04.03.1971
Efri deild: 57. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það til l. um Iðnþróunarstofnun Íslands, sem hér er nú til umr., hefur átt sér nokkurn aðdraganda, og skal ég reyna í sem stytztu máli að gera grein fyrir því. Það er nokkuð rakið í grg. eða aths. við frv., hvernig málið hefur verið undirbúið, en við skulum byrja þar, sem sett var á laggirnar Iðnþróunarráð með ákvörðun ráðh. án nokkurrar löggjafar í ársbyrjun 1967. Verkefni þess var m. a. að taka við af stóriðjunefnd, sem þá hafði undirbúið samninga um álbræðslu hér og aðra stóriðju og lokið sínu verki, en jafnframt var gert ráð fyrir því, að verkefni Iðnþróunarráðs yrði allverulega miklu víðtækara, enda var það stærra, og líka var gert ráð fyrir því, að það kynni að skipta sér í minni nefndir, sem það og hefur gert. Það var alltaf frá öndverðu mín ætlun að fá nokkra reynslu af starfsemi Iðnþróunarráðs, áður en ég vildi leggja það til við Alþ., að lögfesting færi fram á því. Það má segja, að nú sé nokkur tími um liðinn, og þá er ekki óeðlilegt, að fram komi till. um það að lögfesta starfsemi þessa ráðs, en jafnhliða var það nokkuð ljóst, að lögin um Iðnaðarmálastofnun Íslands, sem eru orðin nokkuð gömul og voru í upphafi allófullkomin — vil ég segja, svo að ekki sé meira sagt, enda þótt starfsemi stofnunarinnar hafi í reyndinni orðið kannske með nokkuð öðrum hætti og viðtækari en lögin gerðu ráð fyrir — gerðu að vísu ráð fyrir, að sett yrði sérstök reglugerð um alla starfsemi Iðnaðarmálastofnunar Íslands (IMSÍ), en slík allsherjarreglugerð um starfsemina var aldrei sett á laggirnar.

Fulltrúi frá Iðnaðarmálastofnun Íslands hefur átt sæti í Iðnþróunarráði, og síðan varð það að ráði að útbúa frv. það, sem hér liggur fyrir, og með þeim hætti tengja saman Iðnþróunarráð og starfsemi þess og Iðnaðarmálastofnun Íslands í þeirri veru, að Iðnþróunarráð færi með yfirstjórn Iðnþróunarstofnunarinnar. Þó með þeim hætti, að gert er ráð fyrir því, að Iðnþróunarstofnun Íslands sé sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn iðnrn., en stjórn stofnunarinnar skuli nefnast Iðnþróunarráð og vera skipuð af iðnrh. til fjögurra ára í senn eftir tilnefningu tiltekinna aðila. Þessir aðilar eru m. a. þau félagasamtök, sjö talsins, sem áður tilnefndu hvert um sig einn mann í stjórn Iðnaðarmálastofnunar, þ. e. Alþýðusamband Íslands, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands, auk Iðnsveinaráðs Alþýðusambands Íslands, sem hins vegar er, að mér skilst, orðið óvirkt og hefur á einn eða annan hátt lagt niður starfsemi sína. Auk þeirra, sem voru í Iðnþróunarráði, er fleiri aðilum bætt við, þannig að eins og menn sjá af 3. gr. frv., eru tilnefndir í ráðið fulltrúar af hálfu stofnana og samtaka, sem hafa með fjármál iðnaðarins að gera, iðnmenntun og það, sem almennt gæti talizt til iðnþróunar. Verður ráðið í heild nokkuð fjölmennt, skipað 22 aðilum eða 23 að meðtöldum ráðh., sem er gert ráð fyrir, að sé formaður þess. En þegar svo er komið, þá liggur í augum uppi, að minni framkvæmdastjórn þarf að velja, og gert er ráð fyrir því, að hún sé valin af ráðh. úr hópi Iðnþróunarráðs til þess að sjá um daglega stjórn og rekstur þessarar stofnunar með framkvæmdastjóra stofnunarinnar.

