29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um tekju- og eignarskatt er eitt af stærri málum þingsins, og skattalöggjöfin er viðamikil, ef litið er á hana í heild. Eins og fram hefur komið í þessum umr., þá vil ég taka undir það, að brýna nauðsyn ber til að endurskoða skattamálin í heild. Sá hluti skattamálanna, sem hér er til meðferðar, er of lítill hluti til þess, að nokkra hugmynd sé hægt að gera sér af þeirri raunverulegu stefnu, sem talað er þó um, að sé verið að marka. Og ég vil líka víkja að því, að það ber brýna nauðsyn til þess, að jafnhliða því, sem tekju- og eignarskattur til ríkisins er endurskoðaður eða löggjöf um það, séu endurskoðuð lögin um tekjustofna sveitarfélaga. Þessir stofnar eru svo náskyldir, að það er ekki hægt að endurskoða svo annan, að hinn sé ekki tekinn um leið. Vegna þess að þær breytingar, sem verða á þeirri löggjöf, sem endurskoðuð er, hafa það mikil áhrif á hina, að það er ekki hægt fram hjá því að horfa og þess vegna er það hin mesta nauðsyn að taka þetta mál fyrir í heild. Enda er það svo, að með því að breyta löggjöfinni þannig, að fyrirtæki beri minni byrði í tekjuútsvörum t.d., þá verður það þess valdandi, að einstaklingarnir verða að bera meira af þeim, því að sveitarfélögin verða að fá sínar tekjur. Það var líka nú æskilegt að taka þessi mál fyrir í heild, og það var í sjálfu sér vel valinn tími — þetta þing og það næsta — til að vera með þessi mál til meðferðar, þar sem að því hefur verið látið liggja og nauðsyn ber til í sambandi við þá athugun, sem hefur verið gerð á staðgreiðslukerfi skatta, að endurskoða þessi mál í heild og miða við þær breytingar sem þar gætu verið á leiðinni.

Ég hef haft það í huga um alllangt skeið, að nauðsyn bæri til að gera skilin í tekjuöflun á milli ríkissjóðs annars vegar og sveitarsjóðs hins vegar miklu skýrari en nú er og breyta því á þann veg, að þessir aðilar væru ekki báðir að afla sér tekna með sama tekjustofni. Þess vegna hef ég litið svo á, að nauðsyn bæri til, að ríkissjóður rýmdi til fyrir sveitarfélögunum í sambandi við tekjuskattinn og sveitarfélögin hefðu aðgang að tekjum einstaklinga og fyrirtækja á vissu teknabili. Hins vegar gæti svo þátttaka ríkissjóðs í tekjuskatti komið sem hátekjuskattur, en væri ekki í skattlagningu á almenn laun. Ég held, að þessi breyting mundi hafa margt gott í för með sér og það mundi gera þessi mál meðfærilegri og framkvæmdina þægilegri, ef svo væri að unnið. Ekki sízt væri ástæða til að athuga þetta mál á þennan veg, þar sem uppi hefur verið tal um, að fasteignaskattarnir gætu orðið að einhverju leyti virkari þáttur í tekjustofnum bæjar- og sveitarfélaga en verið hefur. Nú er um það mál það að segja, að athugun á því hefur ekki verið gerð svo sem skyldi, en það er brýn nauðsyn að taka þann þátt inn í þetta kerfi, sem nú er hér til meðferðar. Það þarf að gera það upp, hver á að verða þáttur fasteignaskattanna í öflun tekna fyrir bæjar- og sveitarfélög og ríki, um leið og tekju- og eignarskattslöggjöfinni er breytt.

