30.03.1971
Neðri deild: 77. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki sérstaklega svara þeim orðum, sem hv. 4. þm. Reykv. lét hér falla áðan. Það er ekki tilefni til þess, eins og hann sagði, að við séum að karpa um efni málsins; það liggur ljóslega fyrir. Og ég get tekið undir það með honum, að vissulega væri það mjög æskilegt, að skattar væru sem lægstir. Hins vegar vil ég benda á það, að skattar eru bæði skattar til ríkis og sveitarfélaga, og það er mikið vandamál, sem ég veit að hann viðurkennir eins og ég, hvernig á að leysa fjárþörf sveitarfélaganna, ef of nærri er höggvið þeim í sambandi við þann tekjustofn, sem er þeirra aðaltekjustofn, en það eru útsvörin. En nóg um það. Það eina, sem mig langaði til að gera, er að lesa svolítið meira en hv. þm. las upp úr mínu leyniplaggi, Gulu bókinni, því að það er ekki það mikið leyniplagg, að það megi ekki lesa upp úr henni, og bókin er út af fyrir sig ekki leyniplagg að öðru leyti en því, að ástæðan til, að ég óska ekki eftir, að þessari bók sé dreift út, er, að þetta eru ábendingar og hugleiðingar þeirrar nefndar, sem vinnur að málinu, og á þessu stigi ekki formlegar till. Þess vegna væri mjög óráðlegt og mjög gagnstætt óskum n. að dreifa þessu, þó að ég hafi talið sjálfsagt að afhenda sem trúnaðarmál nm. fjhn. Alþ. þessa bók, til þess að þeir gætu áttað sig betur á frv., þegar þeir væru að fara gegnum einstök atriði þess, og séð samhengi þess við það, sem fyrirhugað er á öðrum sviðum í skattalögunum.

En hér er aðeins um að ræða það, sem hv. þm. las upp, þ.e. umsögn nefndarinnar um frv. hans, sem flutt var hér á síðasta þingi, og eitt af þeim verkefnum, sem ég fól nefndinni, var að taka til athugunar öll þau frv., sem flutt voru á síðasta þingi og þ. á m. frv. hans um skattvísitölu. Og þar segir svo: Nefndin er að því leyti samnála frv. — eins og hv. þm. las upp — að af þeim vísitölum, sem hér eru reglulega reiknaðar út, telur hún framfærsluvísitöluna vera traustustu viðmiðun, sem völ er á í þessu efni, ef á annað borð er talið æskilegt að binda skattvísitölubreytingar með lögum, enda er þá gert ráð fyrir, — ég endurtek það - enda er þá gert ráð fyrir, að framfærslu- og kaupgjaldsvísitölur fylgist að ... Og í framhaldi af þessu: Sú stefna hefur náðst fram í gildandi l., að æskilegt sé, að ráðh. hafi forræði um stighækkandi skatta með ákvörðun skattvísitölu.

Nefndin telur ákvörðun um skattvísitölu svo mikla stefnuákvörðun, að hana ætti að taka á Alþ., og bendir á þá leið, að ákvörðun skattvísitölu verði hluti fjárlagaafgreiðslu ár hvert, enda hlýtur áætlun um tekjur af tekju- og eignarskatti að vera reist á ákveðinni forsendu um hæð skattvísitölu. Þannig hljóðar þessi lesning öll saman, og ég er alveg sammála því, að það er rétt, að framfærsluvísitalan, eins og ég sagði áðan í mínum fáu orðum, sem ég þá mælti, er traustasta viðmiðunin, en hér er lögð áherzla á það einmitt með hliðsjón af hugsuninni, sem liggur á bak við skattvísitöluna, að gera ráð fyrir, að framfærsluvísitalan og kaupgjaldsvísitalan fylgist að.