03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar, og hafa á fundi með n. mætt þeir Jón Sigurðsson ráðuneytisstjóri, formaður n. þeirrar, sem undirbjó frv., og Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri, sem gáfu n. ýmsar verðmætar upplýsingar um málið og undirbúning þess. En eins og nál. þau, sem útbýtt hefur verið, bera með sér, hefur n. ekki náð samstöðu um málið, þannig að við, sem að meiri hl. nál. á þskj. 759 stöndum, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en aðrir hv. nm. leggja til, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en flytja auk þess sérstakar brtt. við það til vara, að mér skilst, ef hin rökstudda dagskrá félli, en fyrir því mun verða gerð grein í framsöguræðu þeirra.

Hér er um mjög tæknilegt málefni að ræða, og ég mun ekki fara út í það að ræða frv. í einstökum atriðum. Ég býst við, að lítið mundi verða á slíku að græða fyrir þá hv. þdm., sem ekki hafa haft nema litinn tíma til þess að kynna sér málið, en varðandi þá, sem þrátt fyrir annríkið hafa getað gefið sér til þess tíma, þá ætti slíkt að vera óþarft. Eins og fram hefur komið og hv. þdm. er kunnugt, fjallar þetta frv. aðallega um skatta fyrirtækja, en þó eru það einstök atriði frv., sem snerta skatta einstaklinga. Ef ég nefni þá það helzta eða mikilvægustu atriðin, sem að mínu áliti er breytt með þessu frv., skal ég taka það fram, að auðvitað verður það matsatriði, hvað sé mikilvægt og ekki mikilvægt í því sambandi. Það vill gjarnan vera þannig, að þegar um breytingar á skattalögum er að ræða, þá telur hver einstakur þau atriði mikilvæg, sem fyrst og fremst snerta skatta hans og skjólstæðinga hans, en önnur atriði litilvægari, svo að í því efni er auðvitað ekki hægt að kveða upp neinn Salómonsdóm, en ég skal aðeins gefa stutt yfirlit yfir þau atriði eða þær breytingar frá gildandi l., sem frv. hefur í för með sér, og ég tel þýðingarmestar.

Varðandi einstaklingana má í fyrsta lagi nefna það, að samkv. ákvæðum frv. verða tekjur barna á framfærslualdri skattlagðar vægar en er samkv. gildandi l., en samkv. þeim ber að fullu að telja foreldrum til tekna tekjur barna á framfærslualdri, en nú er heimilaður samkv. 2. gr. frv. nokkur frádráttur þar frá.

Annað atriði, sem sér í lagi snertir einmitt einstaklingana, er það, að mörk þeirrar eignar, sem skattur er lagður á, eru hækkuð mjög verulega frá því, sem er í gildandi l. Þetta má telja nauðsynlegt með tilliti til hins nýja fasteignamats, sem tekur gildi fyrri hluta þessa árs, þannig að ef slík breyting væri ekki gerð, mundi það þýða mjög tilfinnanlega skattahækkun t.d. á öldruðu fólki, sem litlar tekjur hefur, en á fasteignir. Hygg ég, að flestir eða allir hv. dm. mundu vera sammála um, að slíkt væri ekki sanngjarnt. Enn fremur hefur á síðustu stundu í hv. Nd. verið skotið inn brtt., þar sem heimilað er framvegis að veita öldruðum, sem eru orðnir 67 ára að aldri, ákveðinn frádrátt frá skattskyldum tekjum. Um réttmæti þessa atriðis má e.t.v. deila, þ.e. að miða í þessu efni við tiltekið aldursmark, en ég býst nú við, að þessi brtt. muni verða vinsæl þannig að fæstir þeirra, sem í framboði verða við komandi kosningar, mundu treysta sér til að snúast gegn því.

En eins og ég áðan sagði, þá eru það aðallega skattamál fyrirtækjanna, sem þetta frv. nær til. Upplýst hefur verið, að unnið er að víðtækri endurskoðun skattalaganna, þannig að hér er aðeins um að ræða hluta af niðurstöðum þeirrar endurskoðunar. En eins og bent hefur verið á, er það EFTA-aðildin, sem gerir það aðkallandi að afgreiða þennan þátt skattalöggjafarinnar nú þegar, og þau breyttu viðhorf fyrir atvinnureksturinn, sem EFTA-aðildin skapar. Megintilgangurinn hefur verið sá, sem ég hygg, að allir muni út af fyrir sig telja sjálfsagðan, að innlend fyrirtæki, sem nú eiga í harðari samkeppni við erlend fyrirtæki en áður, standi ekki höllum fæti í þeirri samkeppni vegna skattanna. Hitt er svo annað mál, að erfitt hlýtur að vera að gera slíkan samanburð Íanda á milli, en það ræði ég út af fyrir sig ekki frekar.