Það er líka annar þáttur, sem brýn nauðsyn er að taka til athugunar í sambandi við tekjuöflun sveitarfélaga og ríkis, og það eru þau skattfríðindi, sem atvinnutæki, sem ríkið hefur rekið, hafa nú. Ég held, að það sé að verða úrelt, að ríkisfyrirtækin eigi að vera undanskilin sköttum eins og þau hafa verið fram að þessu. Og það getur bókstaflega verið hættulegt í sumum byggðarlögum, þar sem þau eru fyrirferðarmikil í atvinnurekstrinum, ef þau eru algerlega undanþegin sköttum, eins og þau hafa verið. Ég álít, að eitt af þeim atriðum, sem eigi að taka með í endurskoðun á skattkerfinu og á tekjustofnum sveitarfélaganna, sé einmitt afstaðan til ríkisfyrirtækjanna. Og ég vil taka það fram, að ég undanskil ekki banka í þessu sambandi. Það er orðið óeðlilegt, að þetta form í atvinnurekstrinum njóti þeirra forréttinda, sem ríkisfyrirtæki njóta nú, og það á að taka þann þátt með í þeirri heildarendurskoðun, sem á að gera á skattkerfinu og tekjustofnalögunum.

Þetta vildi ég láta koma fram í upphafi máls míns, að ég tel brýna nauðsyn bera til að taka allt, skattamálin og tekjustofna sveitarfélaganna og þá löggjöf, fyrir til athugunar og endurskoðunar í einu lagi. Það er algerlega rangt að taka einstaka þætti eins og gert er með þessu frv.

Í sambandi við umr. um frv. um tekju- og eignarskatt, sem hér er nú til meðferðar á þskj. 357, vil ég víkja að gefnu tilefni að ræðu frsm. meiri hl. fjhn. Hann minntist á frv. það, sem ég ásamt hv. 2. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Norðurl. e. flyt um breytingar á sömu löggjöf, sem er í sambandi við úrvinnslu á framtölum. Eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Reykn. og síðar í ræðu hæstv. fjmrh. þá er þessi till. talin mjög fráleit til þess að vinna eftir hjá skattstofunum. Nú má það vel vera, að orðalag það, sem þar er notað, gefi tilefni til að ætla það, að með þessu móti sé lokuð leið til frekari rannsókna. Ef svo er, þá vil ég segja það, að þannig er þetta ekki hugsað af hálfu okkar flm., heldur er þessi leið, sem hér er stungið upp á, hugsuð sem aðalúrvinnsluleið hjá skattstofunum. Skattrannsóknarstofnunin getur svo farið sínu fram að því leyti, sem hún telur eðlilegt, nema að því leyti, að henni ber ásamt skattstofunum að rannsaka þau 10%, sem út yrðu dregin. Ég er sannfærður um það, að þessi vinnuaðferð mundi bæta mjög skatteftirlitið og framkvæmd skattalaga.

Ég hef áður vikið að því hér á hv. Alþ., að sú vinnuaðferð, sem ég hef kynnzt í sambandi við úrvinnslu úr skattframtölum, hefur að minni hyggju verið það seinvirk og það illa fallin til þess að leysa þau verkefni, sem henni var ætlað að leysa, að ég tel, að það sé óframkvæmanlegt að búa við það til frambúðar. Þar sem ég þekki bezt til um þessi vinnubrögð, þá er frumvinnsla skattstofunnar með þeim hætti, að það er aðeins farið yfir skattframtölin, upphæðirnar lagðar saman og kannske bornar saman við vinnumiða, sem fyrir liggja, en engin raunveruleg endurskoðun gerð. Og það mun vera svo, a.m.k. um flest smærri sveitarfélög landsins, að þau leggja á útsvörin eftir þessa könnun. Og í flestum þeirra hefur ekki verið talin þörf á að leggja á á nýjan leik, þó að athugasemdir hafi borizt um næstu áramót á eftir eða kannske ekki einu sinni svo fljótt — eru kannske að berast nú vegna ársins 1970. Í þessum smærri sveitarfélögum hefur ekki verið talið, að það væri framkvæmanlegt að hefja þá nýja álagningu, enda hef ég heyrt marga innheimtumenn ríkissjóðs kvarta undan því, að þeir þyrftu að vera að innheimta hjá sömu aðilum allt árið vegna þess, hvað þessi endurskoðun á skattskýrslum væri seinvirk. Ég er því sannfærður um það, að þó að þetta sé talið fráleitt nú og þessi vinnubrögð séu talin óhæf í sambandi við úrvinnslu á skattframtölum, þá mun þessi leið eiga eftir að ryðja sér til rúms og verður farin, þegar fram líða stundir.

