29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 688, hefur fjhn. þessarar hv. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Á þskj. leggur meiri hl. fjhn. til, að frv. verði samþ. með breytingum, sem meiri hl. n. flytur á þskj. 673. Minni hl. skila svo sínum sérálitum.

Eins og hv. þm. rekur minni til og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. þessa máls, þá skipaði hann nefnd embættismanna til þess að endurskoða lög um tekju- og eignarskatt. Með tilliti til þess, að Ísland gerðist á s.l. ári aðili að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, fól ráðh. n. í framhaldserindisbréfi til hennar að gera till. um framtíðarstefnu í málefnum tekju- og eignarskatts. Á s.l. þingi, í lok þess, flutti fjhn. þessarar hv. d. frv. að breytingu á skattalögum að beiðni ráðh. og var því aðeins ætlað að sjá dagsins ljós til þess, að hv. alþm. hefðu tækifæri til þess að kynna sér frv. Niðurstaðan af meðferð þess máls varð m.a. sú, að hæstv. fjmrh. skipaði að loknu þingi n. þm. allra þingflokkanna úr fjhn. beggja þd. til þess að fylgjast með áframhaldandi störfum embættismannanefndarinnar og fá tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum þeirra og ræða frv., sem þar hefur verið lagt fyrir jafnóðum og það varð til, og hugsunin með þessari skipan var sú, að fjhnm. allra þingflokka væru þessu máli kunnugir, þegar það kæmi síðar til umr. og athugunar hér á Alþ.

Frv. var síðan lagt fram og hefur verið til meðferðar í fjhn. þessarar hv. d., og hafa þeir fulltrúar embættismannanefndarinnar, sem hvað mest hala unnið í þessu máli, verið n. til aðstoðar og ráðuneytis, en það hafa verið sérstaklega þeir Jón Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í fjmrn., og ríkisskattstjórinn Sigurbjörn Þorbjörnsson. Þegar frv. var komið til fjhn., var það sent til umsagnar þeim aðilum, sem hafa hvað helzt hagsmuna að gæta í sambandi við þessa lagasetningu, þ.e. til samtaka atvinnurekenda, og skiluðu fimm samtök shlj. umsögn til n., þ.e. Landssamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasamband Íslands, Landssamband iðnaðarmanna og Verzlunarráð Íslands. Hins vegar stóð Samband ísl. samvinnufélaga ekki að þessari umsögn að öðru leyti en því, að það sendi sérstakt bréf til n., þar sem það lýsti sig sammála því, sem fram kom í umsögnum hinna vinnuveitendasamtakanna.

Fjhn. hefur síðan unnið að skoðun frv. og haft mjög til athugunar þær umsagnir, sem fram komu, og þær brtt., sem meiri hl. flytur, eru vissulega til þess að breyta ákvæðum frv. þannig og eftir því, sem bent hafði verið á af hálfu þeirra aðila, sem –eins og ég gat um áðan — mestan áhuga höfðu á þeirri lagasetningu, sem hér um ræðir. Ég vil nota tækifærið hér og færa samnefndarmönnum mínum í fjhn. þakkir fyrir þeirra störf, því að þetta hefur af skiljanlegum ástæðum verið mikið starf, sem hér hefur verið unnið, og jafnframt vil ég færa þeim ríkisskattstjóra og ráðuneytisstjóranum þakkir fyrir þeirra aðstoð í sambandi við þetta mál. Ég mun leitast við að gera grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. n. flytur, og jafnframt mun ég gera grein fyrir því, með hvaða hætti þau frv., sem flutt voru á síðasta þingi, hafa fengið afgreiðslu svo og hvernig tekið hefur verið tillit til þeirra frv., sem flutt hafa verið á þessu þingi í sambandi við brtt. þær, sem meiri hl. hér gerir. Mér þykir því rétt að gera fyrst grein fyrir brtt. meiri hl. og síðar þeim brtt. — eða þeim till., sem fluttar hafa verið og var ýmist á síðasta þingi vísað til ríkisstj. eða liggja nú fyrir fjhn. beggja þd., því að athugun fór enn fremur fram á því, hvort í till. meiri hl. bæri að taka til greina einhverjar ábendingar, sem fram hafa komið í Ed. í sambandi við breytingar á skattalögum , til að flýta fyrir og gera vinnubrögðin eins hagkvæm og mögulegt er.

