02.04.1971
Neðri deild: 82. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá iðnn. á þskj. 742 um þetta mál, þá hefur n. einróma lagt til, að frv. verði samþ., en einstakir nm. áskildu sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Þegar ég gerði fyrir mitt leyti þennan fyrirvara, hafði ég hugsað mér að flytja tvær brtt. við þetta frv., en hafði ekki fullráðið við 2. umr., hvort ég flytti þær báðar, en nú hef ég milli umr. ákveðið að flytja aðeins aðra till. Og hún liggur hér fyrir á þskj. 769, og er brtt. við 3. gr. frv. 3. gr. frv. er um Iðnþróunarráð, sem eftir þá breytingu, sem gerð var á frv. í hv. Ed., á að vera ráðgefandi aðili fyrir Iðnþróunarstofnun Íslands. Þetta Iðnþróunarráð á að vera skipað af iðnrh. til fjögurra ára í senn, og er ráðh. formaður ráðsins samkv. gr., en síðan eru taldir þeir aðilar, sem að öðru leyti tilnefna menn í Iðnþróunarráð, einn mann hver aðili. Þessir aðilar eru nokkuð margir. Einn þeirra aðila, sem gert er ráð fyrir, að skipi fulltrúa í Iðnþróunarráð, er Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík. Ég tel þetta eðlilegt, að í Iðnþróunarráði sé fulltrúi frá verksmiðjufólki, en vek athygli á því, að þarna er ekki gert ráð fyrir fulltrúa frá landssamtökum eða landssambandi, heldur aðeins frá stærsta félaginu, þ. e. Iðju í Reykjavík. Nú er Akureyri mjög mikill iðnaðarbær, og þar er mjög fjölmennt félag iðnverkafólks, Iðja á Akureyri. Og ég vil leyfa mér að leggja til, að það félag fái einnig rétt til þess að tilnefna mann í Iðnþróunarráð. Um það fjallar brtt., og vænti ég, að enginn hafi á móti því, að hún verði samþ.