Varðandi þær breytingar, sem verða samkv. frv., ef að lögum verður, á skattamálum fyrirtækjanna, eru þessar að mínu áliti helztar. Nú hafa að vísu orðið mjög örar breytingar á einstökum atriðum frv. við meðferð þess í Nd., sem erfitt hefur verið fyrir þm. Ed. að fylgjast með, svo önnum kafnir sem við höfum verið, og hef ég því þann fyrirvara á varðandi það, sem ég segi, að vel er hugsanlegt vegna þess, hve erfitt hefur verið að fylgjast með hinum öru breytingum, sem orðið hafa, að eitthvað af því, sem ég segi, sé þannig á misskilningi byggt, en það yrði þá væntanlega leiðrétt í þeim umr., sem hér fara á eftir.

En hvað snertir þessar mikilvægustu breytingar, þá má í fyrsta lagi nefna fyrningarreglurnar, þ.e. að alveg nýjar reglur eru settar um þessar fyrningar og er þar komið til móts við það, sem um langa hríð hefur verið baráttumál atvinnurekstrarins, þ.e. að tekið sé í ákvörðunum um fyrningar tillit til hinna stöðugu verðhækkana, þar sem fyrning, sem miðuð er við upphaflegt kostnaðarverð, reynist algerlega ófullnægjandi, þegar að því kemur að endurnýja þessi tæki. Bráðabirgðaákvæði l. heimila samkv. þeim nánari reglum, sem um það eru settar og ég rek hér ekki, að endurmat skuli fara fram á þeim eignum, sem fyrndar eru með tilliti til hækkaðs verðlags, þannig að með því móti er leitazt við, að fyrningin sé í samræmi við raunverulegt verðmæti þessara eigna, eins og þær eru á hverjum tíma.

Í samræmi við þetta eru ákvæði um söluhagnað og skattskyldu hans. Að vísu mun þeim reglum nú hafa verið breytt í meðförum Nd. nokkuð í áttina til þess, sem fyrir var. En leitazt er við, að eftirleiðis verði a.m.k. dregið verulega úr skattlagningu þess, sem kalla mætti hreinan verðbólguhagnað. Nú kann það e.t.v. að láta illa í eyrum, að verðbólguhagnaði, eins og það stundum er kallað eða verðbólgugróða, sé hlíft við sköttum. En þá ber þess að gæta, að þessi svokallaði verðbólgugróði er ekki raunverulegur. Hann stafar ekki af því, að um raunverulega verðmætaaukningu sé að ræða, heldur aðeins breytingu á þeim mælikvarða, sem á verðmætin er Lagður, svo að hér er í rauninni um gervigróða að ræða, sem ekki er sanngjarnt að skattleggja eftir sömu reglum og þegar hagnaðurinn er raunverulegur. Þær eignabreytingar, sem aðeins stafa af því, að breytingar verða á gildi peninganna, eru auðvitað ekki raunverulegar alveg á sama hátt og vegalengdin héðan og inn að Elliðaám hlýtur auðvitað að vera nákvæmlega sú sama, hvort sem hún er mæld í kílómetrum eða metrum, en þetta er að mínu áliti alveg hliðstæða við það.

Jafnhliða þessu eru rýmkaðir möguleikar á samruna fyrirtækja, án þess að til skattlagningar komi. Og sömuleiðis eru rýmkaðir möguleikar á því að hækka verð hlutabréfa að krónutölu, gefa út svokölluð jöfnunarhlutabréf, án þess að slíkt verði sérstaklega skattlagt. Þá eru enn fremur í frv. sérstök ákvæði um svokallaða arðjöfnunarsjóði og heimild fyrirtækja til þess að leggja í þá án þess að draga það frá skattskyldum tekjum, en þessir arðjöfnunarsjóðir ættu að skapa möguleika á jafnari útborgun arðs en verið hefur og ættu þannig að vera almenningi hvatning til þess að leggja fé sitt í hlutabréf.