Á þskj. 673 eru brtt. meiri hl., og 1. brtt. er um það, að 1. tölul. 1. gr. frv. falli niður, þannig að helmingur tekna giftrar konu haldi áfram að vera skattfrjáls, en þetta hefur verið án takmörkunar. Í frv. er lagt til, eins og þm. hafa séð, að frádrátturinn nemi aðeins hálfum persónufrádrætti hjóna, en andmæli komu fram í sambandi við þetta ákvæði, og meiri hl. n. telur, að með tilvísun til þeirrar stefnu, sem fjmrh. gerði grein fyrir í sinni framsögu, þ.e. um sérsköttun hjóna, þá sé ekki ástæða til að taka þetta ákvæði upp nú, heldur láta það koma inn af sjálfu sér, þegar sú breyting tæki gildi.

2. brtt. á þskj. fjallar um að fella niður nokkur orð úr 2. gr. frv., sem leiðir af breytingu á 9. gr. frv., sbr. 8. tölul. á þskj. 673, b-lið, sem verður hér ræddur á eftir, þ.e. það er felld niður úr 9. gr. frv. heimild til skattfrelsis á arði barna, sem nemur 15 þús. kr. En til þess að slíkt væri heimilt, þá þurfti þá breytingu, sem frv. gerði ráð fyrir, en í brtt. meiri hl. er gert ráð fyrir eða lagt til, að sú heimild verði felld niður.

Þá er 3. brtt. Þess ber að geta í upphafi, að það hefur fallið niður ein lína í brtt. Upphaf brtt. á að orðast svo: „Við 3. gr. Greinin orðist svo: 5. gr. laganna orðist svo: ...“ Og leiðréttist það hér með. Í frv. er gerð till. um þá breytingu, að sameignarfélög verði ekki áfram sérstakur skattaðili, en í brtt. við frv. er hins vegar gert ráð fyrir því, að sameignarfélögin haldi áfram að vera til sem sjálfstæðir skattaðilar, en þó með þeim skilyrðum, að slík félög séu sérstaklega skráð í firmaskrá og við skráningu liggi fyrir félagssamningur, þar sem getið er eignarhlutfalla eigenda, innborgaðs stofnfjár, sem eigendur skuldbinda sig til að láta standa óhreyft í félaginu til félagsslita, svo og hvernig félagsslitum skuli háttað. Það er gert ráð fyrir því, að hjón ein sér eða með ófjárráða börnum sínum geti ekki myndað sameignarfélög af þessu tagi. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir, að önnur sameignarfélög verði ekki skattlögð sem sjálfstæðir skattþegnar, heldur verði eignum og tekjum þeirra skipt milli félagsaðila eftir eignarhlutföllum og þær skattlagðar með öðrum eignum og tekjum félagsaðilanna, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Til skýringar á þessari breytingu er nauðsynlegt, að fram komi strax, að í stórum dráttum er breytingunni ætlað að ná því markmiði, að sameignarfélög, sem hafa sæmilega traustan lagagrunn, geti orðið sjálfstæðir skattaðilar og þá með sambærilegum kjörum og tíðkast um hlutafélög. Af þessu leiðir nokkra þrengingu á ráðstöfunarrétti fjár í sameignarfélögum, en eins og kunnugt er, er samkvæmt núgildandi skattalögum heimilt að ráðstafa út úr sameignarfélögum, sem eru sérstakir skattaðilar, öllu því fjármagni, sem ekki er lagt í varasjóð. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því, að upp verði tekin sú regla, að aðeins 10% af því fjármagni af hagnaði fyrirtækis sé heimilt að ráðstafa út úr sameignarfélaginu og þessi 10% verði skattlaus hjá viðtakanda, en sé skattlagt hins vegar í sameignarfélaginu. Þrengingin er úr 100% ráðstöfun ofan í 10% ráðstöfun.

Þá er 4. brtt. Í a-liðnum feist aðeins leiðrétting á orðalagi, en engin efnisbreyting. Í b-lið brtt. felast hins vegar umfangsmiklar breytingar á frv. Gert er ráð fyrir skattlagningu arðs af eignarhlutum í sameignarfélagi með sama hætti og arðs af hlutabréfum. Gert er ráð fyrir, að ákvæði frv. um útgáfu jöfnunarhlutabréfa verði ekki upp tekin, heldur verði núgildandi jöfnunarhlutabréfaútgáfa látin gilda — þó svo, að vísitala fyrir slíka jöfnunarbréfaútgáfu taki gildi 1. jan. 1973, en fram að þeim tíma megi gefa út jöfnunarhlutabréf skattfrjáls án takmörkunar af öðru en raunvirði eigna. Í sambandi við arð af eignarhlutum í sameignarfélagi, sem getið var, er gert ráð fyrir, að slíkur arður teljist sérhver afhending verðmæta til eigenda eignarhluta, sem telja verður sem tekjur af eignarhluta þeirra í félaginu, er nemur hærri fjárhæð en 10% af stofnfé og hreinni bókfærðri eign félagsins, annarri en skattfrjálsum varasjóði í byrjun þess árs, sem úthlutunin átti sér stað. Í e-lið 4. tölul. þskj. felast einnig mjög miklar breytingar frá frv. Fallið er frá meginreglum um skattlagningu söluhagnaðar, sem gerði ráð fyrir, að aldrei minna en fjórðungur slíks hagnaðar yrði skattlagður. Þess í stað er gert ráð fyrir, að söluhagnaður af fyrnanlegu lausafé sé skattfrjáls eftir fjögur ár og skattlagður að hálfu eftir tveggja ára eignarhald. Að því er varðar fasteignir, er hins vegar gert ráð fyrir, að söluhagnaður af þeim verði skattlagður að fullu, hafi skattþegn átt eignina skemur en þrjú ár. Sé eignarhaldstíminn 3–4 ár, skulu 75% af söluhagnaðinum vera skattskyld. 50% eru skattskyld, ef skattþegn hefur átt eignina 4–5 ár, en 25% skattskyld, hafi hann átt eignina 5–6 ár, en eftir það skal söluhagnaður af fyrnanlegri fasteign ekki skattlagður. Reglan nú er sú, að hagnaður af fyrnanlegri fasteign er skattlagður að fullu innan 5 ára. Hér er lagt til að breyta þeirri reglu og láta skattlagninguna minnka á 3–6 árum, en eftir 6 ár verði engin skattlagning á söluhagnaði af fyrnanlegri fasteign. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir, að allar fyrningar umfram heimilaða lágmarksfyrningu séu skattskyldar að fullu, ef þær fást endurgreiddar af söluverði fyrnanlegrar eignar. Frá þessari reglu er þó gert ráð fyrir undantekningu, að því er varðar skip og flugvélar fyrstu þrjú árin, en að því er þær eignir varðar, er gert ráð fyrir, að mismunur hámarks- og lágmarksfyrningar þann tíma verði ekki skattlagður, jafnvel þó að hann fáist borinn uppi í söluhagnaði. Þá er gert ráð fyrir, að ágóði af sölu hlutabréfa, þ.e. mismunur eðlilegs söluverðs þeirra og kaupverðs, sé skattskyldur eins og fyrnanlegt lausafé, sbr. það, sem nú er.

Þá komum við að 5. brtt. meiri hl. Gerð er till. um það, að í 6. gr. frv. verði jafnhliða ákvæðum um arðjöfnunarsjóð tekið upp ákvæði um varasjóð, en ég mun síðar gera grein fyrir notkunarheimild þessara ákvæða, þegar kemur að brtt. varðandi skattlagningu hlutafélaga.

Í 6. brtt. meiri hl. er fjallað um ákvæði um skattfrelsi fæðis, og leggur meiri hl. til, að það sé litillega rýmkað þannig, eins og brtt. gerir ráð fyrir, að fæði, sem allir launþegar, sem vinna utan heimilissveitar sinnar, fái hjá vinnuveitendum sínum, sé skattfrjálst og sömuleiðis, þótt unnið sé innan heimilissveitar, ef eingöngu er um að ræða hluta af fullu fæði eða samsvarandi hæfilegan fæðisstyrk.

7. brtt. er ekki efnisbreytingartillaga, heldur aðeins orðalagsbreyting til þess að forðast misskilning, en er í samræmi við framkvæmd l. nú, eins og gert hafði verið ráð fyrir með frv.

