01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar. Með frv. þessu er aðilum að Iðnþróunarráði fjölgað mjög verulega, þannig að nú verði ekki aðeins aðilar að Iðnþróunarráði þau félagasamtök, sem beinlínis stunda eða standa að iðnaði, heldur einnig rannsóknastofnanir, skólar, sem veita tæknilega menntun, stofnanir, sem vinna að orkuvinnslu, og fleiri aðilar, sem beint og óbeint hafa þýðingu fyrir iðnaðinn og eflingu hans. Gert er ráð fyrir, að Iðnþróunarráð verði ráðgefandi aðili við Iðnþróunarstofnun Íslands og að fimm manna framkvæmdastjórn þessarar stofnunar verði skipuð úr hópi iðnþróunarráðsmanna eða þeirra manna, sem eiga sæti í Iðnþróunarráði. Iðnþróunarstofnunin tekur við störfum Iðnaðarmálastofnunar Íslands, og verður starfsemi hennar þannig byggð á traustari og áhrifameiri grundvelli til eflingar og framþróunar iðnaði í landinu. Er t. d. gert ráð fyrir, að stofnunin annist milligöngu um aðstoð Iðnþróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna við íslenzka aðila. Iðnn. hefur, herra forseti, orðið sammála um að mæla með samþykkt frv., eins og það kom frá Ed. — að vísu dálítið breytt, en einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.