Öll þessi atriði, sem ég hef talið, tel ég vera til bóta og gera það jafnvel nauðsynlegt, þó að hér sé aðeins um að ræða lið í heildarendurskoðun skattalaganna, að þetta frv. verði afgreitt nú, og tel ég hæstv. fjmrh. eiga lof skilið fyrir forystu sína í þessu vandasama máli og þann árangur, sem af því hefur orðið.

En þó að ég hafi ekki hugsað mér að halda hér langa framsöguræðu, þá get ég þó ekki látið hjá liða, áður en ég lýk máli mínu, að vekja athygli á enn einu nýmæli frv., sem ég tel orka enn meira tvímælis en það, sem ég hef rætt um en vil taka það fram, að það, sem ég segi um það atriði, ber að skrifa einvörðungu á eigin reikning, en er ekki á ábyrgð hv. meðnm. minna, sem staðið hafa að sameiginlegu áliti meiri hl. En þetta atriði er skattfrelsi arðs af hlutabréfaeign að vissu marki, sem mun vera algert nýmæli í okkar skattalöggjöf, og aðspurðir sögðu sérfræðingar þeir, sem ég gat um, að hefðu komið á fundi okkar, að þeim væri ekki kunnugt um, að fordæmi væri fyrir slíku í löggjöf nágrannalandanna, en auðvitað sker það ekki úr í þessu efni. Það sem ég hef við þetta að athuga, er, að ég tel, að þær röksemdir, sem þarna eru fyrir þessu, fái ekki staðizt. En auðvitað getur niðurstaðan átt fullan rétt á sér, þó að hún sé ekki studd hinum heppilegustu rökum, því að þessu tvennu má ekki blanda saman.

En eins og fram kemur í grg. frv., eru þau meginrök færð fyrir þessu, að það þurfi að jafna aðstöðuna milli mismunandi sparnaðarforma og þá fyrst og fremst sparifjár og hlutafjár. Þetta kann að láta vel í eyrum, að það eigi að vera jafnrétti milli hinna mismunandi sparnaðarforma, en mér hefur nú fundizt, að það sé ekki fullkomlega ljós hugsun, sem liggur því að baki, þegar talað er um að jafna þurfi þarna skattaaðstöðuna, og undir öllum kringumstæðum er það algjörlega rangt, að það halli á hlutabréfaeigendur í þessu tilliti. Það verður með öðrum orðum að taka tillit til verðbólguskattsins, sem ég mundi vilja nefna svo, sem skerðir hér mjög hlut sparifjáreigenda. Að vísu hafa sparifjáreigendur fengið 7–9% vexti af sínu sparifé, sem eru skattfrjálsir, en árlegar verðhækkanir nema 10–15% á ári, þannig að verðbólguskatturinn hefur undanfarinn aldarfjórðung, held ég mér sé óhætt að segja, gleypt alla vextina og skert höfuðstólinn að auki. Hvað aftur á móti snertir eigendur hlutabréfa, má gera ráð fyrir því, að þeir haldi sínum höfuðstól óskertum og þó umfram það, sem afgangs verður, þegar skattur af úthlutuðum arði hefur verið greiddur. Ef um lágtekjufólk væri að ræða, sem ætti hlutabréfin, væri þessi skattur auðvitað lítill eða enginn, en getur auðvitað farið upp í allt að því um það bil 50%, ef um hátekjumann er að ræða, en það er þó alltaf helmingurinn eftir, þannig að hlutur hlutabréfaeigendanna er fyrir til muna betri en sparifjáreigenda, þannig að þetta bil er breikkað, en ekki það gagnstæða.