Þá er komið að 8. brtt. Í a-liðnum er gert ráð fyrir heimild til þess að eignfæra vexti af lánum til öflunar eigna, þar til þær eru hæfar til tekjuöflunar. Er hér miðað við fyrirtæki, sem kann að vera að hefja starfsemi sína og hefur því ekki tekjur til að mæta gjaldfærslu vaxta, á meðan á byggingartíma mannvirkja stendur. Er því talið eðlilegt, að þessu fyrirtæki sé heimilað að færa vexti til eignar í stað þess að færa þá til gjalda. Þá er gert ráð fyrir veigamiklum takmörkunum á ákvæði frv. um skattfrelsi arðs af hlutabréfum í hinum svonefndu A-hlutafélögum samkv. brtt. meiri hl.,Gert er ráð fyrir, að skattfrelsi arðs hjá viðtakanda takmarkist eingöngu við arð úr félögum, sem fara við ráðstöfun arðs eftir A-lið 17. gr.l., sbr. 11. tölul. þskj., og A-lið 9. gr. l., sbr. 5. tölul. þskj. Til einföldunar verða þessi félög hér eftir nefnd A-félög. Heimild þessa ákvæðis er þannig eingöngu takmörkuð við arð úr hinum svokölluðu A-hlutafélögum, en að auki er heimildin takmörkuð við það, að arður, sem er frádráttarbær samkv. ákvæðunum, megi ekki vera meiri en 10% af hlutafjáreign skattþegns í hverju einstöku hlutafélagi. Til þess að hjón geti notfært sér heimild ákvæðisins að fullu, þurfa þau því að eiga a.m.k. 600 þús. kr. hlutafé, sem skilar 10% arði, eða 1 millj. kr. hlutafé, sem skilar 6% arði. Þá er því breytt enn fremur frá frv., að þar var gert ráð fyrir 15 þús. kr. frádráttarheimild fyrir hvert barn, en lagt er til að fella niður þá heimild úr frv.

Áður var getið um meðferð vaxta á byggingartímanum, og í a-lið 9. brtt. felst því breyting til samræmis. Í b-liðnum felst sú breyting, að skip og skipsbúnaður er flutt milli liða í heimildum til fyrninga, þannig að í stað fyrningar á bilinu 8% til 12.5% er gert ráð fyrir, að fyrningarheimild skipa og skipsbúnaðar verði á bilinu 10–15%. Í d-liðnum í þessari brtt. er gert ráð fyrir, að samkv. þessum lið sé heimild til sérstakrar fyrningar, sem nemur allt að skattskyldum hluta söluhagnaðar samkv. ákvæðunum þar um á því rekstrarári, sem söluhagnaðurirnn er skattlagður. Í e-liðnum er aðeins um að ræða orðalagsbreytingu á ákvæðunum um, hvaða íbúðarhúsnæði skattþegn megi fara með eftir sérákvæðum um fyrningu og söluhagnað á einkahúsnæði. Er gert ráð fyrir, að skattþegn megi eiga sem svarar tveimur íbúðum eða íbúð og húsnæði, sem henni fylgir, jafnvel þótt ekki fullnægi því að teljast íbúð, allt að jafnvirði fasteignamats þeirrar íbúðar, sem maðurinn býr í.

Í 10. brtt. er gert ráð fyrir hækkun á sérstökum skattfrádrætti einstæðs foreldris, stjúpforeldris, kjörforeldris eða fósturforeldris, sem heldur heimili og framfærir börn sín, þannig að þessi frádráttur verði í stað 27 þús. kr., eins og gert er ráð fyrir í frv., 40 500 kr., og mun ég síðar gera grein fyrir þessu sérstaka atriði.

11. brtt. felur í sér skiptingu félaga í A- og B-hlutafélög, sem áður var rætt um, eftir því, hvernig með arð þeirra er farið. Er þá gert ráð fyrir, að A-félög séu þau félög, þar sem farið er með arðinn eftir því, sem frv. gerði ráð fyrir, en B-félögin fari með arð með sama hætti og nú gildir í l. Þannig er gert ráð fyrir því, að af útborguðum arði eða ráðstöfuðum arði í arðjöfnunarsjóði í A-félögum verði greiddur 15% skattur í ríkissjóð. Miðast þessi breyting við það, að l. um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt og undir þessum kringumstæðum verði ekki greiddur skattur til viðkomandi sveitarfélags, en ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi í sinni framsögu gert grein fyrir, að vissar forsendur þessa frv. væru með þeim hætti, að breyting yrði á l. um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá er sú breyting gerð frá frv., að þessi skattlagning af framlagi til stofnsjóðs í samvinnufélögum verði felld niður. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir, að B-félög hafi heimild til skattfrjálsrar útborgunar arðs allt að 10% af nafnverði hlutafjár eða stofnfjár, eins og áður er getið, en þó jafnframt gert ráð fyrir fullri skattlagningu þess arðs hjá viðtakanda. Það má því setja þetta þannig fram, að hjá B-hlutafélögum er 10% af arðinum skattlaust hjá fyrirtækinu, en skattskylt hjá viðtakanda. Hjá A-hlutafélögum er þessu öfugt varið. Allt er skattskylt hjá félaginu, en 10% skattfrjálst hjá viðtakanda, og í sameignarfélögunum er heimild til þess að greiða út úr félögunum 10% af arði miðað við stofnfé og hlutafé og aðrar eignir að undanskildum varasjóði, og þessi 10% eru skattfrjáls hjá viðtakanda.

