25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed., og hefur deildin gert á því nokkrar breytingar, sem ég fyrir mitt leyti hef fallizt á, og það má þess vegna ætla, að það sé nokkuð góð samstaða orðin um þetta mál, og vildi ég því mega vona, að það verði ekki vandkvæðum bundið að afgreiða það í þessari hv. d. Hér er um það að ræða að gera nokkrar skipulagsbreytingar til viðbótar á sviði iðnaðarins, þ. e. að sameina Iðnþróunarráð, sem starfað hefur án nokkurrar lagasetningar á undanförnum árum undir forsæti og formennsku iðnrh., og Iðnaðarmálastofnun Íslands, en um hana var mjög ófullkomin löggjöf. Hins vegar hefur stofnunin þurft að sinna og sinnt með ágætum hætti í sívaxandi mæli ýmsum mikilsverðum málum iðnaðarins. Þessi breyting var undirbúin í rn., og að lokum valdir þrír menn til þess að setja saman þetta frv., eins og fram kemur í grg. og var m. a. forstjóri eða framkvæmdastjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands, Sveinn Björnsson, einn af þeim þremur mönnum, sem endanlega settu málið í frv.-form. Hér er um að ræða að breyta í raun og veru nafninu á Iðnaðarmálstofnun Íslands og sameina það Iðnaðarmálaráði og kalla þessa stofnun Iðnþróunarstofnun Íslands. Verkefni hennar eru tilgreind í annarri grein frv., sem ég þarf ekki að lesa sérstaklega. Upphaflega var gert ráð fyrir því, að Iðnþróunarráð væri stjórn stofnunarinnar, en því var breytt þannig í Ed., að Iðnþróunarráð, sem er fjölmennt ráð, væri ráðgefandi aðili í þessum efnum, en hins vegar væri framkvæmdastjórn fimm manna raunverulega stjórn stofnunarinnar. Þetta voru menn yfirleitt sammála um, að mundi gefast betur, því að það er ekki gert ráð fyrir, að Iðnþróunarráð sem ráðgefandi stofnun komi saman nema tvisvar á ári eða svo eða oftar, ef þurfa þykir. Það skal beinlínis koma saman ekki sjaldnar en tvisvar sinnum á ári, en að sjálfsögðu æti það haldið fleiri fundi, ef þess væri talin þörf. Ég tel, að það sé mjög brýnt nú í sambandi við margháttaða iðnþróun að efla Iðnaðarmálastofnunina, sem verður enn með svipuðum hætti, en hún skiptir um nafn eins og ég sagði, og Iðnþróunarráð verður ráðgefandi stofnun — en í því eru þeir aðilar, sem voru stjórnaraðilar að Iðnaðarmálastofnun — og síðan verður samkv. 4. gr. stofnuninni sett sérstök framkvæmdastjórn, sem ráðh. skipar, en samkv. breyt., sem gerð var í Ed., verða tveir stjórnarmenn tilnefndir af sjálfu Iðnþróunarráði, en hinir af ráðh., sem skipar formann stjórnarinnar. Ég skal ekki eyða fleiri orðum í þessa framsögu, en vona, að það geti orðið samkomulag um málið, eins og ég sagði áðan, og leyfi mér að leggja til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. iðnn.