26.03.1971
Neðri deild: 71. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

213. mál, náttúruvernd

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er að meginstofni til ávöxtur af starfi mþn., sem kosin var skv. þáltill., sem hér var samþ. á hv. Alþ. fyrir um það bil þremur árum síðan. g beitti mér þá ásamt öðrum þm. fyrir þeirri þáltill. og var hún samþ. hér shlj. og hafði mikinn byr. Þetta frv. er þó, því miður, ekki eins og það, sem mþn. sendi frá sér til hæstv. ráðh., og er þar sérstaklega þess að sakna, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir náttúruverndarsjóðnum, sem ákvæði voru um í frv. mþn. En nefndinni var það ljóst, að einn stærsti þáttur í þessu máli var sá stórfelldi fjárskortur, sem náttúruverndarstarfsemin býr við, og vildi reyna að bæta úr með því að setja lagaákvæði um sérstakan náttúruverndarsjóð, sem ekki væri blandað inn í fjárlög. Upp á þessu stakk nefndin vegna þess, að hún hafði tröllatrú á því, að þannig mundi fremur fást fé til þessara nauðsynlegu mála, sem óneitanlega hafa setið á hakanum.

Ég læt í ljós óánægju yfir því, að þessi ákvæði um náttúruverndarsjóðinn skyldu vera plokkuð úr frv. og ekki takast að fá það leiðrétt í hv. Ed. Ég mun nú stinga upp á því í hv. menntmn. d., að við reynum að leita samkomulags við hæstv. ráðh. og ríkisstj. um það að setja náttúruverndarsjóð aftur inn í frv. og vona, að hæstv. ríkisstj. sé til viðtals um athugun á því. En jafnframt vil ég segja, að þótt slíkt ekki tækist, mót von minni, þá mundi ég samt telja það mjög þýðingarmikið, að þetta frv. yrði gert að lögum á þessu þingi, og að því vil ég stuðla eftir því sem ég get, að því verði hraðað með það fyrir augum, og að þessi tilraun, sem ég hef áhuga fyrir að verði gerð til þess að setja náttúruverndarsjóð inn í frv., yrði ekki til að tefja málið. Og sem sagt, jafnvel þó að hún mistækist, yrði ég samt sem áður mjög mikill hvatamaður þess, að frv. yrði gert að lögum, því að í því eru mörg afar þýðingarmikil. ákvæði fyrir náttúruverndina og mætti þá frekar byggja framvegis ofan á þann grundvöll, sem þar er lagður.