31.03.1971
Efri deild: 84. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja hv. d. með löngu máli. Ég get vissulega sagt eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég er engan veginn undir það búinn að tala um þetta mál. Ég vil þó aðeins segja fáein orð um málið almennt, en mun ekki ræða einstök atriði þess að neinu ráði, enda er það auðvitað ógerningur, eftir að málið í sinni núverandi mynd hefur aðeins legið nokkrar –örfáar — stundir á borðum hjá okkur þm. og þó að hæstv. ráðh. gæfi nokkrar skýringar í framsöguræðu sinni, þá var það vitaskuld ekki nægilegt til þess, að það sé hægt að átta sig fullkomlega á þessu máli, þannig að maður geti rætt það í einstökum atriðum.

Ég efast ekki um það, að í þessu frv. séu viss atriði, sem horfa til bóta og eiga rétt á sér, og sama máli gegnir um sitthvað, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Ég get tekið undir sum þau atriði, sem þar komu fram, og ég tel, að þau atriði sum hver séu þess eðlis, að þau þurfi vel að athuga. En ég tel, að vinnubrögðin í þessu máli séu á þann veg, að það sé mjög athugavert. Og ég verð að segja það, að ég er andvígur þessu máli í heild, eins og það liggur nú fyrir. Bæði tel ég, að það sé byggt á röngum grundvelli, vinnubrögðin óforsvaranleg og eins, að meginstefnu til byggt á röngum grundvelli. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það, enda yrði það að sumu leyti endurtekning á því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þ.e. að það liggur ljóst fyrir, að þeirri n., sem falið var að endurskoða skattalögin, var gefið ákveðið erindisbréf. Hún átti ekki aðeins að endurskoða þann þátt þess máls, sem hér liggur fyrir, heldur átti hún að endurskoða skattkerfið í heild m.a. með það fyrir augum að gera það einfaldara. Og hvað sem um skattkerfið má nú segja, þá býst ég við, að það geti flestir verið sammála um það, að það sé þörf á því að gera okkar skattkerfi einfaldara en það er.

Það hefur margoft verið minnzt á það hér og rakið, að skattarnir, sem lagðir eru á skattþegna, einstaklinga og félög, eru orðnir æðimargir, og það hefur sífellt hnigið meira í það horf, að það hefur verið bætt við nýjum og nýjum sköttum. Fróðir menn geta talið upp, að ég hygg, upp undir 30 skatta, sem lagðir eru á. Það er auðséð, að það er litil skynsemi í slíkum vinnubrögðum, og það mundi horfa til bóta á margan hátt, þótt ekki væri annað að gert en steypa þessum sköttum saman með einhverjum hætti. Og ég geri ráð fyrir því, að þessari n., sem falið var að endurskoða skattkerfið, hafi m.a. verið ætlað það hlutverk. Því hlutverki hefur hún ekki lokið. En aðalatriðið er auðvitað þó það, að það er ekki hægt að taka svona einn þátt út úr og taka hann einn til endurskoðunar. Þessi mál eru þannig vaxin, að það þarf að líta á þau öll í heild. Það er ekki aðeins hægt að líta á skattamál félaga út af fyrir sig. Það verður að líta á skattamál félaga og einstaklinga saman í einni heild. Það er ekki hægt, svo að sæmileg niðurstaða fáist, að líta á skattamál ríkisins ein út af fyrir sig, heldur verður líka að líta á tekjuöflunarleiðir sveitarfélaga, og þetta allt verður að skoða í samhengi og ef ekki er litið á þetta í heild, þannig að heildarmynd fáist af þessu, þá álít ég, að alltaf sé hætta á því, að úr athugun verði nokkur óskapnaður. En af einhverjum ástæðum hefur þessi n., sem átti að inna þetta verkefni af hendi, ekki farið eftir sínu erindisbréfi, heldur hefur hún tekið þarna einn þátt út úr, aðallega að því er virðist skattamál félaga, en þó líka tekið þar með nokkur einstök atriði, tæplega þó að því er maður getur séð í fljótu bragði eftir nokkru ákveðnu kerfi, og það hefur verið sett saman nýtt frv., og það frv. var svo lagt fram.