12. brtt. meiri hl. er aðeins orðalagsbreyting á 15. gr. frv., en markmiðið með gr. er hins vegar óbreytt. 13. brtt. er breyting, sem stafar af því, að gert er ráð fyrir því í till. meiri hl. fjhn., að sameignarfélagsformið verði að nýju tekið upp sem félagsskapur, og er hér um að ræða brtt. til samræmis.

14. brtt. er af sömu rótum runnin, en breyting í b-lið 14. brtt. er afleiðing af breytingu á 17. gr. frv., sem áður var skýrt frá í sambandi við A-hlutafélög og B-hlutafélög.

15. brtt. meiri hl. er um að taka þrjár nýjar gr. inn í frv. Aðalbreytingarnar, sem þessar gr. hafa í för með sér, eru þríþættar: 1) Að breyting á skatti sé ekki gerð öðruvísi en hún sé tilkynnt skattþegni í ábyrgðarbréfi og eigi send til innheimtu fyrr en að loknum kærufresti til skattstjóra eða að loknum úrskurði þeirrar kæru. 2) Ætlunin er með þessum ákvæðum að gera kröfu til þess, að úrskurðir skattstjóra um kærur séu rökstuddir. 3) Gert er ráð fyrir þeirri kröfu, að einungis sérstaklega löggiltir fulltrúar skattstjóra eða skattstjórar sjálfir megi gefa út slíka úrskurði um kærur. Hér er um að ræða meira aðhald að skattstofunum í sambandi við úrskurði þá, sem þar eru upp kveðnir, bæði það, að viðkomandi skattþegn fái til sín sendan slíkan úrskurð örugglega í gegnum ábyrgðarbréf, en það sé ekki undir hælinn lagt, að það skili sér með hinum venjulegu póstsamgöngum, svo og hitt, að úrskurðirnir séu kveðnir upp af skattstjóranum sjálfum eða þar til löggiltum fulltrúa af ríkisskattstjóra, og í þriðja lagi, að úrskurðurinn sé rökstuddur. Af þessum breytingum leiðir, að nauðsynlegt verður að breyta því, sem tíðkazt hefur, að skattskrár hafa verið Lagðar fram snemma og skattstjórum ætlaður mjög skammur frestur til þess að úrskurða kærur, en innheimtuskrár fyrir innheimtumenn ekki verið gerðar að jafnaði fyrr en að loknum þeim kærum. Þegar krefjast skal þess, að úrskurðir verði rökstuddir, er óhjákvæmilegt að gefa skattstjórunum mun lengri tíma til að úrskurða kærur en verið hefur, og þá er um leið nauðsynlegt, að upphafleg álagning skatta verði lögð til grundvallar innheimtu. Því er nauðsynlegt að gefa skattstjórum nokkuð rýmri tíma til fyrstu yfirferðar framtala, sem þeir ljúka fyrir frumálagningu. Er því gert ráð fyrir í till., að framlagningu skattskrár geti seinkað um tæpar 3 vikur, en frestur skattstjóra til úrskurðar verði tvöfaldaður. Í l. um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að fresta framlagningu útsvarsskrár til 20. júní, og því er talið eðlilegt, að þar sem þetta er nánast unnið samtímis og víða af sömu aðilum, þá verði fresturinn hjá þessum aðilum hinn sami, þ.e. til 20. júní.

16. brtt. er fólgin í því, að þessi ákvæði, sem hér voru rædd nú áður, komi til framkvæmda á þessu ári.