Iðnaðarmálastofnun mundi þannig bæði breyta um nafn og nokkuð um starfsemi, en hún hefur verið í vissum tengslum við iðnþróunarstofnanir og framleiðnistofnanir í Evrópu og tekið þátt í fundahöldum með þeim, eftir því sem ástæður hafa leyft. Samkomulag var um það milli þeirra aðila, sem stóðu að samningu frv., og rn., að rétt væri að velja stofnuninni þetta nafn, Iðnþróunarstofnun Íslands, og gefa þannig ótvírætt í skyn, að það væri fyrst og fremst iðnþróunin í landinu, sem stofnunin mundi fást við. Stofnunin yrði þannig aðgreind nokkuð meira frá öðrum stofnunum, sem hafa með iðnaðarmál að gera, eins og Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Iðnaðardeild Sambandsins o. s. frv.

Án þess að nokkur grein sé gerð fyrir því í grg., þá hefur verið samin hugsanleg áætlun um deildaskiptingu og starfsemi Iðnþróunarstofnunarinnar. Þetta er ekki endanlegt skipulag, og því þótti ekki rétt að láta það fylgja sem fylgiskjal, en til fróðleiks fyrir hv. dm. vil ég geta þess, að í stórum dráttum er þetta hugsað þannig, að Iðnþróunarstofnun Íslands sé undir stjórn Iðnþróunarráðs, en iðnrn. hafi yfirstjórn þessara mála með höndum, og síðan hafi Iðnþróunarráð framkvæmdastjóra eins og Iðnaðarmálastofnun Íslands og framkvæmdastjórn. Hún mun reka sína almennu skrifstofu, og hugsanleg deildaskipting — sem er nú aðeins hugsuð og gæti breytzt í framkvæmd, þegar nánara er hugað að — væri: Stöðlunardeild, en stöðlun hefur verið eitt af aðalmálefnum Iðnaðarmálastofnunar. Hönnunardeild, en vísir að iðnhönnun hefur verið tekinn upp innan vébanda Iðnaðarmálastofnunar Íslands fyrir tilstuðlan iðnrn. á s. l. ári. Fræðslu- og auglýsingadeild, sem hefur gefið út tímarit, eins og kunnugt er, og komið upp sæmilegu eða nokkru bókasafni og veitt ýmiss konar upplýsingar. Tækni- og aðstoðardeild, en það var a. m. k. um tíma verulegur þáttur í starfsemi Iðnaðarmálastofnunar að veita tækniaðstoð og annars konar aðstoð vegna rekstrar, framleiðniathugana, áætlanagerðar og hagkvæmnirannsókna, og um tíma þegar erlendir aðilar voru hér á vegum OECD á árunum eftir 1960, þá voru þeir jafnan í tengslum við þessa stofnun þann tíma, sem þeir dvöldu hér á landi. Það má segja, að vissulega hafi ýmiss konar tækniaðstoð um tíma lagzt niður, en fyrirhuguð er ýmiss konar meiri samvinna við erlenda aðila í sambandi við tækniaðstoð, rekstraraðstoð, hagkvæmnisrannsóknir o. s. frv., eins og vitnað er til í aths. við frv., sérstaklega við Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNIDO) og aðrar stofnanir, sem þar eru eins konar systurstofnanir undir verndarvæng Sameinuðu þjóðanna.

Reyndar eru fleiri aðilar, sem gert er ráð fyrir, að þessi stofnun kunni að hafa samband við, og ætlunin er, að erlendir aðilar, sem fengnir væru hér til aðstoðar, mundu hafa sínar bækistöðvar í Iðnróunarstofnuninni, en Iðnaðarmálastofnun Íslands eignaðist fyrir nokkrum árum eigið húsnæði, sem er stofnuninni líka nokkur styrkur, og þess vegna er í stórum dráttum sæmilega — skulum við segja — að henni búið. Það hafa svo verið hliðargreinar á starfseminni, sem kynnu að halda áfram, eins og verkstjóranámskeið undir stjórn vissra aðila í tengslum við Iðnaðarmálastofnunina, sem yrði þá í í sambandi við Iðnþróunarstofnunina, og stjórnunarfræðsla, sem nú hefur verið komið á laggirnar, eins og vitað er, fyrir tilstuðlan iðnrn. og undir sérstakri stjórn, en er til húsa hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands. Sú stjórnunarfræðsla, ef hún gefst vel, sem ég tengi miklar vonir við, ætti að sjálfsögðu að verða víðtækari og ekki endilega tengd við iðnaðinn, enda eru núna í stjórnunarfræðslunni aðilar frá öðrum atvinnugreinum en iðnaði, eins og eðlilegt verður að teljast, og um það væri að sjálfsögðu rétt að hafa samvinnu við aðrar atvinnugreinar á hverjum tíma.