En þó að mér gangi heldur erfiðlega að sjá nokkurt ákveðið kerfi í þessu, þá lá það þó fyrir, þegar frv. var lagt fram, og kom fram í grg. með því, að það markmið, sem stefnt var að með því frv., var það, að það átti að bæta stöðu atvinnurekstrarins. Það skilst mér, að hafi verið það höfuðmarkmið, sem átti að liggja til grundvallar því, að þetta frv. var lagt fram. En það virðist hafa tekizt heldur óhönduglega, því að svo vildi til, að eftir að frv. hafði verið lagt fram, risu þeir upp, sem áttu sérstaklega að njóta góðs af þessu frv., og lýstu sig, að því er mér skilst, andvíga því og lögðust eindregið gegn því, að það gengi fram í þeirri mynd, sem það lá fyrir. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir áðan, sem skynsamlegt var, að þegar svo var komið, þá hefði sér vitaskuld ekki dottið í hug að knýja frv. fram, og ég held nú, að það hafi verið öllum fyrir beztu, að þá hefði þetta frv. verið kistulagt. En einhverjir áhugamenn virðast hafa gengið í málið, og því hefur verið, eins og gerð hefur verið grein fyrir og fram lögð þskj. bera með sér, gerbylt og algerlega umsteypt í meðferð hv. Nd.

Hæstv. fjmrh. segir, að atvinnurekendur vilji nú við una þá gerð frv., sem fyrir liggur, og dreg ég það ekki út af fyrir sig í efa, þó að það liggi hins vegar ekki fyrir, og ég held, að það hafi ekki komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. að þeir legðu nokkra sérstaka áherzlu á að knýja það fram á þessu þingi, enda liggur það í hlutarins eðli, að það getur í raun og veru naumast átt sér stað, þar sem þetta frv. er með því marki brennt eins og fleiri, sem við erum að afgreiða um þessar mundir, að því er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en um næstu áramót, þannig að satt að segja sér maður litla ástæðu til þess að knýja sum þeirra mála fram í þessum önnum þingsins síðustu daga. En látum svo vera. Ég læt það liggja á milli hluta, hver afstaða atvinnurekenda er til þessa máls.

Ég neita því ekki, að það getur verið ástæða til þess og er ástæða til þess sjálfsagt að líta á skattamál atvinnurekstrarins þ. á m. skattamál félaga. Ég geri ráð fyrir því, að það sé sannmæli margra, að það þurfi að vinna að því að bæta stöðu atvinnuveganna. Og það er vissulega rétt, sem hv. síðasti ræðumaður hér drap á, að það stendur sjálfsagt heilbrigðum atvinnurekstri í mörgum tilfellum mjög fyrir þrifum hér, að það hefur ekki tekizt að safna nægilegu eigin fjármagni í þeim. En ég leyfi mér að draga í efa, svo að ekki sé meira sagt, að skattamál atvinnurekstrarins — skattamál félaga — eigi mikinn þátt í því. Ég held, að þar séu að verki og hljóti að vera að verki ýmsar aðrar ástæður en það, að félögin og atvinnureksturinn hafi greitt svo mikið í beinum sköttum til ríkissjóðs. Ég held, að staðreyndin sé sú, að það eru ekkert óskaplegar upphæðir, sem atvinnureksturinn og félögin í landinu hafa greitt til ríkissjóðs í beinum sköttum.

Ég held, að það sé staðreynd, sem ekki verður vefengd, að hlutdeild félaga í beinum skatti til ríkissjóðs miðað við einstaklinga hefur farið stórkostlega minnkandi á undanförnum árum. En hlutdeild einstaklinganna hefur hins vegar farið vaxandi, og ég held, að það sé svo komið, að beinir skattar á einstaklingum séu mjög umtalsverðir og það þurfi einmitt sérstaklega að hyggja að því, hvort það þarf ekki að slaka á þar. Ég hefði haldið, að það hefði átt að verða eitt af fyrstu verkefnum þessarar n. að taka einmitt það atriði til meðferðar, því að sannleikurinn er sá, að þeir skattstigar, sem hér eru í gildi, eru miðaðir við allt aðrar krónur og allt aðrar tekjur í krónum talið en nú eru, þannig að ef það ætti að vera eitthvað svipað og það var í reyndinni, þegar þeir skattstigar voru settir á, þá þyrfti vitaskuld að verða mjög veruleg breyting þar á, því að þær tekjur, sem nú lenda uppi í hátekjuskatti, sem kallaður var — þeim skattstiga — eru ekki í reyndinni nú orðnar neinar hátekjur.

Ég held þess vegna, að það hefði verið brýnt verkefni og jafnvel enn brýnna verkefni að athuga skattamál einstaklinganna en félaganna, og er ég þó ekki að hafa á móti því, að skattamál félaganna séu skoðuð. En jafnframt því, sem þarf að athuga skattamál einstaklinganna, skatta einstaklinganna og skatta félaga, sem ganga til ríkissjóðs, þá er hitt auðvitað alveg óhjákvæmilegt, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði hér grein fyrir áðan, að líta á tekjustofna sveitarfélaga, því að þetta allt hangir saman. Það er ákaflega lítill hagur af því eða léttir að því fyrir einstaklinga eða félög að fá létt af svo og svo miklu al sköttum til ríkissjóðs, ef þeir svo verða að taka á sig þeim mun fleiri skatta til sveitarfélaga. Þetta mál verður sem sé allt að athuga, og ef það er ekki gert, þá verður varla lag á þeirri athugun.

Þetta vildi ég segja um þetta, og þetta eru í stuttu máli ástæðurnar fyrir því, að ég get ekki fylgt þessu máli eins og það liggur fyrir, af því að ég tel rangt að taka út úr svona einn þátt þess. Ég tel, að það verði að taka allt saman til endurskoðunar, og ég tel, að dráttur á þeirri endurskoðun verði ekki til baga, vegna þess að þessu frv., ef að lögum verður, er, hvort sem er, ekki ætlað að koma til framkvæmda fyrr en um næstu áramót. Og ég verð að ætla, að þessari skattanefnd, sem þegar hefur haft æðilangan tíma til að vinna það verk, sem henni var sett fyrir, ætti ekki að vera það ofraun að skila af sér öllu verkinu, þannig að það geti legið fyrir næsta þingi og þá væri hægt að líta á þessi mál öll í heild. Og ég held, að það hljóti að vera eina rétta leiðin.

Ég skal að vísu játa, eins og ég hef þegar sagt, að það eru einstök atriði í þessu frv., sem vafalaust eru til bóta. Ég býst við því, að þarna séu ákvæði um fyrningar, sem eru eðlileg — a.m.k. eitthvað í þá átt. Eins geta reglur um endurmat eigna og því um líkt átt fullan rétt á sér. Og auðvitað er það, að það er sjálfsagt, að það þarf að leiðrétta skattfrádráttinn og þá skattvísitölu, sem gildir í því sambandi. Og í þessu frv. er nokkuð gengið í þá átt. En ég tel þó ekki nægilega langt gengið. Í því sambandi vil ég taka það fram, að ég álít það ákaflega vatasamt að ætla að fara að hringla með skattvísitölu á hverju ári, eins og mér skilst, að sé gert ráð fyrir hér í þessu frv., að Alþ. eða fjárveitingavaldið fari að ákveða hana á hverju einasta ári. Ég held, að það eigi að finna einhvern mælikvarða í þessu efni og miða við hann, en það eigi ekki að fara að haga því til svona eftir einhverjum hentugleikasjónarmiðum á hverju ári í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, hver skattvísitalan eigi að vera. Ég vara eindregið við því að taka upp þá reglu. Mér sýnist hún geta orðið dálítið hættuleg.

Eins og þegar hefur verið tekið fram, hefur þessu frv. verið umsteypt, og það liggja nú fyrir hér tveir stórir bálkar, sem maður verður að lesa saman til þess að fá rétta mynd af því, og ég hef ekki treyst mér til að gera það. En þar af leiðir líka, að maður getur stundum verið í vafa, hverju hefur verið breytt frá upphaflega frv. og hvað stendur eftir af því, sem þar var gert ráð fyrir. Í upphaflega frv. voru ákvæði t.d. varðandi varasjóði, sem ég gat ekki fellt mig við. Það má vel vera, að það sé búið að breyta því að einhverju leyti. Í upphaflega frv. voru ákvæði varðandi arðsúthlutun til hluthafa, sem ég gat ekki fellt mig við. Einhver breyting hefur orðið á í því efni, en þó hygg ég, að það gildi nú að talsverðu leyti enn. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því svona hálfpartinn, að ég held, að útrýma sameignarfélögum, a.m.k. í skattalegu tilliti og þá í reyndinni alveg, en mér skilst, að það hafi verið gerð tilslökun á því. Það held ég, að sé líka rétt. Ég held, að það sé ekki ástæða til þess að amast við sameignarfélögum. Hitt er annað mál, að það getur verið þörf á því að setja lög og reglur um þann félagsskap, og það þarf vitaskuld að gera.

Mér skilst, að það sé byggt á því í þessu frv. eða hafi a.m.k. verið upphaflega á því byggt að mismuna atvinnurekstri dálítið eftir því, í hvaða formi hann var rekinn. Nú verð ég að biðja afsökunar, ef þetta er misskilningur hjá mér. Hann byggist á því, að ég hef ekki haft aðstöðu til að lesa þetta nægilega vel. En mér skilst sem sé, að að vissu leyti hafi verið ýtt undir það, að atvinnurekstur væri rekinn í formi hlutafélaga. Ég er alls ekki tilbúinn til þess að samþykkja það, að það eigi endilega að stefna að því, að atvinnurekstur sé rekinn í formi hlutafélaga. Ég álít, að einstaklingar og sameignarfélög, þar sem um ótakmarkaða ábyrgð er að tefla, eigi vissulega að fá að njóta jafnræðis á við hlutafélög. Það getur vel verið, að það eigi við í sumum tilfellum og það sé nauðsynlegt að grípa til hlutafélagsforms, þegar um stóratvinnurekstur er að ræða. Það viðurkenni ég. En ég held, að á ýmsum sviðum sé engin sérstök ástæða til þess að ýta undir það rekstrarform fremur en önnur. Ég er ekkert að amast við því heldur. En þó er það svo, að áður en ætti að fara að veita hlutafélögum sérstök fríðindi og réttarstöðu betri en þau hafa nú, þá vil ég fyrir mitt leyti leggja höfuðáherzlu á, að það þyrfti vissulega að endurskoða hlutafélagalögin, vegna þess að það er ýmislegt, sem þar þarf frekari skoðunar og athugunar við.

Þetta voru nú aðeins nokkur almenn atriði, sem ég vildi drepa hér á við 1. umr. Að sjálfsögðu verður þetta athugað í þeirri hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, þó að við því megi búast, að henni gefist takmarkaður tími til að athuga málið, ef það er virkilega meiningin að knýja það fram. En ég held, að það væri ástæða til þess að beina því enn af fullri alvöru til hæstv. fjmrh. og ríkisstj. að athuga um það, hvort það er nokkur ástæða til þess að vera að leggja áherzlu á að knýja þetta mál fram, eins og það nú liggur fyrir, og ég vil jafnvel segja, eins og það er úr garði gert. Því að þó að mér hafi ekki gefizt tóm til að lesa þetta vandlega, þá sé ég það, að þetta frv. er — ja, ég vil segja frá lagatæknilegu sjónarmiði - dálítið einkennilega úr garði gert. Ég rek t.d. strax augun í það, að í því plaggi, sem hefur verið útbýtt eftir 2. umr. í Nd., þá er 4. gr. þrjár bls. Ég hef sjaldan vanizt því að sjá lagagr. svona. Þetta er ritgerð, en ekki lagagr. Og það er annar háttur en er í lagasetningu, ef það á að fara að taka upp á því að gera lög þannig úr garði. Og ég held fyrir mitt leyti, að það sé ekki heppilegt að hafa þann hátt á. Og ég held, að þessi gr. sé ekkert einsdæmi í þessu. Mér sýnist 12. gr. vera hálf þriðja bls. og fleira er af því tagi í því plaggi, sem útbýtt hefur verið hér eftir 3. umr. í Nd. Þá er 9. gr. Ég sé ekki betur en hún sé líka um þrjár bls. Ég held, að þetta hafi ekkert illt af því að vera athugað svolítið betur.

Ég verð satt að segja að furða mig líka á einum ummælum, sem komu fram hjá hæstv.. fjmrh. Hann lét þess getið, að hann hefði sagt, þegar hann lagði málið fyrir í hv. Nd., að þetta frv. væri úr garði gert eins og embættismannanefndin hefði gengið frá því, og mér skildist, að hann með því vildi segja það, að þetta væri í raun og veru verk embættismannanefndarinnar eða a.m.k. hefði stjórnin ekki gert þetta að sínu máli. Þess vegna veittist honum ákaflega auðvelt að sætta sig við allar þær breytingar, sem orðið hafa á þessu frv. En ég hélt satt að segja, að skattamálin væru einhver allra pólitískustu málin, og ég verð að segja, að það er eitthvað einkennilegt, ef ein ríkisstj. hefur ekki nokkuð ákveðna stefnu og sjónarmið í því, hvernig hún vill skipa þeim málum. Það má vera, að ég hafi misskilið hæstv. fjmrh. að þessu leyti, en ef ég hef skilið hann rétt, þá finnst mér þetta einkennileg yfirlýsing. Ég hefði haldið, að það, sem lagt er fram sem stjórnarmál og stjfrv. í skattamálum, yrði að líta á sem stefnu ríkisstj. í þeim málum. (BJ: Ef embættismennirnir stjórna fyrir ríkisstj.) Já, ég hef nú staðið í þeirri meiningu, að embættismenn og sérfræðingar ættu að vera ríkisstj. til aðstoðar, en ríkisstj. ætti síðan að taka ákvarðanir, og það vil ég vona, að eigi sér enn þá stað.

En ég held satt að segja, — þó að ég efist ekki um og reyndar veit það, að það eru ágætir embættismenn, sem hafa unnið að þessu frv. — að þeim hafi verið gefinn fulllaus taumurinn í þessu efni. Og ég held, að það hefði verið eðlilegra að leggja eitthvað nánar línurnar fyrir þá, og þá efast ég ekki um það, að þeir hefðu getað gengið frá málinu í sæmilegum búningi og athugað það þannig. En hitt vekur náttúrlega furðu, ef embættismenn eiga að fara að móta stefnu í þessum málefnum. En ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að það væri öllum fyrir beztu, að þetta mál fengi að sofa til næsta Alþ. og þó ekki sofa, heldur væri athugað í n., sem um það fjallar. Það má vera, að það séu einstök atriði í þessu, sem þurfi að koma fram, og þá held ég, að það ætti að vera einfalt að taka þau út úr. En ég vil vænta þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, taki það rækilega til athugunar þrátt fyrir þá tímaþröng, sem nú er orðin, en láti þetta ekki ganga alveg óathugað í gegn.