26.03.1971
Neðri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

213. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed., en ríkisstj. lagði frv. til l. um náttúruvernd fyrir Ed. fyrir nokkrum vikum. Ed. gerði nokkrar breytingar á frv., engar þó verulegar, engar verulegar efnisbreytingar, og sé ég ekki ástæðu til þess að gera grein fyrir þeim í einstökum atriðum, en skal fara nokkrum orðum um frv. í heild.

Frv. um náttúruvernd var flutt af menntmn. Nd. á s. l. þingi, en hlaut þá eigi afgreiðslu, en frv. þetta, sem flutt var í fyrra, var samið af nefnd, sem menntmrn. skipaði á sínum tíma, og voru í nefndinni Birgir Kjaran, formaður, Benedikt Gröndal, Eysteinn Jónsson og Gils Guðmundsson. Ríkisstj. lét síðan endurskoða þetta frv. nefndarinnar á s. l. ári og er frv., sem lagt var fyrir Ed., niðurstaða af þeirri endurskoðun. Nefndinni hafði upphaflega verið falið að endurskoða lög um náttúruvernd og um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Nefndin samdi nýtt frv. um náttúruvernd, en hefur hins vegar ekki enn samið frv. um þjóðgarðinn á Þingvöllum, en nefndin var á einu máli um, að sérstök lög ætti að setja um þjóðgarðinn á Þingvöllum, en ekki hafa ákvæði um hann í náttúruvernd, og er ég sammála því sjónarmiði. Í Ed. lýsti ég því að gefnu tilefni yfir, að ég teldi það vera verkefni þessarar nefndar, sem ég nefndi áðan, að semja lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum og hún hefði ekki lokið störfum sínum fyrr en hún hefði gert það.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um þær breytingar á náttúruverndarmálum, sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér. Í gildandi náttúruverndarlögum er framkvæmd náttúruverndarmála fengin í hendur náttúruverndarráði, sem menntmrh. skipar til fjögurra ára í senn. Auk þess er gert ráð fyrir náttúruverndarnefndum í hverju sýslufélagi og í kaupstöðum. Náttúruverndarnefndunum var ætlað að eiga frumkvæði að náttúruvernd hverri í sínu héraði, en náttúruverndarráð skyldi samræma störf nefndanna og hafa frumkvæði um stærri mál og marka stefnu í náttúruverndarmálum almennt. Þessar stofnanir, náttúruverndarráð og náttúruverndarnefndirnar hafa nú starfað í tæpan hálfan annan áratug. Á þessum tíma hefur náttúruverndarráð fjallað um 40–50 málefni, sem lúta beinlínis að friðlýsingu staða eða annarra verðmæta, sem friðlýsa má. Helztu málin, sem náttúruverndarráð hefur afgreitt, eru tengd Helgafelli í Vestmannaeyjum, Rauðhólum í Reykjavík, Grábrók í Norðurárdal, friðun dropasteinsmyndana í hellum, Hveravöllum, friðun sjaldgæfra jurta og Surtsey. Auk þessa hefur náttúruverndarráð haft afskipti af fjölmörgum málum, einkum í sambandi við náttúruspjöll af völdum efnistöku, þ. e. a. s. malarnám sandnám og jarðnám. Þá hefur álits ráðsins verið leitað í sambandi við sumar meiri háttar verklegar framkvæmdir, t. d. kísilgúrverksmiðju við Mývatn, Gljúfurversvirkjun o. fl.

Á hinn bóginn hefur þátttaka náttúruverndarnefndanna í þessum efnum orðið minni en ætlazt var til í upphafi. Það hefur verið sjaldgæft, að náttúruverndarnefndir hafi vakið máls á náttúruverndarframkvæmdum, og þess eru dæmi, að náttúruverndarnefndir hafi leyft framkvæmdir, sem náttúruverndarráð vildi síðar leggja bann við vegna náttúruspjalla.

Annar mikilvægur þáttur í störfum náttúruverndarráðs hefur verið að beita sér fyrir stofnun þjóðgarða. Í stofnun þjóðgarðs felst það, að landsvæði er afmarkað og friðað, svo að fjölbreytileg náttúra fær þar að þróast eftir eigin lögmálum jafnframt því, sem almenningi er auðveldaður aðgangur að svæðum útivistar og náttúruskoðunar. Náttúruverndarráð hefur þegar beitt sér fyrir stofnun eins þjóðgarðs að Skaftafelli í Öræfum og þar stigið stórt spor til varðveizlu sérstæðs og fagurs landsvæðis. Stofnun annars þjóðgarðs er í undirbúningi.

Að því er varðar stjórn náttúruverndarmála er í þessu frv. haldið skipan núgildandi laga, þeirri skipan, að yfirstjórn þeirra heyri undir menntmrn., en að öðru leyti felst í frv. nokkur breyting á skipan náttúruverndarmála frá því, sem nú er. Grundvallarhugmyndinni er þó haldið, en að því stefnt að náttúruverndarnefndir verði virkari en verið hefur til þessa. Ein helzta breytingin á stjórn náttúruverndarmála, sem frv. gerir ráð fyrir, er skipan náttúruverndarþings. Þar skulu koma saman þeir aðilar, sem hafa sérstaka þekkingu á náttúruverndarmálum, sérþekkingu á sviði náttúrufræða, hafa vegna sérstöðu sinnar það hlutverk að beita sér fyrir náttúruverndarframkvæmdum og hafa vegna stöðu sinnar hagsmuna að gæta, sem kunna að brjóta í bága við náttúruverndarsjónarmið. Er náttúruverndarþinginu ætlað að ræða öll þau mál, sem varða almenna stefnumörkun í náttúruvernd. Þá á það enn fremur að verða vettvangur náttúruverndarnefnda, og ýmis áhugamannasamtök um náttúruvernd geta komið hugmyndum sínum og skoðunum þar á framfæri og þar eiga einnig að koma fram skoðanir þeirra aðila, sem stöðu sinnar vegna eiga að sjá um hagnýtingu náttúruauðlinda til almenningsheilla.

Samkv. núgildandi lögum er náttúruverndarráð skipað sjö mönnum. Það eru þrír forstöðumenn einstakra deilda Náttúrufræðistofnunar Íslands, þrír skipaðir af ráðh. samkv. tilnefningu félagssamtaka og einn skipaður án tilnefningar og er hann jafnframt formaður. Í þessu frv. er lögð megináherzla á að tengja sem flest þeirra félaga, sem starfa að náttúruverndarmálum, við náttúruverndarráðið. Tengiliðurinn á að vera náttúruverndarþingið og er því hér gert ráð fyrir því í frv., að þingið kjósi menn í ráðið. Því ákvæði gildandi laga er þó haldið, að menntmrh. skipi formann ráðsins. Ákvarðanir náttúruverndarráðs eru háðar samþykki menntmrn.

Þá er gert ráð fyrir fastráðnum framkvæmdastjóra og skrifstofu, sem létti þeirri kvöð af náttúruverndarráði, að einstakir ráðsmenn þurfi að hafa dagleg afskipti af málum ráðsins. Hv. Ed. gerði nokkrar breytingar á ákvæðum frv. um skipan náttúruverndarþingsins og get ég fyrir mitt leyti á þær allar fallizt.

