24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm., skrifuðum við nm. undir þetta nál. með þeim fyrirvara, að við hefðum óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt. við það. Það er ástæða til að taka það fram, að í iðnn. var fallizt á nokkrar brtt., sem að mínum dómi voru eðlilegar, við frv., og fyrir mitt leyti hef ég ekki séð neina ástæðu til að flytja hér nema eina brtt. skriflega við þetta frv. Ég flyt hana ásamt hv. 3. þm. Vestf. Hún er við 3. gr., þar sem ákveðið er, að iðnrh. skuli jafnframt vera formaður n., og lagt er til, að þessi orð falli niður. En í staðinn fyrir þau komi aftan við gr. þessi orð: Iðnrh. skipar formann Iðnþróunarráðs úr hópi meðlima þess. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fyrir þessari till. langa framsögu. Það var bent á það hér við 1. umr., að reynslan sýndi, að þar sem þetta fyrirkomulag er viðhaft, gerði það hvort tveggja í senn, að hæstv. ráðh., sem þessa fundi situr og tekur þátt í ákvörðunum ráðsins, álíti sig bundinn af því, sem þar er ákveðið — bundnari en hann væri, ef hann ætti engan beinan þátt að þessum samþykktum. Það er hins vegar til bóta og hlýtur að vera, held ég, samkvæmt eðli málsins, að málið fái tvöfalda, sjálfstæða athugun, þannig að fyrst sé mál athugað í þessu Iðnþróunarráði, en síðan fari fram önnur athugun á ályktun Iðnþróunarráðs í viðkomandi rn. Enn fremur má ætla, að þar sem ráðh. er einn ráðsmanna, þá verði hans skoðanir áhrifaríkar, þegar slík ráð koma saman, og þannig verði hans vilji oft og tíðum yfirsterkari því, sem annars mundi verða niðurstaða ráðsins, ef aðrir meðlimir fengju tækifæri til þess að athuga það einir.

Ég held, að það sé óþarfa umhyggja, sem kom fram hjá hv. frsm. n., að það sé líklegt, að engin tengsl geti skapazt milli ráðsins og rn. án þess, að ráðh. veiti ráðinu forstöðu. Ég held, að það sé engin ástæða til þess að óttast það. Ég treysti því a. m. k. fyrir mitt leyti, að meðlimir ráðsins, hverjir sem verða valdir, eins og þarna segir til, hafi í fyrsta lagi fulla einurð til þess að koma sínum skoðunum á framfæri við viðkomandi rn., og í öðru lagi álít ég, að það sé embættisskylda ráðh. að fylgjast með því, sem svona valdamikil stofnun og viðamikil leggur til, þannig að ég held, að það sé alveg ástæðulaust að óttast það, að þarna muni vinstri höndin aldrei vita, hvað sú hægri er að gera, heldur eigi einmitt að leggja áherzlu á það, að þetta ráð sé sjálfstæður aðili — ráðgefandi aðili — og sinni þeim verkefnum óháð, sem því samkv. þessu frv. er falið, sem að öðru leyti er að mínum dómi til bóta sem áframhaldandi spor í þá átt, sem stefnt er raunar í. Ég leyfi mér að leggja till. þessa skriflega fram, herra forseti, og óska eftir því, að leitað verði afbrigða til þess, að hún megi koma til algreiðslu.