Þá er 17. brtt. Í a-liðnum er gert ráð fyrir lítils háttar breytingu á ákvæði til bráðabirgða, að því er varðar gjaldfærslu fyrninga vegna gengistapa á árinu 1968, til samræmis við það, sem áður hafði verið gert. Í b-lið er nánast óbreytt ákvæði frá frv. að öðru leyti en því, að nú tekur þetta ákvæði eingöngu til sameignarfélaga, sem ekki fullnægja sérstökum skrásetningarskilyrðum 5. gr., sbr. það, sem sagt var um 3. tölul. þskj. Í c-lið felst breytt endurmatsregla frá því, sem frv, gerir ráð fyrir. Gert er ráð fyrir endurmati á lausafé þannig, að miðað er við endurkaupsverð og frá því dregin óbókfærð fyrning fyrir skattárið 1970, en síðan dregin frá hlutfallstala þeirra fyrninga, sem samtals hefur verið notuð af eigendum eignarinnar á liðnum árum, en þó aldrei meira en 80% fyrir eignir, sem eigandi eignaðist fyrir 1. jan. 1960, og 50% fyrir eignir, sem hann eignaðist eftir þann tíma.

Í d-lið í 17. brtt. felst heimild til úthlutunar jöfnunarhlutabréfa án takmörkunar af vísitölu á árinu 1971 og 1972, en eins og áður sagði, er gert ráð fyrir vísitölu á útgáfu jöfnunarhlutabréfa eftir 1. jan. 1973.

Í e-liðnum felast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, sem ættu að koma sem V., VI. og VII. ákvæði við frv., en raðað er upp í brtt. sem i., 2. og 3. Í V. ákvæði til bráðabirgða yrði gert ráð fyrir, að sameignarfélög, sem stofnuð hafa verið fyrir gildistöku þessara l., en óska að verða skattlögð sem sjálfstæðir skattþegnar tilkynntu það samkv. sérstökum ákvæðum þessa töluliðs. VI. ákvæði er gert ráð fyrir með sama hætti, að hlutafélög, sem stofnuð hafa verið fyrir gildistöku l. þessara, en óska eftir að starfa eftir ákvæðum B-liðs 17. gr., geri hlutaðeigandi skattstjóra viðvart fyrir árslok 1971.

Og þá er VII. ákvæði, 3. tölul. í e-lið. Það ákvæði skiptir því aðeins máli, að ekki hafi verið gerð breyting á l. um tekjustofna sveitarfélaga, áður en skattar vegna ársins 1971 verða lagðir á. Frv. gerir ráð fyrir, að slík breyting hafi þá þegar verið gerð, eins og kom fram hér áður, og eignarútsvör verði felld niður. En þess má minnast, að eignarskattar samkv. frv. eiga ekki að vera frádráttarbærir. Ákvæðið er til þess gert, að útsvör verði frádráttarbær, þar til ákvæðum um þau yrði breytt og prósentan væntanlega lækkuð miðað við það.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur á þskj. 673, og vonast til þess, að með þessum skýringum hafi komizt til skila efnislega þær breytingar, sem meiri hl. leggur til, að gerðar verði á frv.

Ég ætla nú að gera grein fyrir þeim frv., sem áður hafa verið flutt, ýmist á síðasta þingi eða nú, og athuguð hafa verið af þeim aðilum, sem hafa unnið að endurskoðun frv.

Þá er fyrst að geta frv. um skattfrelsi heiðursverðlauna, sem flutt var á síðasta þingi á þskj. 83 af Magnúsi Kjartanssyni. Var gerð till. í frv. — í 4. tölul. 4. gr. stjfrv. — um, að slík heiðurslaun skulu einungis skattskyld að fjórðungi, en það er gert ráð fyrir, að hér sé um að ræða heiðurslaun, sem séu veitt án umsóknar fyrir sérstök afrek. Þannig hefur þetta mál verið skoðað og lagt til, að það fái þá afgreiðslu, sem lagt er til í stjfrv., sem meiri hl. fjhn. leggur til, að verði samþ. óbreytt.

Frv. hv. þm. Ingvars Gíslasonar og hv. 2. þm. Reykn., Jóns Skaftasonar, um sérstakan útsvars- og skattfrádrátt aldraðs fólks, sem ekki nýtur lífeyrissjóðsréttinda, var flutt í fyrra á þskj. 459 og var 190. mál þingsins. Frv. gerir ráð fyrir, að 70 ára skattgreiðandi eða eldri, sem ekki nýtur lífeyrissjóðsréttinda, fái sérstakan skattfrádrátt, 50 þús. kr. fyrir einhleyping, en 75 þús. kr. fyrir hjón. Þó skyldi ákvæðið ekki eiga við um þá, sem hafa með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur. Þótt tilgangur með flutningi þessa frv. sé góðra gjalda verður, er ekki að sama skapi hlaupið að því að festa hendur á efni frv., þegar það er skoðað ofan í kjölinn. Frv. kæmi einungis að gagni fólki með umtalsverðar tekjur og að mestu gagni þeim, sem mestar tekjur hefðu. Eins og frv. er, mundi eigandi stóreigna, innistæðu í bönkum, vaxtabréfa, hlutabréfa og fasteigna, geta notið góðs af ákvæðinu, en ekki gamall maður, sem hefur litla vinnu, en þó það mikla, að til skatts gæti komið. Þetta mál hefur ekki fengið afgreiðslu af hálfu þeirra aðila, sem hafa undirbúið skattafrv., en ég held, að með frv. um almannatryggingar, sem nú er til meðferðar í þinginu, sé komið til móts einmitt við þá hugsun, sem að sjálfsögðu felst í þessu frv. þ.e. að bættur sé hlutur þeirra, sem verst eru staddir.