Í upphaflegu frv. nefndarinnar voru ákvæði um náttúruverndarsjóð og fjáröflun til hans. Í stað þeirra ákvæða hefur ríkisstj. sett ákvæði í frv. um, að fyrir lok maímánaðar ár hvert semji náttúruverndarráð fjárhagsáætlun um útgjöld, sem ætla má, að leiði af framkvæmd laganna næsta almanaksár og skuli kostnaður við framkvæmdir síðan greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt til þess á fjárlögum, og er hér um að ræða hliðstæða skipun og á sér stað um aðrar menningarstofnanir ríkisins. Þá er rétt að vekja athygli á ákvæðum frv. um aðgang almennings að náttúru landsins og ákvæðum frv. um umgengni almennings úti í náttúrunni, en ákvæðin um síðara atriðið eru miklu fyllri í þessu frv. en þau, sem eru í gildandi lögum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að óþarfa akstur svo nefndra fjallabíla og dráttarvéla utan merktra bílaslóða hefur færzt mjög í vöxt á síðari árum og hefur þetta haft í för með sér, að gróður í brekkum og gíghólum hefur verið ristur í sundur af hjólbörðum ökutækja og vatn og vindar taka síðan við og fullgera eyðilegginguna. Í þessu frv. er náttúruverndarráði heimilað að leggja bann við akstri á tilteknum stöðum í tilteknum tegundum umhverfis eða á tilteknum árstímum. Þá eru og í frv. miklu ítarlegri ákvæði en eru í gildandi lögum um rusl og frágang þess, svo og um frágang og staðsetningu sorphauga. Í þessu frv. eru allir landsmenn, hvort heldur eru einstaklingar eða sveitarfélög, skyldaðir til að ganga þannig frá úrgangi, að náttúrulýti, náttúruspjöll eða hætta á mengun geti ekki hlotizt af. Sérhverjum ferðamanni er bannað að fleygja frá sér og skilja eftir rusl, sem er til hættu eða óþæginda. Vilji menn losna við rusl, er bannað að fleygja því í ár eða læki, jafnvel þótt um straumþung fallvötn sé að ræða. Rusl ber að grafa í jörðu með þeim umbúnaði, að öruggt sé, að vindar eða vatn nái ekki til þess og þannig, að engin ummerki sjáist. Bannað er að fleygja rusli eða úrgangi frá atvinnurekstri og heimilishaldi í ár, læki eða sjó og óheimilt að safna úrgangi í hauga á almannafæri. Öllu sorpi verður að koma þannig fyrir á afviknum stöðum, að hvorki fjúki né úr því fljóti.

Varðandi mengun vatns í ám, lækjum, stöðuvötnum og brunnum gegnir sama máli og um frágang á sorpi. Mengun vatns og andrúmslofts eru meðal alvarlegustu og brýnustu viðfangsefna náttúruverndar. Mengun vatns á Íslandi vex nú hröðum skrefum ár frá ári, þó að enn séu aðstæður í þessu efni allt aðrar og betri en í flestum nálægum löndum. Nálægt þéttbýliskjörnum hér er ástand þessara mála þó orðið alvarlegt, fyrst og fremst í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Hér er auðvitað um að ræða miklu stærra mál en svo, að unnt sé að gera því full skil í náttúruverndarlögum. Hér þarf því einnig að koma til kasta laga um heilbrigðismál og hollustuhætti og vatnalaga, en mengunarmálið er svo alvarlegt og viðtækt, að ríkisstj. hefur þótt ástæða til að undirbúa sérstaka lagasetningu um mengun og er hún í samningu á vegum menntmrn. Í þessu sambandi ber sérstaka nauðsyn til þess að samræma aðgerðir allra þeirra aðila, sem þessi mál varða, og er undirbúningur hafinn að því, að það geti orðið.

Þá vil ég að síðustu geta þess, að ákvæði þessa frv. um auglýsingar eru nokkuð frábrugðin ákvæðum gildandi laga. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að allar auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis verði bannaðar. Hins vegar verði ekki á valdi náttúruverndarnefndar framvegis eins og nú er að veita undanþágu frá þessu. Ákvæði frv. um friðlýsingu, sem getur verið með ýmsu móti, eru mun nákvæmari og ítarlegri heldur en ákvæði gildandi laga og eru ákvæði þessa frv. talin svara til nýjustu viðhorfa í náttúruverndarmálum.

Í bráðabirgðaákvæði við frv. er svo kveðið á, að náttúruverndarráð, sem nú starfar samkv. gildandi lögum, skuli starfa áfram, unz náttúruverndarþing hefur kosið nýtt ráð samkv. ákvæðum frv., en náttúruverndarþing skal kallað saman innan árs frá því, að lögin taka gildi, verði frv. samþykkt.

Að svo mæltu vildi ég, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað að lokinni 1. umr. til 2. umr. og hv. menntmn., og þó að skammur tími sé eftir til þingloka, þá vildi ég leyfa mér að mælast til þess við hv. menntmn., að hún freisti þess að afgreiða málið nú á þessu þingi, þar eð ég tel mörg ákvæði frv. vera til mikilla bóta frá því, sem nú er, en náttúruverndarmál verða að teljast til þeirra mála, sem á þessum tímum er hvað nauðsynlegast að sinna, og ég tel, að samþykkt þessa frv. mundi auðvelda og bæta opinber afskipti af náttúruverndarmálum.