29.03.1971
Neðri deild: 75. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð; ég skal ekki lengja umr. Ég hef átt því láni að fagna að ræða við hv. 10. þm. Reykv. um sparifé og hlutafé, og okkur hefur komið, held ég, bærilega saman. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því, að hlutafé og sparifé í banka eru mismunandi form sparnaðar og hafa mismunandi eiginleika og að mörgu leyti ber þess vegna að fara mismunandi með þessi tvö sparnaðarform. En hvort tveggja flokkast undir sparnað. Hlutafjáreign er sparnaðarform, sem atvinnureksturinn nýtur góðs af. Sparifjáreign er það sparnaðarform að fela bankastjórum fé til ávöxtunar ýmist í atvinnurekstri eða annarri starfsemi þjóðfélagsins. Og spariskírteini eru enn ein leið til að spara, og ég gat sérstaklega um þau, og sérstaklega ber að hafa þau í huga í þessum umr., þegar talað er um skattfrelsi, því að hvergi kemur skattfrelsið meir fram en þar og er þeim í hag, er spara, en fjármagnið, sem þannig aflast, er einkum nýtt til opinberra framkvæmda.

Öll þessi sparnaðarform eiga rétt á sér, og þá ekki sízt á fjárfesting í hlutabréfum rétt á sér vegna þess, að atvinnureksturinn í landinu stendur undir öllu öðru bæði opinberum framkvæmdum, einkaneyzlu og öllu því, sem við hér aðhöfumst eða leyfum okkur í landinu. Þess vegna er það engin goðgá að ætla þessu sparnaðarformi sérstaklega skattfrelsi, sem þó er takmarkað með tvennu móti, annars vegar með heildarupphæð 60 þús. kr. fyrir hjón — hið hæsta á ári hverju — og enn fremur takmarkað við, að ekki sé um að ræða meira en 10% af hlutafjáreign. Ég ítreka það, að fjárfesting í hlutabréfum er áhættufé, sem lagt er fram, þó að eigandinn viti ekki, hvort það glatast eða ávaxtast og hvort það ávaxtast þá í samræmi við verðþróun í því landi, þar sem fjárfestingin á sér stað. Og ég vildi alveg sérstaklega vekja athygli á því, að hlutafjárfesting er áhættusöm og jafnframt eru árssveiflur á því, hvort atvinnureksturinn hefur arð eða ekki, þannig að ekki er að hárvissum tekjum af arði að ganga í því falli.

Ég skal svo ekki sérstaklega deila við hv. 4. þm.

Reykv. um það, hvort heppilegra er fyrir félögin að safna fjármagni sínu í varasjóði eða eiga það í arðjöfnunarsjóði. Brtt. ganga út frá því, að það sé á valdi félaganna sjálfra — á valdi hluthafanna — að velja þarna á milli, og við skulum láta reynsluna skera úr um það, hvora leið hluthafar og félögin sjálf vilja fara, en félagaformið gerir ráð fyrir því, að hluthafar hafi völdin í félaginu, og það er eðlilegt þess vegna, að þeir ráði, hvor þessara leiða verði farin. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þm., að félögin þurfi í raun og veru ekki með rekstri sínum að svara vöxtum af varasjóði. A.m.k. tel ég það misskilning, þótt það sé alveg rétt, að vextirnir fara ekki úr fyrirtækjunum og að því leyti geta þeir styrkt fjárhagsaðstöðu fyrirtækjanna. En á móti er líka fyrir hendi arðjöfnunarsjóður, sem ekki á að greiðast út fyrr en eftir 5 ár, og félögin þurfa á sama hátt ekki að greiða vexti af þeim sjóði úr félaginu, þannig að það getur verið matsatriði, hvor leiðin er hagkvæmari félögunum sem sjálfstæðri einingu. En félög sem sjálfstæð eining eiga auðvitað að gefa vexti af öllu því fjármagni, sem í þeim er bundið, og vera bundin vilja sinna félagsmanna. Það, sem hefur torveldað hlutafjársöfnun, er, að mörg hlutafélög hér á landi eru rekin eingöngu sem atvinnuveitandi fyrir starfsmenn sína, en án þess að taka tillit til þeirra, sem leggja fjármagnið í félögin. Þess vegna eru félögin ekki fær um að safna nýju fjármagni til þess að ráðast í nýjar framkvæmdir og efla og treysta atvinnureksturinn.

Það er þessi nýja leið, sem er verið að opna með þessum breytingum á skattalögunum. Það er þessi stefnumörkun, sem er nauðsynlegt, að sé ljós við frekari endurskoðun skattalaganna í heild, sem ég er sammála öðrum, sem hér hafa talað um, að er brýn nauðsyn, að fari fram og helzt sem allra fyrst.