Það má vel vera, að það mætti draga það skýrar fram í þessu frv., að skattarannsóknarstofnuninni sé heimilt að gera sínar rannsóknir, hvað sem því líður, sem þarna er lagt til. Enda mundi ekki verða ágreiningur um slíka breytingu á frv., því að það er einmitt hugsun flm., að það trufli ekki þessa starfsemi stofnunarinnar, þó að þessi almenna vinna við skattframtöl sé unnin á þennan hátt. Það á sem sé ekki að koma í veg fyrir rannsókn, sem skattrannsóknarstjóri telur, að nauðsyn beri til að gera, og hann gæti unnið að eftir sem áður. Hins vegar á þetta að tryggja rétt vinnubrögð á skattstofunum og tryggja það, að framtölin yrðu betur gerð, þegar allir gætu átt von á slíkri endurskoðun.

Þessi almennu orð mun ég láta nægja í sambandi við það, sem ég hef sagt um nauðsyn þess að endurskoða skattalöggjöfina í heild og tekjustofna sveitarfélaganna og nauðsyn þess að breyta vinnuaðferðum við eftirlit með skattframtölum.

Í framhaldi af því vil ég minna á það, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki sízt núna á síðari árum gert gerbyltingu í álagningu skatta á þjóðina. Árið 1960, þegar núv. valdhafar höfðu afgreitt sitt fyrsta fjárlagafrv. — sín fyrstu fjárlög, þá var söluskatturinn 18.1% af heildartekjum fjárlaganna. Nú er söluskatturinn 35.1%. Eins og oft hefur verið bent á hér á hv. Alþ., þá er söluskatturinn sá skattur, sem leggst á alla þegna þjóðfélagsins alveg án tillits til getu þeirra á einn eða annan hátt, því að hver og einn, sem þarf að kaupa í matinn eða að kaupa á sig föt, verður að greiða söluskatt, hversu litlar sem hans tekjur eru. Og það hefur líka verið á það bent, að einmitt með söluskatti á almennum neyzluvörum eins og hér — og með jafnhárri söluskattsprósentu og hér er — þá leggst þetta þyngst á þá, sem þurfa að framfleyta stærstu fjölskyldunum. Og þegar núv. valdhafar hafa stundum verið — þeir eru að vísu hættir því — að hæla sér af frammistöðu sinni í tryggingamálum, þá hafa þeir gleymt því, að verulegur hluti af tryggingafénu fer nú aftur í söluskattinn, sem ekki var til, þegar söluskattur var ekki lagður á almennar neyzluvörur hér á landi. Enda var það svo, að hér áður fyrr kepptust þeir Alþfl.-menn við það að lýsa söluskattinum sem ranglátasta skatti, sem á hefði verið lagður, og var hæstv. núv. viðskrh. þar fremstur í flokki.

Á þessu árabili frá 1960–1971 hafa svo tollarnir eða aðflutningsgjöldin, sem voru 46.9% af ríkistekjunum, lækkað niður í 26.2%. Og þetta segir þó ekki alla söguna vegna þess, að tollalækkunin hefur einmitt verið mest á þeim vörum, sem áður var talið, að þeir keyptu mest og gera enn, sem mestar hafa tekjurnar. Þeir, sem hafa lægstu tekjurnar og rétt til nauðþurfta, kaupa ekki þær vörur, sem tollarnir hafa verið lækkaðir mest á. Þessi breytta stefna í skattamálum er geysilega mikil og sýnir betur en annað, hver raunveruleg stefna hæstv. ríkisstj. er.

Jafnhliða þessu hefur svo verið lagður skattur á elli-, sjúkra- og örorkulífeyri, ef sá, sem þessara tekna hefur notið, hefur haft aðrar tekjur með. Og ég vil leggja áherzlu á vegna þess, sem hæstv. fjmrh. vék hér að áðan út af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. um afstöðuna til hinna eldri í þjóðfélaginu, að það er a.m.k. lágmark, að tekjur vegna ellilauna verði ekki skattlagðar, hvorki til tekjuskatts né útsvars, eins og nú er gert. Það mundi hafa nokkur áhrif á skattgreiðslur þessa fólks. Ég minnist þess, að við endurskoðun á skattalöggjöf hér einu sinni reyndum við hv. 4. þm. Reykv. að koma þessu inn í löggjöfina, en það tókst ekki, en mér fannst á ræðu hæstv. fjmrh. í kvöld, að einhverjir möguleikar mundu nú verða til þess að bæta um í sambandi við álagningu skatta á gamla fólkið.

