttúruverndarsjóður og hana ber að skoða sem úrslitatilraun okkar flm. til þess að fá þá staðreynd viðurkennda. Það má mjög auðveldlega okkar vegna breyta þeim tekjuöflunarleiðum, sem náttúruverndarsjóði væru ætlaðar. Við erum báðir mjög til viðtals um það. En það má ekki að okkar mati fella þennan sjóð niður, það getur orðið örlagaríkt fyrir náttúruverndina í landinu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að afhenda þessa brtt., sem er bæði skrifleg og of seint fram komin, til fyrirgreiðslu forseta með ósk um, að afbrigða verði leitað fyrir því, að hún megi koma til umr. og afgreiðslu.