Það er auðvitað nokkurt álitamál, hvaða aðilar eiga að hafa fulltrúa í Iðnþróunarráði með þessum hætti, en þó held ég, að hér sé nokkuð vel á haldið í bili frá fjárhagslegu, tæknilegu og rannsóknarlegu sjónarmiði og öðrum svipuðum sjónarmiðum. Þannig mundum við vilja tengja t. d. framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins með fulltrúa í Iðnþróunarráði við Iðnþróunarstofnun, en oft eru það verkefni nátengd iðnþróun, sem Rannsóknaráð ríkisins fer með og ýmsir aðilar á hennar vegum, hvort heldur er framkvæmdanefnd eða — við skulum segja — sjóefnavinnslan, sem sett var á laggirnar, og það getur oft verið álitamál, hvenær slík mál koma af frumstigi rannsóknanna og færast inn á framkvæmdastigið og flytjast á milli aðila. Því er bezt að hafa á hverjum tíma sem mest samráð um það frá upphafi að forðast tvíverknað og einnig að forðast ágreining á milli stofnana í þessu sambandi, sem ég held, að sé ákaflega auðvelt að forðast, ef menn hafa nægjanlega gott samráð um þessi atriði.

Ég skal ekki eyða tímanum í það að lesa upp úr frv. sjálfu markmið stofnunarinnar, sem greint er frá í 2. gr. Það má segja, að það sé mjög víðtækt og mætti kannske bæta einhverju við eða draga úr einhverju; það yrði þá til athugunar í n. Ég vil heldur ekki lengja ræðutímann hér með því að gera mönnum grein fyrir margháttaðri starfsemi Iðnþróunarráðs frá 1967, en um það liggja fyrir skýrslur, sem iðnn. þessarar deildar sem fær málið til meðferðar, gæti fengið auðveldlega aðgang að hjá iðnrn., ef þess yrði óskað.

Nú er sá galli á frv. — sem ég viðurkenni — að það er seint fram komið, og ég hafði hugsað mér að leggja það fram miklu fyrr á þinginu. Ég treysti mér ekki til að leggja megináherzlu á þessu þingi á afgreiðslu slíks máls, sem ekki er fyrr fram komið en þetta, en hins vegar væri mér það mjög kærkomið, ef það gæti orðið það gott samkomulag um afgreiðslu málsins, sem er í eðli sínu næsta óflókið að það gæti náð afgreiðslu á þinginu, og ég teldi það til bóta. Ef það yrði ekki, þá mundi skipulag þessara mála vera eins og það hefur verið og — við getum sagt — nokkuð að skaðlausu fram til þess, er næsta Alþ. tæki til starfa, en þó væri það vissulega betra að geta komið að þessari stjórn og þessari stofnun, en það háttar m. a. þannig til, að það átti að skipa stjórn Iðnaðarmálastofnunarinnar á s. l. hausti, og ég hef dregið endurskipan hennar m. a. vegna þess, að ég gerði ráð fyrir, að þingið gæti afgreitt þetta frv., þegar það kæmi fram nú á þessu þingi.

Ég lýk svo máli mínu með því að endurtaka ósk mína um það, að það mætti svo vel til takast, að við gætum afgreitt þetta mál á þinginu, og það held ég, að ætti að vera hægt, ef nægjanlega góð samstaða næst um málið, en það hefur verið gott samkomulag við undirbúning þess, og hafa nú miklu fleiri starfað að undirbúningi þess en þeir þrír menn, sem ég endanlega bað um að semja frv., þ. e. Bragi Hannesson bankastjóri Iðnaðarbankans, Pétur Pétursson, forstjóri Álafoss, og Sveinn Björnsson, framkvæmdastjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands. Að svo mæltu vil ég leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.