Ég vil líka minna á það, að á valdatíma núv. valdhafa munu hafa verið á lagðir nýir skattstofnar a.m.k. um 30 talsins, og hygg ég þó, að þegar ég gef þessa tölu upp, áætli ég hana fremur of lága en of háa. Hér er um að ræða stórar fjárhæðir í mörgum tilfellum og þ. á m. álögur á atvinnuvegina, sem taka miklu meiri fjárhæð af atvinnuvegunum en tekjuskatturinn gerir nú. Hins vegar er hann hér einn til meðferðar, og í því sambandi má minna á það, að tekjuskatturinn eða stofninn í honum hefur einnig verið stofn af tekjuútsvari, en hinir skattarnir, sem lagðir eru á atvinnureksturinn t.d., varða ekki sveitarfélögin, enda standa þeir óbreyttir áfram. Það vil ég undirstrika og endurtaka, að það er jafnnauðsynlegt að endurskoða þessa skatta og þær verkanir, sem þeir hafa á atvinnureksturinn, eins og tekju- og eignarskattinn og tekjuútsvarið. Hér er um miklar fjárhæðir að ræða, og málið út af fyrir sig er ekki á neinn hátt tekið til meðferðar, svo að hagkvæmt sé fyrir atvinnureksturinn, nema allir þessir skattar séu teknir til meðferðar.

Um frv. það um breytingar á tekju- og eignarskattslögunum, sem hér liggur frammi á þskj. 357, vil ég segja það, að eins og fram hefur komið er m.a. gert ráð fyrir í því að fella niður þau réttindi, sem fyrirtæki höfðu til þess að mynda varasjóð og greiða arð án þess að greiða skatt af. Enn fremur voru sameignarfélögin lögð niður með þessu frv. Nú hefur þetta frv. tekið verulegum breytingum hér í hv. d. Hæstv. fjmrh. sagðist ekkert hafa við það að athuga, þó að þessar breytingar hefðu á orðið. Sú var tíðin, að hæstv. ríkisstj. lét ekki breyta mikið þeim frv., sem frá henni komu. Hins vegar hefur nú orðið nokkur breyting á þessu í seinni tíð, og hygg ég þó, að frv. um breytingu á tollskrá, sem var til meðferðar hér á síðasta hv. Alþ., hafi slegið þar öll met, því að ef ég man rétt, þá voru samþykktar við það frv. yfir 200 brtt. í báðum d. Þetta frv. hefur ekki möguleika, að ég held, til þess, að svo margar brtt. verði samþykktar við það, en það eru allmiklar brtt., sem eru hér á ferðinni í sambandi við þetta frv. Og mér sýnist fljótt á litið, að sumar þeirra séu þannig, að með samþykkt þeirra sé búið að færa stefnuna allverulega til frá því, sem frv. gerði ráð fyrir.

Og í raun og veru finnst mér, að það orki sumt tvímælis af því, sem þar er lagt til, miðað við það, að frv. geti samt haldið áfram að vera með þeim hætti, sem það var úr garði gert. T.d. var að minni hyggju samband á milli þess ákvæðis, sem sett var inn í frv., að afskrifa alveg niður í botn og færa síðan söluhagnað til tekna, ef sala ætti sér stað á hinni afskrifuðu eign. Nú sýnist mér, að það sé búið að breyta þessu þannig, að ekki megi færa söluhagnað af afskrifaðri eign nema á ákveðnu árabili og það jafnvel heldur styttra tímabili en er í gildandi l. Ég held, að það séu ýmis fleiri slík atriði, sem orka tvímælis, þ.e. hvort breytingarnar falla að sjálfu kerfinu.

