30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt hefur verið til athugunar hjá fjhn. á milli umr., en eins og getið var í nál. meiri hl. fjhn., þá hafði m.a. borizt bréf frá Sambandi ísl. tryggingafélaga varðandi þetta frv. og skattlagningu þess fjár, sem — eins og þar segir - þeir hafa í hyggju að leggja í sérstakan varasjóð. N. taldi ekki ástæðu til að flytja brtt. við frv. samkv. efni bréfsins. Málið hafði áður verið kynnt sérfræðinganefnd þeirri,. sem áður hafði samþ. frv. og sent til fjmrn. Þar yrði það að sjálfsögðu athugað, ef ástæða þætti til að auka á þá heimild, sem tryggingafélögin hafa til að leggja í varasjóð af arði, þ.e. skattfrelsið til að leggja í varasjóð aukið hjá tryggingafélögum.

Meiri hl. fjhn. hefur flutt viðbótarbrtt. við frv., sem ég ætla að leyfa mér að gera grein fyrir í örstuttu máli. Sumpart er það í sambandi við umr., sem hér urðu við 2. umr. málsins, en það er 1. brtt. á þskj. 726. Í henni er lögð til sú breyt., að nemi hreinar tekjur barns 13 500 kr. eða lægri fjárhæð, teljist einungis 50% af því til tekna hjá foreldrum, en hefðu getað numið allt að 27 þús. kr. að frv. óbreyttu. Einnig er lagt til, að sérsköttun barns sé heimil, ef hreinar tekjur þess nema meira en 13 500 kr. í stað 27 þús. kr., og hjá foreldrum teljist þá til tekna 13500 í stað 27 þús. kr. Hér er um að ræða tilslökun, þannig að aukinn er frádráttur vegna launa barna innan 16 ára aldurs, en það er hins vegar tryggt, að þetta ákvæði sé notað til tekjudreifingar milli foreldra og barns með synjun á sérsköttun barnsins. Breyt. á 2. gr. felur í sér það, sem ég nú gat um.

Við 12. gr. frv. er 2. brtt., sem er í samræmi við það, að felld verði niður — eða það er till. meiri hl. fjhn. — þau ákvæði frv., þar sem gert er ráð fyrir skattlagningu á söluhagnaði. En til samræmingar við þá skattlagningu, sem nú er, þá er lagt til í a-lið 2. brtt., að ekki megi fyrna eignir meira en að 10% af niðurlagsverði eignanna. Þannig er það nú, að söluhagnaðurinn er ekki skattlagður eftir 5 ár, og þessi breyt. er til samræmis við það, að söluhagnaðarreglunni, sem frv. gerði ráð fyrir, er breytt í það horf, sem það er í nú, og er því hér gerð brtt. til samræmis við það. Þá er b-liður 2. brtt. til þess, að hægt sé að víkja frá reglunum um hámarksfyrningu og niðurlagsverð, en ríkisskattstjóra er veitt heimild til fráviks í þessum tilvikum í stað skattstjóranna áður.

3. brtt. er við 13. gr. frv. og kemur til móts við frv. hv. 3. þm. Norðurl. e. o.fl., en hann kom við 2. umr. þessa máls og gerði aths. við mín orð hér við umr. Hér er lagt til, að frá hreinum tekjum einstaklinga, sem náð hafa 67 ára aldri á skattárinu, skuli draga fjárhæð, sem nemur 2/5 hlutum af fjárhæð frádráttar samkv. A-lið 1. mgr. Á sama hátt skal draga frá hreinum tekjum hjóna, sem telja fram saman, sömu fjárhæð fyrir hvort um sig. Má segja, að hér sé nánast um að ræða samræmingu við skattlagningu hjá sveitarfélögum, en þar er heimild til þess að veita öldruðum sérstakan frádrátt, og þetta ákvæði er því sett hér inn til að hafa samræmi þar á milli og komið til móts við það, sem fólst í þessu frv., sem hér var til umr.

Þá er 4. brtt. aðeins til þess, að það sé skýrt tekið fram, af hvaða hluta hagnaðar fyrirtækis megi taka til að setja í varasjóð, og þar er um að ræða aðeins staðfestingu á þeirri framkvæmd, sem nú er viðhöfð, þ.e. 1/4 hlutinn af tekjum félagsins, eftir að 10% arðsheimildin hefur verið notuð, sé hún notuð.

Þá er 5. brtt. orðalagsbreyting, þ.e. að í stað „skatta“ er sett inn orðið „þinggjöld“, þ.e. það er talið eðlilegra, að öll þau gjöld, sem innheimt eru á vegum ríkisins, falli undir ákvæðið, enda mun framkvæmdin vera sú hjá t.d. Gjaldheimtunni og öðrum þeim aðilum, sem innheimta gjöld fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir, og að heimildin sé miðuð við þinggjöld, en ekki eingöngu tekju- og eignarskatt.

Þá er 6. brtt. aðeins um, að lögin verði gefin út eftir þá breyt., sem á þeim verður nú við meðferð Alþ. á skattalögunum að þessu sinni.

Það er ein prentvilla, sem rétt er að leiðrétta. Í 4. brtt. stendur: Ef nokkuð af hreinum tekjum félaga samkv. 1. mgr. þessa stafliðs, svo og félaga samkvæmt B-lið, 1. gr. C-liðs ... Hér á að vera 1. mgr. C-liðs. Þetta er aðeins prentvilla, og leiðréttist hún hér með.

Þá flytur fjhn. eina brtt. skriflega við 9. gr. frv., þar sem er um að ræða arð af hlutabréfum í eigu manna og vexti af stofnsjóðum manna í félögum samkv. B-lið, þ.e. um skattfrelsi á arði. Þar er lagt til, að í stað orðanna „í eigu manna“ í 2. tölul. komi orðin: í eigu innlendra manna, þannig að erlendir aðilar mundu ekki njóta þessa ákvæðis með þeirri breyt., sem hér er lögð til. Ég vil svo, herra forseti, óska eftir því, að það verði leitað afbrigða fyrir þessa skriflega fluttu brtt;, og legg ég til við hv. þd., að þær brtt., sem meiri hl. fjhn. hefur flutt hér við 3. umr., verði samþykktar.