Ég vil þá taka til meðferðar frv. þau, sem nú hafa verið flutt á þessu þingi og sum hver voru flutt á fyrra þingi. Þar má geta frv. á þskj. 354. Flm. voru hv. þm. Stefán Valgeirsson og Vilhjálmur Hjálmarsson. Þar er gert ráð fyrir hækkun á persónufrádrætti eiginkvenna, sem vinna að atvinnurekstri eiginmanns. Um þetta var flutt frv. í fyrra. Það er endurflutt nú í örlítið breyttri mynd. Þetta er tekið upp í frv. ríkisstj. og er í 2. mgr. 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að frádráttur eiginkvenna þeirra manna, sem eru með eigin atvinnurekstur, verði 1/4 hluti persónufrádráttar og mundi því hækka hlutfallslega eftir breyttri skattvísitölu. Mundi þetta þýða nú um 47 þús. kr. frádrátt í stað þess, að l. gera nú ráð fyrir 15 þús. kr. Í sama frv. á þskj. 354 í 2. gr. er gert ráð fyrir þeirri orðalagsbreytingu í B-lið 16. gr. l. um tekju- og eignarskatt, að fyrir „hjón“ komi: einstætt foreldri, sem heldur heimili fyrir börn sín. Enn fremur var flutt á s.l. þingi frv. til I. um breytingu á tekju- og eignarskatti af þeim hv. þm. Pálma Jónssyni og Pétri Sigurðssyni. Til móts við þessa hugmynd er komið með hækkun á persónufrádrætti og þó sérstaklega með hækkun á frádrætti einstæðra foreldra úr, eins og frv. gerir ráð fyrir, 27 þús. kr. í 40 500. Á þskj. 211 flytur hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, brtt., þar sem hann leggur til þá breytingu við B-lið 21. gr. l., að í stað orðanna „200 þús. kr. samtals“ komi: 600 þús. kr. samtals. Í 17. gr. stjfrv. er ekki lagt til, að 600 þús. kr. komi í stað 200 þús. kr., heldur gert ráð fyrir, að þetta hámark breytist með hámarkslánum húsnæðismálastjórnarinnar, en þau eru nú 600 þús. kr., þannig að hér er tekin upp sama till., en bætt því við, að breyting eigi sér stað með breyttri hámarksupphæð húsnæðismálalána.

Á s.l. þingi var flutt frv. í Nd. af fjórum þm. Framsfl., og hefur það nú verið endurflutt í hv. Ed., þar sem um er að ræða fyrningu á endurkaupsverði. Stjfrv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir heimild til allsherjarendurmats fyrnanlegra eigna nú og gerir þannig ráð fyrir, að náð sé að svo stöddu því markmiði, sem flm. þessara frv. telja æskilegt. Meiri hl. fjhn. gerir till. um breyttar endurmatsreglur í samræmi við till. atvinnurekendanna. Hins vegar telur meiri hl. fjhn., að ákvörðun um slíkt endurmat eigi að vera í höndum Alþ. á hverjum tíma, en ekki eigi að gera ráð fyrir sjálfvirkri hækkun um fyrningarverð. Hins vegar er í till. frv. gert ráð fyrir örari fyrningu og þar sérstaklega gerðar till. um 30% flýtifyrningu í atvinnurekstri, og mundi ég álíta, að sú till. nái að töluverðu leyti þeim tilgangi, sem flm. þessa frv. hafa sjálfsagt haft í huga, og þannig verði fyrirtækjum gert kleift að fyrna töluvert örara og þau standi þess vegna miklu betur að vígi um endurkaup á þeim tækjum, sem þau þurfa til síns atvinnurekstrar.