Hins vegar skil ég það, af hverju breytingarnar eru gerðar, og það kom fram m.a. í ræðu hæstv. fjmrh. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að það ber brýna nauðsyn til, að fyrirtæki hafi yfir verulegu eigin fé að ráða. Og ég vil líka taka undir það, að það hefur verið gengið allt of langt í því að setja á stofn fyrirtæki með sama sem engu hlutafé. Það er ekki til fyrirmyndar, að svo skuli að farið, og tel ég, að það þurfi að breyta stefnunni í þá átt og setja við því skorður, að það sé hægt að setja upp fyrirtæki í nafni hlutafélags eða á einn eða annan hátt með sama sem engu hlutafé, en það hefur átt sér stað og er ekki til fyrirmyndar. Hins vegar finnst mér, að það orki tvímælis, hvort sú regla, sem hér er tekin upp, nær þessum tilgangi nema að takmörkuðu leyti. Frá mínum bæjardyrum séð er það meira virði fyrir þau fyrirtæki, sem til eru í landinu og starfa með sæmilegum hætti, að halda varasjóðshlunnindunum og skattfrelsi á útborguðum arði, eins og hefur verið, en sú arðsúthlutun eða sá sjóður, sem nú á að gegna því hlutverki. Mér sýnist hann miklu frekar snúa vel við þeim fyrirtækjum, sem síðar verða stofnuð.

Ég held, að aðalatriðið sé, að gömlu fyrirtækin fái að njóta þess arna með bættu afskriftafyrirkomulagi, því að verðbólgan var búin að leika fyrirtækin svo grátt, að þær afskriftareglur, sem giltu hér á landi, voru orðnar sama sem þýðingarlausar, vegna þess að það var ekki hægt að kaupa nema einhvern smáhlut í vélina fyrir afskriftirnar á þeim tíma, sem átti að afskrifa hana, en engin leið að endurnýja hana. Ég held hins vegar, að með þessum hætti, eins og frv. er orðið núna, þar sem miðað er fyrst og fremst að því að borga hluthöfunum út arð af sínu hlutafé, þá verði meira farið inn á þá leið í sambandi við arðjöfnunarsjóðinn, þó að það ákvæði sé enn þá í fyrirtækjunum, að nota megi varasjóðsleiðina, því að það reynir í sjálfu sér verulega á hluthafana að byggja upp sitt fyrirtæki á þann hátt, en sækjast ekki eftir því að fá aukna útborgun á arði af hlutafénu, eins og arðjöfnunarsjóðurinn gerir ráð fyrir. Ég hef ekki trú á því, að gömul og gróin fyrirtæki hér fari að opna fyrirtækið og veita inn í það straumi af nýju fjármagni og nýjum aðilum. Það getur komið til mála á annan hátt hjá nýjum fyrirtækjum, en ég hef ekki trú á því, að það verði almennt hjá þeim, sem eru sæmilega vel stæð og starfandi hér á landi, enda er það svo um okkur Íslendinga, að við höfum mjög takmarkaða reynslu af almenningshlutafélögum. Ég hygg að Eimskipafélag Íslands hafi á sínum tíma verið næst því að mega kallast það. Hins vegar er það svo, að það hefur ekki verið það á síðari árum, vegna þess að hinir fjársterkari hafa yfirleitt keypt upp hluti þeirra — litlu hlutina, sem almenningur átti í þessu fyrirtæki. Þess vegna held ég það, að a.m.k. fyrst um sinn muni ekki verða verulegur áhugi á þessu. Þess vegna tryggir að minni hyggju það fyrirkomulag, sem við búum nú við, þ.e. varasjóðshlunnindin, aðstöðu fyrirtækjanna miklu betur en arðjöfnunarsjóðshugmyndin, sem hér er sett fram.