Annars finnst mér þetta dálítið þokukennt, eins og ég sagði áðan, þegar talað er um að jafna skattaaðstöðu hinna mismunandi sparnaðarforma. Nú má vel vera, að sú þoka sé ekki í mínum kolli fyrst og fremst, en ég vænti þá, að henni verði blásið í burtu í þeim umr., sem hér fara fram á eftir, en auðvitað er hægt að spara í fleiri formum en þeim að leggja fé inn í banka eða kaupa hlutabréf, því að sparnaður er ekki annað en eignaaukning, þ.e. að menn ráðstafa tekjum sínum til eignaaukningar fremur en að eyða þeim, og slíkt getur gerzt í margvíslegri mynd. Í sveitum landsins hefur það verið þannig um langt skeið og er enn þann dag í dag, að bændurnir spara á þann hátt, að þeir setja lömbin sín á frekar en slátra þeim. Það er þeirra sparnaðarform, svo að þá mætti alveg eins út frá þessum hugsunarhætti segja, að arður af búfé ætti í raun og veru að vera skattfrjáls, af því að vextir af sparifé séu það. Mér er ekki kunnugt um það, þó að bændurnir geri vissulega sínar kröfur eins og aðrar stéttir þjóðfélagsins — og væru sennilega flosnaðir upp af búum sínum, ef þeir gerðu það ekki — að slík krafa hafi þó nokkurn tíma komið fram frá bændunum. Í þessu sambandi vildi ég nefna það, að það er oft sagt, að það fylgi því áhætta að eiga hlutabréf. Það sama held ég gildi um búféð, því að fyrir kemur, að lömbin fara ofan í pytti eða fá bráðapest, svo að búfjáreignin hefur líka sína áhættu í för með sér, enda er þetta dálítið einkennilegt, að þegar þau rök eru færð fyrir því, að það eigi að leyfa fyrningarreglur með tilliti til síhækkandi verðs á þeim verðmætum, sem fyrnd eru, og ekki eigi að skattleggja söluhagnað, sem er verðbólgugróði, sem ég tek fyllilega undir, að réttmætt sé, þá er þetta rökstutt með verðbólgunni. En það er ekki hægt að snúa röksemdafærslunni við, þannig að þegar talað er um nauðsyn þess að gera hlutabréfaarð skattfrjálsan, er alveg strikað yfir verðbólguna og farið að álykta þannig, að hún sé ekki til.

Nú má ekki skilja þetta þannig, að ég sjái ofsjónum yfir skattfríðindum til handa eigendum hlutabréfa, því að vissulega á hlutafélagafyrirkomulagið mikilvægu hlutverki að gegna og vaxandi hlutverki í efnahagslífi þjóðarinnar að mínu áliti, en hagur hlutabréfaeigenda hefur nú þegar, eins og ég hef rakið, verið stórbættur með ýmsum ákvæðum þessa frv. Mikið álitamál er, hvort út á þessa braut á að fara, en eins og ég sagði, er ég í sjálfu sér ekki að amast við slíkum skattfríðindum að vissu marki, en vil aðeins í framhaldi af því, sem ég sagði hér fyrir nokkrum dögum í hv. d., þegar frv. um lántökuheimild ríkissjóðs vegna framkvæmdaáætlunar var til umr., aftur koma að því, sem ég þá drap á, að ég tel, að þessi hugsun sé hættuleg, því að ef ályktanir væru dregnar af henni út í æsar, þá mundi það í rauninni leiða til þess, að það ætti annaðhvort að afnema eða a.m.k. takmarka mjög þau skattfríðindi, sem sparifé nýtur nú, en með því yrði rofinn sá öflugasti varnargarður, sem við höfum nú gegn óðaverðbólgu.

Hér kemur til sú meinloka, sem mér hefur stundum fundizt, að væri í höfði margra mætra manna, sem með skattaeftirlit fara, en hún er sú að hugsa þannig, að ef menn svíki tekjur sínar undan skatti, þá geti þeir ekkert annað gert við þessar tekjur en leggja þær inn í banka. Ef þessari leið væri lokað með einhverju móti, mundu þessir hinir sömu ekki hafa nein úrræði önnur en verða löghlýðnir þjóðfélagsborgarar og telja þetta fram og labba með peningana í Gjaldheimtuna eða á tollstjóraskrifstofuna. En trúir þessu bara nokkur maður, ef betur er að gáð? Maður gæti hugsað sér, að bönkum og lánastofnunum væri gert það að skyldu að skila á hverjum degi skýrslu til skattyfirvalda um það, hverjir hefðu lagt inn í bankann og hvað miklar fjárhæðir þeir hefðu lagt inn. öllum mundi verða ljóst, hvaða truflun það mundi hafa í för með sér fyrir bankastarfsemina. En dettur nokkrum manni í hug, að þetta út af fyrir sig væri spor í átt til þess, að hægt væri að hafa betra eftirlit með því, að menn svikju ekki tekjur sínar undan skatti? Auðvitað mundu menn gera það eftir sem áður. Að vísu mundu þeir, sem kunna þar til verka, gæta þess, að bankareikningarnir kæmu ekki í bág við það, en það eru aðrir möguleikar en þessir tveir til að ráðstafa peningum, þ.e. að leggja þá inn í banka eða eyða þeim í Gjaldheimtuna. Það nærtækasta er það, að það er hægt að eyða peningum — gera sér glaðan dag fyrir þá, en ef menn eru svo sparsamir, að þeir vilja auka eignir sínar, þá eru auðvitað þúsund leiðir til þess aðrar en sú að leggja peningana inn í banka, og þær leiðir mundu auðvitað verða farnar. Eins og ég sagði um daginn, þá er hér um algjöra blindgötu að ræða. Þetta var nú annað atriðið, en eins og ég sagði, þá er hér um að ræða aðeins gagnrýni á þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir þessari ráðstöfun. Það þarf að sjálfsögðu alls ekki að hagga niðurstöðunni.

