29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að kveðja mér hljóðs í sambandi við þetta mál, en sem ég var að koma inn í þingsalinn beint úr flugvél norðan úr landi, þá var hér í ræðustól frsm. meiri hl. fjhn. og var einmitt að gera að umtalsefni frv. um sérstakan skattfrádrátt aldraðra, sem við 2. þm. Reykn. fluttum í fyrra og höfum efnislega flutt að nýju í vetur í öðru frv. með öðrum efnisatriðum. Vegna þessara ummæla hv. frsm. þá langar mig til þess í örfáum orðum að minna á tilgang þessa frv., vegna þess að hann er nokkuð annar en kom fram í túlkun hv. þm. Það, sem var höfuðatriðið í sambandi við frv. okkar um hinn sérstaka skattfrádrátt aldraðra, var það, að slíkur frádráttur kæmi sjálfbjarga fólki að gagni því fólki, sem vill bjarga sér sjálft á ellidögunum. Það var höfuðmarkmiðið að styðja sjálfsbjargarhvöt aldraða fólksins og jafnframt að koma í veg fyrir ofsköttun aldraðs fólks, sem vinnur fyrir sér á almennum vinnumarkaði og hefur þess vegna nokkrar vinnutekjur — í raun og veru að koma í veg fyrir það, að gamalmenni, vinnufús gamalmenni, séu skattlögð fram á grafarbakkann — fram í andlátið. Þetta er það, sem ég vildi segja eða minna á í sambandi við þessa ræðu hv. frsm. meiri hl. n.

Frsm. gerði mest úr því, að einhverjir óverðugir kynnu að hagnast á slíku ákvæði, sem þarna var gert ráð fyrir í þessu frv. okkar. En hann horfir alveg fram hjá því, að ákvæðið er til hagsbóta fyrir fjöldamarga eignalitla menn, sem vilja bjarga sér sjálfir. Hv. frsm. magnar upp ágalla, sem kynnu að leynast í frv., en hann reynir hins vegar ekki að gera sér grein fyrir kostum frv. eða höfuðmarkmiði þess. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því, að hér er um að ræða réttlætismál og sérstaka aðferð til þess að bæta kjör aldraða fólksins í landinu. Það er fyrst og fremst verið að reyna að koma til móts við það fólk, sem vinnur fyrir sér á almennum vinnumarkaði og hefur þar af leiðandi talsvert miklar tekjur, en er þó komið að lokum starfsævinnar í raun og veru. Og mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar hv. þm., sem sérstaklega þykjast vilja styðja einstaklinginn og einstaklingsframtakið, mæla gegn slíkri till., sem gengur í þá átt að styðja sjálfsbjargarhvöt manna, til að gera þeim kleift að standa sem lengst á eigin fótum.

Einn hv. þm., frsm. 2. minni hl., hv. 4. þm. Austf., sagði áðan, að þetta frv. væri þannig, að höfuðtilgangur þess væri að ætla hlutabréfunum sérstakan persónufrádrátt. Þetta var mjög vel að orði komizt og lýsir í raun og veru inntaki þessa frv., en aftur á móti lifandi fólk nýtur lítillar náðar þeirra, sem samið hafa þetta frv. og þeirra, sem eru nú að tala fyrir því hér í hv, þd.

Mig langar til, herra forseti, í lokin að lesa hér kafla úr Lesbók Morgunblaðsins frá því í janúarmánuði. Þar er grein eftir einn af ritstjórum Morgunblaðsins, Styrmi Gunnarsson, og þar kemur hann einmitt inn á þessi mál, sem ég hef reynt að gera hér að umtalsefni, þ.e. skattlagningu aldraða fólksins. Og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa stuttan kafla úr þessari grein. Styrmir segir í grein sinni: „Og annað atriði. Það fólk, sem komið er yfir sjötugt, hefur greitt skatta alla sína ævi eða a.m.k. hálfa öld eða rúmlega það. Erum við ekki betur stæðir en það, Íslendingar, að við þurfum að innheimta skatta af þessu fólki fram á grafarbakkann? Hvers vegna ekki að afnema alla skatta af fólki, sem komið er yfir sjötugt? Sjálfsagt verður sagt, að þá missi ríkið tekjur og megi ekki við því, en fróðlegt væri þá að vita, hver sá tekjumissir yrði.“ Þetta voru orð ritstjóra Morgunblaðsins um þetta efni. Ég hef þá leyft mér að kalla þann til vitnis, sem ég hygg, að hv. frsm. meiri hl. og jafnvel hæstv. ráðh., sem ber þetta frv. fram, muni taka nokkurt mark á, og ég geri ráð fyrir því, að þeir fái þá ástæðu til þess að hugleiða, hvort þessi hugmynd um sérstakan skattfrádrátt aldraðs fólks kunni ekki að fela í sér nokkurt réttlæti. Og skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð.