29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er nú sennilega ekki mikil ástæða til þess að vera að halda áfram þessu pexi, sem hefur staðið yfir hjá okkur um skeið, því að það breytir sennilega ekki miklu. Þó eru viss atriði, sem komu fram í ræðu hæstv. fjmrh. og hv. 12. þm. Reykv., sem mér finnst rétt að láta ekki með öllu ósvarað.

Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram, að það hefðu verið skattar, áður en núv. stjórn kom til valda. Ég held, að ég hafi nú ekki sagt það, að það hafi ekki verið til skattar, en hitt er staðreynd, að þeim hefur fjölgað geysilega mikið, síðan núv. stjórn tók við, og þeir hafa líka stórhækkað. Ég þori bara ekki að fara með það, hvað þeir hafa margfaldazt, síðan núv. ríkisstj. kom til valda. Ég held, að þeir hafi a.m.k. sjö- eða áttfaldazt eða vel það. En á sama tíma samkv. þeim ... (Gripið fram í.) Við skulum segja, að skattarnir hafi nífaldazt í krónutölu, en ég held, að á sama tíma samkv. þeim útreikningum, sem t.d. viðskrh. hefur verið að birta og eiga að sýna fram á það, hvað kaupgjaldið hafi margfaldazt í landinu á þessum tíma, hafi þeir ekki nema eitthvað þreeða fjórfaldazt — svona rúmlega fjórfaldazt. Og það sýnir það, að þó að því sé nú haldið fram, að verkalýðssamtökin hafi verið rösk í því að hækka kaupið, þá hafi þau í sínum hækkunum ekki verið hálfdrættingar við hæstv. ríkisstj. í hækkunum hennar á sköttunum.

Þá vildi hann halda því fram, að atvinnurekendur væru ekki alveg fallnir frá því, að skattarnir væru endurskoðaðir í heild. Það er ekki hægt að skilja þeirra bréf öðruvísi, þ.e. bréfið frá 19. marz, sem hann las upp, en þeirra afstaða sé gerbreytt frá því, sem var 25. febr. Í bréfinu 25. febr. leggja þeir áherzlu á það, að þessi mál séu öll tekin fyrir í heild og þetta frv. sé látið bíða vegna þess. En núna segja þeir, að þeim nægi að fá þetta frv. afgreitt og hitt allt megi bíða, þeir geri ekkert tilkall til þess og óski þess ekki, að sú endurskoðun fari fram. Enda vita menn það, að þegar búið er að taka eitt atriði svona út úr, þá verður það miklu frekar til þess, að það verður dráttur á í öðrum efnum. Það er venjan.

Þá var það hv. 12. þm. Reykv. Hann var að gera hér samanburð á sparifé og hlutafé og vildi leggja það alveg að jöfnu. Ég hefði eiginlega gjarnan viljað, að hér hefði verið staddur 10. þm. Reykv. til að geta borið það undir hann, hvort hann sæi um þennan boðskap hv. 12. þm. Reykv. Þeir eru að vísu flokksbræður, en ég hef eiginlega engan mann heyrt útskýra það betur en hv. 10. þm. Reykv., Ólaf Björnsson, hvílíkur reginmunur er á þessu tvennu, sparifé og hlutafé. Og hann bendir að sjálfsögðu réttilega á það, að þegar verðbólga er, eins og hefur verið hjá okkur á undanförnum árum, þá rýrnar sparifé í hlutfalli við hana. Aftur á móti heldur hlutafé undir langflestum kringumstæðum a.m.k. óbreyttu verðgildi, vegna þess að með jöfnunarhlutabréfum er hægt að hækka hlutabréfin í samræmi við það, hversu mikið eignir viðkomandi fyrirtækja vaxa. Og þetta veldur því, að hér er um geysilegan mun að ræða. Auk þess má geta þess, að lögum samkv. er heimilað að borga í arð skattfrjálst 10% af hlutafé, en það er prósenta, sem sparifé nær ekki nema kannske í sérstökum bindingartilfellum og í mörgum tilfellum, án þess að um nokkra verðtryggingu sé að ræða. Þannig að ef einhver sæmileg afkoma er hjá hlutafélögum, þá er náttúrlega útkoman miklu betri hjá þeim, sem eiga hlutabréf, heldur en hinum, sem eiga sparifé, þ.e. í þjóðfélagi eins og er hjá okkur. Þetta lítur að sjálfsögðu talsvert öðruvísi út hjá þjóðum, sem hafa taumhald á verðbólgunni.