En ég get að lokum ekki látið hjá líða að benda hér á annað atriði og vil þá, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp fáein orð úr erindi því, sem borizt hefur varðandi þetta mál frá atvinnurekendasamtökunum. Í því segir, með leyfi hæstv. forseta: Í annan stað er vert að benda á, að eins og löggjöf um hlutafélög er nú háttað, er nánast hægt að stofna hlutafélög, um hvaða smáatvinnurekstur, sem vera skal. Af þessu leiðir, að smáatvinnurekendur og jafnvel einyrkjar, í hvaða atvinnugrein sem er, gætu í reynd valið um skattlagningarform hlutafélags og einstaklings. Hin misjöfnu skattakjör mundu því að líkindum þrýsta einstaklingsrekstrinum að mestu yfir í smáhlutafélög.

Nú vil ég í sambandi við þessi orð, sem standa í áliti atvinnurekendasamtakanna, segja það, að ég virði mjög þá ábyrgðartilfinningu, sem lýsir sér í því, að þessi ábending skuli einmitt koma frá atvinnurekendasamtökunum, því að margir munu vera — og e.t.v. flestir — í þeim hópi, sem eiga hlutabréf, og mundu þá út frá eiginhagsmunasjóðarmiði gjarnan líta það hýru auga, að þeim fylgi skattfríðindi, en hér verður það þyngra á metunum, að slík ráðstöfun gæti haft öfug áhrif á tilganginn, sem er að efla hlutafélögin, mundi sem sé leiða til þess, ef þetta yrði misnotað, að rýra mjög álit þessa rekstrarforms, ef það væri í mjög stórum stíl notað sem skjól til þess að koma tekjum undan sköttum. En eins og hlutafélagalöggjöfin er, þá er auðvitað mjög rúmt um þetta, og það má ekki loka augunum fyrir þeirri hættu, sem á því er og atvinnurekendur benda á, að þeir, sem hafa einhvers konar sjálfstæðan atvinnurekstur með höndum, muni í mjög stórum stíl fara þá leið að stofna hlutafélag með nánustu fjölskyldu sinni, sem þýðir það, að þeir fengju þar jafnvel nokkra tugi þúsunda króna skattfrjálsa. Hér er ekki um það að ræða, að þetta sé raunverulegur arður af neinu hlutafé, því að aldrei er neitt borgað inn í slík hlutafélög, heldur mundi leiðin vera sú, að það er til málamynda stofnað þarna nýtt fyrirtæki, Hlutafélagið Jón Jónsson, ef um málflutningsmann væri að ræða, síðan reiknar Jón Jónsson sér tiltölulega lágt kaup sem starfsmaður hjá þessu hlutafélagi og fær þannig meiri eða minni hluta af sínum vinnutekjum í formi hlutabréfaarðs. Fyrir þessari hættu má ekki loka augunum.

Nú ber þess að vísu að gæta, að undir öllum kringumstæðum ber að greiða 15% af því, sem borgað er út sem arður í stað tekna. Þetta ákvæði kemur vafalaust í veg fyrir það, að t.d. skósmiðir, bílstjórar, smábændur o.s.frv. fari þessa leið, en eftir sem áður væri hún opin fyrir málflutningsmenn, tannlækna, endurskoðendur, jafnvei stórbændur og aðra slíka; ég get ekki látið hjá líða að benda á þetta. Menn munu þá kannske spyrja, hver ástæðan sé til þess, að ég hafi þá ekki borið fram brtt. þess efnis, að þetta verði fellt niður. En ég skal að síðustu nefna fjórar ástæður fyrir því, að ég hef ekki gert það.

