29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í samráði við yfirdýralækni. Það er um breyt. á l. nr. 23 27. apríl 1959 um sauðfjárbaðanir. Í 1. gr. frv. er lagt til, að sauðfjárbaðanir fari næst fram á tímabilinu 1. nóv. til 15. marz, veturinn 1971–1972. Eftir það er heimilt að baða annað hvert ár, en á sama tíma vetrar. Eins og l. nú eru, ættu sauðfjárbaðanir að fara fram á þessu hausti og fyrri part næsta vetrar, en víða utan af landi hafa komið beiðnir frá bændum um það að fresta sauðfjárböðun að þessu sinni. Hefur það mál verið borið undir yfirdýralækni, og hann hefur talið, að það væri hættulaust að fresta böðun.

Lengi vel var það í l., að baða skyldi ár hvert, en fyrir 10 árum var eftir beiðni Búnaðarþings og Búnaðarfélags Íslands á það fallizt að breyta l. þannig, að ekki væri skylt að baða nema annað hvert ár. Sumir töldu, að af þessu gæti stafað hætta, en 10 ára reynsla hefur sýnt, að það er ekki um slíkt að ræða. Færilús og kláði er næstum alveg úr sögunni, enda þótt ekki hafi verið baðað oftar en annað hvert ár. Talið er, að þótt frestun verði nú á böðun, sé ekkert til fyrirstöðu að láta böðun fara fram á þeim stöðum, þar sem kláða yrði vart eða annarra óþrifa. Telur yfirdýralæknir því — og héraðsdýralæknar — ekkert því til fyrirstöðu að verða við þessum óskum, sem fram hafa komið frá mörgum bændum að fresta sauðfjárböðun að þessu sinni. Það er augljóst mál, að ef úr þessu á að verða, þarf að hraða lögfestingu þessa frv., og vænti ég, að hv. Alþ. hafi ekki við það að athuga, þótt þessi lagabreyting verði gerð samkv. óskum bænda, þar sem yfirdýralæknir og héraðsdýralæknar telja hættulaust að breyta l. á þennan hátt.

Ég vil, herra forseti, að lokinni þessari umr. leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.