Svo var hv. 12. þm. Reykv. að tala um það, að við framsóknarmenn værum fylgjandi neikvæðri stefnu. Við skulum rifja upp, hver er munurinn á okkar stefnu og þeirra, t.d. í sambandi við það frv., sem hér er til umr., í því, hvernig eigi að byggja upp fjármagn fyrirtækja. Við framsóknarmenn fylgjum þeirri stefnu, að það eigi að skapa fyrirtækjum aðstöðu til þess að byggja upp sína eigin sjóði, og þess vegna er það ákvæði í l., sem var sett af okkar stjórn og okkar fjmrh. á sínum tíma, að fyrirtækin mættu leggja 25% af hagnaðinum skattfrjálst í varasjóð. Þetta verður síðan þeirra eign, sem þeir mega ekki hreyfa, nema um tap sé að ræða. Þennan sjóð vilja þeir sjálfstæðismenn leggja niður. Það var stefnan með frv. Í stað hans á að borga út sem arð það, sem hefur runnið í varasjóðinn að undanförnu, en þeir treysta á það, þó að þeir hafi enga vissu fyrir því, að þetta fé komi aftur inn í fyrirtækið sem hlutafé. En ég hygg, að þó að við gerum ekki samanburð á nema t.d. varasjóðnum og hlutafénu, þá séu það ólíkt sterkari og betri aðstæður fyrir fyrirtækið, að þetta eigið fé sé varasjóður en ekki hlutafé. Af t.d. fénu, sem er í varasjóðnum, þarf félagið ekki að borga út neinn sérstakan arð né sérstaka vexti. Aftur á móti ef um hlutabréf er að ræða, þá verður nú að borga út arð af því allt að 10% og kannske meira. Hvort halda menn, að það sé hagkvæmara fyrir félagið að eiga þessa upphæð í varasjóði án þess að borga af því vexti ellegar þessi upphæð sé hlutafé, sem verður að borga af svo og svo mikinn arð? Ég held, að varasjóðsleiðin sé í öllum tilfellum miklu hagstæðari fyrir fyrirtækin.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm., að við séum á móti því, að fyrirtækin byggi sig upp fjárhagslega, en við viljum að varasjóðurinn sé notaður til þess. Sjálfstæðismenn vilja hafna þessari leið, leggja varasjóðinn niður og láta hlutaféð koma í staðinn, sem er tvímælalaust óhagstæðara fyrir fyrirtækið, vegna þess að það verður að borga út af því svo og svo háa vexti í arð. Enda er það niðurstaða þessara atvinnurekenda, sem ég var að vitna hér í áðan, að þeir telja varasjóðsfyrirkomulagið miklu hagkvæmara fyrir sig en arðjöfnunarsjóðsfyrirkomulagið. Og þeir hljóta alveg að viðurkenna það, að að þessu leyti hefur afstaða þeirra leitt til nokkurs árangurs, því að sjálfstæðismenn hafa hætt við að gera það að alveg ófrávíkjanlegu skilyrði, að félögin legðu varasjóðinn niður og tækju upp arðjöfnunarsjóðinn. Nú á að verða frjálst val hjá fyrirtækjunum um það, hvor leiðin sé fremur farin. En hins vegar óttast ég það, að brtt. verði til þess, að fyrirtækin fengjust til þess að taka upp arðjöfnunarsjóðinn, þó að þau kjósi varasjóðinn heldur, vegna þess að hluthafar fái ekki arð skattfrjálsan, ef varasjóðsleiðin er farin, og þeir muni þess vegna hvetja til þess og leggja áherzlu á það, að félögin kjósi heldur arðjöfnunarsjóðsleiðina en varasjóðsleiðina, og það tel ég megingallann á brtt. meiri hl.

Ég held, að það sé alveg rangt hjá hv. 12. þm. Reykv. að vera að tala um einhverja neikvæða stefnu hjá okkur í þessum efnum. Hér er munur á aðferðum, og það hefur komið fram í margnefndu bréfi atvinnurekenda, að þeir líta þannig á, að varasjóðsleiðin sé heppilegri en arðjöfnunarsjóðsleiðin. Og þess vegna hafa þeir þvingað stjórnina til þess að leyfa þó frjálst val á milli þessara tveggja leiða, en leggja ekki varasjóðinn alveg niður. Að því er mér skildist, þá taldi hann, hv. þm., það neikvæða stefnu hjá okkur að vilja vísa þessu frv. frá með rökst. dagskrá, en hún er byggð á því, að við viljum fá heildarendurskoðun á þessum málum. Og ég held, að það sé miklu jákvæðari stefna, að öll skattamál fyrirtækja og raunar einstaklinga líka verði endurskoðuð í heild, svo að fullkomið samræmi fáist í þessu máli og fyrirtæki og einstaklingar geti þannig séð fullkomlega, hvar þeir standa skattalega, vegna þess að skattarnir verða orðnir hærri og samanþjappaðri, ef svo mætti orða það, fremur en fara þá leið að taka hér eitt atriðið út úr, afgreiða það — eins og þeir segja á mjög umdeilanlegan hátt — og eiga það svo á hættu, að þetta kák verði til þess að tefja heildarendurskoðunina svo og svo lengi. Með því að láta þetta allt saman bíða og taka það fyrir í heild er miklu meiri trygging fyrir því, að það náist fram heildarendurskoðun á þessum málum, en með því að taka fyrir eitt og eitt í einu.

Við sjáum, til hvers þessi kákaðferð leiðir t.d. í sambandi við skólamál. Þar er alltaf verið að taka einn þátt skólakerfisins fyrir í einu og breyta honum án nokkurs samhengis við hina og svo fæst aldrei neitt endanlegt samhengi út úr þessu. Svo að dæmi sé tekið, má nefna, að við vorum að setja menntaskólalög í fyrra. Nú eru þau orðin úrelt og þarf að fara að breyta þeim aftur, vegna þess að þau voru ekki gerð í neinu samhengi við aðra þætti skólamálanna. Þetta er áreiðanlega mjög óheppileg vinnuaðferð. Það er miklu hreinlegra og heppilegra að taka öll þessi mál fyrir í heild og afgreiða þau þannig en að nota þá kákaðferð, sem hér er viðhöfð, þó að maður sleppi því alveg, hvaða áhrif þetta hefur að öðru leyti.