Í fyrsta lagi, hvernig á stendur í þinginu. Ég tel þetta frv. í heild til mjög verulegra bóta frá gildandi skattal., en auðsætt er, að ætti að gera róttæka breyt. á því hér í Ed., væri málinu í heild stofnað í verulega hættu.

Þá vil ég í öðru lagi nefna það, sem ríkisskattstjóri benti okkur á í þessu sambandi á nefndarfundi, en það er 15. gr. þessa frv., eins og það liggur nú fyrir, en í henni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 2. mgr. 18. gr. l. komi ný málsgrein, svo hljóðandi:

Ef skattþegnar, einstaklingar eða félög semja um skipti sín í fjármálum á hátt, sem er verulega frábrugðinn því, sem almennt gerist í slíkum viðskiptum, skulu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattþegnsins, en gera það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna.“

Nú er það auðvitað lögfræðilegt atriði, hvort þessi ákvæði setja undir þann leka, sem hér er um að ræða. Ég skal ekki túlka það. Það er talað um þau tilvik, þar sem skipti í fjármálum eru verulega frábrugðin því, sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Ég veit nú ekki, ef allar málflutningsskrifstofur hér í bænum væru komnar í hlutafélagaform, hvort það mundi þá lengur geta talizt bóta í hv. Nd. Upphaflega voru ákvæði um það, viðkomandi leituðust við að taka verulegan hluta af þóknun sinni sem hlutafé. Það skal ég ekki segja um, en hitt skiptir meira máli, eins og fram kom hjá ríkisskattstjóra, að skattayfirvöld líta þannig á, að með ákvæðum þessarar gr. sé sett undir þann leka, sem hér er um að ræða, og það mundi þá aftur þýða það, að tekjumaður, sem færi þessa leið, ætti á hættu að lenda a.m.k. í útistöðum við skattayfirvöldin, hver sem lok þeirrar viðureignar yrðu. Það er auðvitað dómstólanna, þegar allt kemur til alls, að kveða þar upp hinn endanlega úrskurð.

Í þriðja lagi hefur þessu verið breytt mjög til bóta í hv. Nd. Upphaflega voru ákvæði um það, að þessi skattfrjálsi arður mætti nema allt að 20% af hlutafénu, sem ég tel allríflegt, en það hefur þó verið lækkað niður í 10%. Enn fremur er fellt niður ákvæði um það, að menn megi fá í hlut í skattfrjálsan hlutabréfaarð 15 þús. kr. fyrir hvert barn sitt. Nú nær þetta aðeins til viðkomandi einstaklings og maka, og nú eru það samtals 60 þús. kr. Um 10 þús. kr. verður að greiða undir öllum kringumstæðum. Ef þetta væri skattlagt að fullu hjá hátekjumönnum, þá væru það 30 þús. kr., svo að 20 þús. kr. má hafa upp úr krafsinu. Það er nú litill peningur fyrir svo tekjuháa menn, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, svo að óvíst er, að þeir mundu gera sér þann kostnað og umstang, sem af því leiddi að breyta tannlæknastofu eða málflutningsskrifstofu í hlutafélag. Og hvað sem því líður, jafnvel þó að sú yrði raunin á, þá er ekki verið að semja hér löggjöf til eilífðar, og þessu yrði þá auðvitað aftur breytt. Þetta gæti að því leyti orðið til góðs, að það mundi knýja á um það, að hlutafélagalöggjöfinni verði breytt, sem ég tel, að hljóti að vera brýnasti þátturinn í endurskipulagningu þeirri, sem hér er um að ræða, enda á núgildandi hlutafélagalöggjöf fimmtíu ára almæli á þessu ári, og þarf ekki að ræða það frekar, hversu frábrugðið það þjóðfélag, sem við og feður okkar lifðum í fyrir 50 árum, er því, sem við nú lifum í.

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. leggur samkv. því, sem ég hef sagt, til, að þetta frv. verði afgreitt óbreytt.