Þá hafa hv. þrír framsóknarmenn flutt frv. bæði á síðasta þingi og nú um, eins og þar stendur, að fram skuli fara ítarleg rannsókn á framtölum 10% allra framtalsskyldra aðila. Af grg. virðist mér sem flm. ætlist til þess, að slíkt úrtak komi í stað núverandi endurskoðunar allra framtala. Meiri hl. n. hefur fallizt á rök skattrannsóknarstjóra í þessum efnum, að óæskilegt sé að sníða eftirlitsstarfinu þannig ákveðinn stakk. Allir, sem að þessu starfa, eru sammála um, að tilviljanir eigi við í þessu sambandi, en ekki sé æskilegt að lögfesta stærð úrtaks og árlega skyldu til þess að gera það. Slíkt mundi hefta mjög störf rannsóknardeildarinnar hjá ríkisskattstjóranum.

Þá er að lokum frv. hv. 4. þm. Reykv., sem hann hefur borið fram á þessu þingi og áður, um, að skattvísitalan verði látin víkja og framfærsluvísitalan komi hennar í stað. Því hefur hins vegar verið haldið fram og er rökrétt, að eigi á annað borð að binda skattvísitöluna, þá ætti hún að bindast kaupgjaldsvísitölu. Hins vegar jafngildir að mati meiri hl. fjhn. ákvörðun skattvísitölunnar í eðli sínu ákvörðunum um tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga, og í stjfrv. er lagt til, að svo mikilvæg ákvörðun, sem ákvörðun skattvísitölunnar er, verði í höndum Alþ. og hún ákvörðuð með fjárl. hverju sinni. Sýnist þar verða samræmi í milli, þar sem annars vegar er ákveðin upphæð skatta, sem að sjálfsögðu er þá háð þeirri skattvísitölu, sem ákvörðuð verður, og hins vegar, um leið og Alþ. ákveður upphæðina í fjárl., þá sé hún ákveðin í samræmi við þá skattvísitölu, sem Alþ. ákveður hverju sinni.

Ég hef nú gert grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. fjhn. þessarar d. flytur við frv. um breytingu á tekju- og eignarskatti, og enn fremur gert grein fyrir þeim athugunum, sem hin ýmsu frv. hv. þm. hafa fengið, þ.e. brtt. þeirra um l. um tekju- og eignarskatt, og ég vonast til þess, að mér hafi tekizt nægjanlega að gera grein fyrir brtt. svo og hverjar till. meiri hl. fjhn. gerir varðandi hin einstöku frv. hv. þm. Eins og fjmrh. hæstv. lýsti yfir í sinni framsöguræðu, þá er frv. þetta um breytingu á skattalögum flutt til að gera íslenzkum atvinnuvegum betur kleift að standast erlenda samkeppni, eftir að við nú höfum gerzt aðilar að Fríverzlunarsamtökum Evrópu. Enn fremur stefnir frv. í þá átt að efla uppbyggingu íslenzks atvinnulífs og koma því til leiðar, að hlutafé í félögum sé í eins konar sparnaðarformi, um leið og reynt er að stuðla að því, að félögin geti komið sér upp fjármagni af eigin fé og þannig myndað stór hlutafélög til þess að efla enn betur en verið hefur okkar atvinnulíf. Þá er í frv. ákvæði um það, að óski þeir aðilar, sem standa í atvinnurekstri, eftir stækkun fyrirtækja, þ.e. stækkun eininga með samruna fyrirtækja, þá er þeim gert kleift að standa að slíku án þess að til sérstakrar skattgreiðslu þurfi að koma. Í brtt. n. er hins vegar lagt til, að sameignarfélög fái að halda áfram sem sérstakur skattaðili, en þeirri meginstefnu frv. haldið, að þau sitji við sama borð og hlutafélög, þannig að þeir aðilar, sem óska eftir að halda slíku rekstrarformi, hljóti ekki sérstök fríðindi fram yfir þá, sem reka hlutafélög. Ég held — og það er skoðun meiri hl. fjhn., að að samþykktum þeim brtt., sem meiri hl. leggur til, muni þessi breyting á l. um tekjuskatt og eignarskatt stuðla að því, að íslenzkur atvinnurekstur verði mun betur fær um að keppa á erlendum vettvangi og íslenzkt atvinnulíf muni eflast til mikilla muna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, og eins og segir í áliti meiri hl. fjhn., legg ég til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem meiri hl. fjhn. hefur flutt.