Ég vil líka benda á það, að það er ekkert réttlæti í að gera hlut hluthafanna svo góðan sem hér er gert á sama tíma og hinn almenni skattborgari í þessu landi verður að búa við kerfið eins og það er. Til þess að bæta úr þessu þyrfti að endurskoða alla skattalöggjöfina og taka tillit til hins almenna borgara. Það er því alveg óhugsandi, að það sé hægt að gera þetta á þann hátt, sem hér er gert. Og eins og hv. 4. þm. Reykv. benti á, þá eru það skattalögin í heild, sem þarf að endurskoða, bæði vegna einstaklinga og fyrirtækja, og byggja þannig upp samfellda skattalöggjöf, og jafnframt yrði að setja löggjöf um tekjustofna sveitarfélaganna, sem er brýnt verkefni, sem þarf að leysa og það sem fyrst.

Hæstv. fjmrh. sagði frá því hér á fundinum fyrir kvöldmat, að það væri ekkert bundið við kosningarnar, að dregið væri að leggja fram skattskrána, heldur væri það af tæknilegum ástæðum, sem það hefði gerzt, og vafalaust er það eins með það að flýta kjördeginum; það er líka af tæknilegum ástæðum, en ekki tengt þessu. Hins vegar verð ég að segja, að þá datt mér í hug, að hæstv. ríkisstj. hefði getað tekið undir með skáldinu, sem sagði:

„Dæmalaust var drottinn góður

að drepa hrossið en ekki mig.“

Það var hentugt, að þessi tæknilegu vandkvæði skyldu einmitt falla saman við kosningarnar.

Hitt verð ég að segja, að ég varð nokkuð undrandi, þegar hæstv. fjmrh. las upp bréf frá atvinnurekendum þeim hinum sömu, sem sendu fjhn. þessarar hv. d. álit sitt á þessu frv. og töldu, að bezt færi á því, að það yrði ekki afgreitt á þessu þingi, enda skipti það ekki máli, þar sem ákvæði þess ættu ekki að koma til framkvæmda fyrr en við skattlagningu á næsta ári. Ég verð að segja það í tilefni af þessu nýja bréfi þeirra, að ekki bregzt hæstv. fjmrh. bogalistin í áróðurshæfileikum, því að á einhvern hnapp mun hafa verið stutt, áður en þetta bréf var skrifað. Það er hins vegar ekkert við því að segja, þegar mönnum snýst hugur. En mér sýnist hins vegar, að rökstuðningur þeirra í fyrra bréfinu falli saman við þann skilning, sem almennur borgari hefur á þessu máli, og það er nauðsyn, að meðferð málsins verði með þeim hætti, sem þar er lagt til, að það sé unnið að skattamálunum í heild og teknir séu til meðferðar allir þættir skattamálastefnunnar og tekjustofnar sveitarfélaganna samtímis og reynt að fella þetta saman. Og ég tek líka undir það með þeim ágætu mönnum, að það er engin ástæða til að vera að hespa þetta mál af nú, þegar frv. á ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári, því að framlengja hefði mátt þau ákvæði, sem sett voru hér í fyrra um þau atriði, sem mestu máli skipta um framkvæmdina í ár.

Ég vil líka segja það, að ekki er rétt, eins og þetta frv. er nú úr garði gert, að vera að fjalla um það síðustu daga þessa þings og gera á því jafnstórfelldar breytingar eins og hér liggja nú fyrir, án þess að í raun og veru sé tími til fyrir hv. alþm. að bera þær saman eða athuga málið þannig í heild, að augljóst verði, að breytingarnar falli inn í sjálft frv. Þetta er, eins og fram hefur komið, tengt EFTA-málinu, sem vitnað hefur verið í hér í grg. frv. Þetta er, eins og fram hefur komið, svo mikið mál, að nauðsyn bar til að undirbúa það betur og taka sér meiri tíma en gert var til þess að vinna að undirbúningi þess en hæstv. ríkisstj. leyfði sér.

Ég vil að lokum endurtaka það og undirstrika, að brýna nauðsyn ber til að taka skattamálin í heild til gagngerðrar athugunar og það er þjóðarnauðsyn að breyta þeirri stefnu í skattamálum, sem núv. valdhafar eru að taka upp. Almenningur í landinu getur ekki tekið því, að álögur á hann séu þyngdar eins og gert hefur verið með söluskattinum á sama tíma og verið er að reyna að hygla þeim, sem yfir fjármagninu ráða.