24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég fagna þeim breyt., sem hafa orðið á frv. í meðferð n., en vil leyfa mér að flytja til viðbótar þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 11. þm. Reykv., tvær brtt. við 4. gr. frv. Ég hef því miður ekki haft tíma til að láta prenta þær og flyt þær skriflega.

Við 4. gr. frv. vil ég í fyrsta lagi gera þá brtt., að aftan við 1. málsl. 1. málsgr. bætist: „þar af þrjá samkv. tilnefningu Iðnþróunarráðs.“

Eins og hv. frsm. gat um í framsöguræðu sinni, þá hafa ábendingar um þetta komið a. m. k. frá tveimur aðilum, sem til hefur verið leitað, Verzlunarráði Íslands og Félagi ísl. iðnrekenda, sem leggja á það áherzlu, að raunar fjórir af fimm meðlimum framkvæmdastjórnar séu tilnefndir af Iðnþróunarráði. Ég tel rétt að ganga til móts við óskir þessara aðila og legg því til, að þrír verði þannig tilnefndir, og þykist þá jafnframt taka tillit til óska þeirra, sem frv. hafa samið, og hæstv. ríkisstj., sem leggur það fram. Ég tel eðlilegt, að iðnaðurinn og atvinnuvegirnir, sem eru þeir aðilar, sem þessi stofnun á að starfa fyrir, hafi sterk ítök í stjórn stofnunarinnar. Ég hygg, að það sé margfengin reynsla, að stofnun sem þessi fær ekki sinnt sínum mikilvægu verkefnum, nema hún njóti trausts út á við meðal forráðamanna atvinnuveganna og sé í nánu samstarfi við þá. Ég lít svo á, að eitt meginhlutverk slíkrar stofnunar sé einmitt að skapa þetta samband og það fáist fyrst og fremst gert með því að veita þessum aðilum sterk ítök í stjórninni með tilnefningu fulltrúa þar.

Í öðru lagi legg ég til, að 2. málsgr. í 4. gr. orðist svo: „Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra Iðnþróunarstofnunar Íslands til,fimm ára í senn.“

Ég tel, að það sé ekki rétt, sem tíðkazt hefur við flestar ríkisstofnanir, þar sem stjórnir eru starfandi, að framkvæmdastjórar og forstjórar eru skipaðir af ráðh. — að vísu að fengnum till. viðkomandi stjórnar, en þó raunar án íhlutunarréttar stjórnanna. Hefur þetta hvað eftir annað leitt til þess, að árekstrar hafa orðið á milli stjórna stofnananna og forstöðumanna þeirra. Það liggur í augum uppi, að forstjórar og framkvæmdastjórar stofnana, sem skipaðir eru af ráðh., geta auðveldlega leitað fram hjá stjórnum viðkomandi stofnunar til rn. eða ráðh. og þannig oft komizt fram hjá þeim vilja, sem fram kemur í stjórn stofnunarinnar. Ég þarf ekki að nefna nein dæmi, en ég hygg, að hæstv. ríkisstj. sé vel kunnugt um ýmis slík tilfelli. Ég tel það fremur til heilla, að stjórn viðkomandi stofnunar sé hinn ákveðni, sterkasti aðili í stjórn stofnunarinnar — vitanlega næst rn. og ráðh., sem hefur allan þann rétt til íhlutunar, sem felst í 1. gr. frv., þar sem fram er tekið, að stofnunin sé undir yfirstjórn iðnrn. En með þessu móti verður skýrari leið ákvarðana og skipana frá iðnrn. um stjórn stofnunar og til forstjóra, og þannig á þetta að vera að mínu mati.

Ég held, að það sé einnig rétt að ráða forstjóra stofnunar ekki ævilangt, eins og nú tíðkast. Það er oft gott að breyta til, og mér sýnist, að fimm ára ráðningartími í senn sé hæfilegur tími. Vitanlega má endurráða framkvæmdastjóra, ef það reynist rétt, en þetta gerir kleift að leita að nýjum framkvæmdastjóra, ef stjórn stofnunarinnar telur það nauðsynlegt, og veitir sömuleiðis aðhald, sem ég tel, að þurfi að vera.

Eins og ég sagði áðan, þá hefur ekki gefizt tími til þess að fá þessar till. prentaðar, og vil ég alhenda þær hæstv. forseta og biðja hann að leita afbrigða, svo að þær megi kom hér fyrir.