11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Eins og sést á nál., sem hér liggur með þessu frv., frá landbn., þá voru aðeins fjórir af sjö hv. nm. mættir á þessum fundi. Það var nú með þennan fund, að hann var boðaður á óvenjulegum tíma — ekki á þeim tíma, sem nefndarfundir eru venjulega boðaðir á — eða klukkan hálf tvö. Og ég a. m. k. hitti einn hv. nm. og sagði honum, að ég mundi ekki geta mætt á þessum fundi á þessum tíma.

Út af fyrir sig er ég sammála þessu frv., að það sé, eins og ástatt er nú í landbúnaðinum, nauðsynlegt að fresta böðun, vegna þess að það er líka álitið, að hennar sé ekki þörf. En þá hefði bara málið átt að koma fram á allt annan hátt en gert er. Það hefði verið eðlilegast strax í byrjun þings, að haft hefði verið samráð við landbn. beggja deilda, þar sem í l. er, að baðtíminn hefst um miðjan október, og a. m. k. veit ég um það, að ýmsir eru búnir að baða nú, vegna þess að þeim var þetta ekki kunnugt. Það er af þessari ástæðu, sem við komum fram með þessa brtt., og líka þeirri ástæðu, að a. m. k. þar, sem ég þekki til í Eyjafirði, þá er venjulega baðað strax eftir sláturtíð eða jafnvel fyrir 1. nóv., ef tíð er þannig, og ég sé ekki ástæðu til þess að breyta l. frá því, sem þau hafa verið, til þess að hindra það. Það er töluverður fóðursparnaður í því að geta baðað á þeim tíma, sem féð gengur enn úti, og ef góð er tíð, eftir að búið er að slátra, þar sem þannig hagar til, að allt fé er komið heim, hvort sem er, þá er auðvitað dálítið einkennilegt að fara að breyta þessum lögum á þennan hátt til þess að hindra þetta. Þess vegna höfum við leyft okkur að koma fram með þá brtt., að þetta verði miðað við 20. okt. í stað 1. nóv., og ég sé ekki, að það skipti neinu máli fyrir hv. þm., þó að þeir fallist á þessa breytingu til þess að koma til móts við bændur í þessu efni. Hin brtt. er vegna þess, hvernig þetta mál hefur borið hér að, og sumir bændur eru þegar búnir að baða. Bæði fjármunir og tími fara í það að baða, og ég sé ekki beint ástæðu til þess að skylda þá, sem eru búnir að því nú, til þess að baða aftur á næsta vetri — ekki sízt í þeim héruðum, þar sem færilús eða fellilús hefur ekki sézt í fleiri ár, eins og er t. d. í mínu héraði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar hér, en vænti þess fastlega, að hv. þm. geti verið mér sammála um það að gera þessar tvær breytingar. Annars væri þeim mönnum, sem hafa ekki vitað um, að þessi breyting á l. væri í aðsigi, gert rangt til.