03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er vitanlega margt, sem fram hefur komið í þessum umr. hér í dag, sem ástæða væri til að gera að umtalsefni, en ég mun reyna að takmarka mig við örfá atriði og hefði raunar ekki tekið hér til máls nema vegna þess, að það eru viss atriði, sem ég taldi mér skylt að ræða m.a. fsp., sem beinlínis hafa komið fram í ræðum hv. þm. og ég teldi virðingarleysi að gera a.m.k. ekki tilraun til að svara, hvort sem þeir telja svörin viðhlítandi eða ekki.

Hv. 4. þm. Norðurl. e., sem var að ljúka hér máli sínu, lauk því með því að lýsa yfir undrun sinni. Hann taldi þó, að það væri e.t.v. ekki undarlegt, að ég hefði lýst því yfir, að mér hefði ekki komið til hugar að leggja áherzlu á að afgreiða þetta frv., ef atvinnurekendasamtökin hefðu snúizt gegn því, og spurði um leið, hvort þess mætti þá vænta, að almenningur í landinu fengi að ráða varðandi setningu almennrar löggjafar um almenna skatta í landinu. Varðandi það atriði, að atvinnurekendur eigi að ráða þessum málum, þá er það alger misskilningur á mínum orðum. Ég lagði aðeins áherzlu á það, og það hefur verið upplýst hér bæði af mér og hv. öðrum ræðumönnum, að endurskoðun þessarar löggjafar hefði upphaflega farið af stað með hliðsjón af aðild Íslands að EFTA og það hefði verið sett ákveðin stefnumörkun í umboði, sem embættismannanefndinni, sem falið var að undirbúa málið, var veitt til að vinna að því, að skattaaðstaða atvinnurekstrarins yrði sambærileg við það, sem gerðist meðal EFTA-landa. Og þó að ég telji það auðvitað alls ekki eiga að ráða endanlega afstöðu til skattamála, að einstök hagsmunasamtök hafi eitthvað við þau að athuga, þá legg ég áherzlu á, að ég tel það hefði verið jafnfráleitt að stöðva ekki afgreiðslu þessa frv. hér í þinginu, ef atvinnurekendasamtökin í landinu almennt hefðu snúizt gegn því og talið, að það væri ekki í samræmi við þá stefnumörkun, sem upphaflega var sett vegna aðildarinnar að EFTA.

Þetta var það, sem ég átti við með mínum orðum, og ég geri ekki ráð fyrir, að neinn hefði láð mér það, þó að ég hefði farið að hugsa það mál að nýju og talið, að það væri a.m.k. nauðsynlegt að kanna það betur, ef atvinnurekendasamtökin hefðu snúizt almennt öndverð gegn málinu, eins og þau að vissu leyti gerðu í upphafi meðferðar þess hér á þingi, svo sem hér hefur verið vitnað til í sambandi við bréfaskriftir. Síðan hefur málið breytzt mjög verulega í meðferð þingsins, og ég skal alveg taka undir þær þakkir, sem hér hafa verið fram bornar til fjhn. Ed. fyrir mikla vinnu í því efni, og ég vildi þá jafnframt taka það fram, að embættismannanefndin eða vissir menn úr henni hafa unnið mjög mikið með fjhn. Alþ. að athugun málsins og einmitt til þess að kanna það, hvort hægt væri að samræma sjónarmiðin, og ég tel, að það hafi tekizt, án þess að það væri vikið frá þeim grundvallaratriðum, sem ég lagði upphaflega fyrir embættismannanefndina að vinna að í þeim erindisbréfum, sem hún fékk.

Að ég hafi lagt áherzlu á — eins og einhver hinna hv. þm. sagði hér í dag, að ég hefði gert, þegar ég gerði grein fyrir málinu hér á þingi — að það yrðu ekki gerðar miklar breytingar, það er ekki rétt. Ég tók ekkert fram um það, að það mætti ekki gera á því verulegar breytingar, og ég lagði einmitt áherzlu á það, að frv. væri lagt fyrir þingið eins og embættismannanefndin eða meiri hl. hennar hefði gengið frá því og ég hefði ekkert við það að athuga, þó að á því yrðu gerðar breytingar, ef þær væru í samræmi við þá pólitísku stefnumörkun, sem lögð hefði verið í erindisbréfi til embættismannanefndarinnar. Og það er rétt, að embættismannanefndin var ekki sammála um öll atriði málsins. Ég valdi þann kostinn að leggja frv. fram óbreytt, eins og það kom frá meiri hl. nefndarinnar, en jafnframt var fjhn. Alþ. gert kunnugt það sérálit, sem ríkisskattstjóri stóð að, þar sem voru ýmis atriði, sem hann taldi betur fara með öðrum hætti. Og ég vænti þess, að það þyki ekki óeðlileg vinnubrögð að hafa þann hátt á, þannig að það var vissulega engu leynt í þessu efni auk þess, sem svo sérstaklega hafði verið að þessu máli unnið, að það hafði verið gert ráð fyrir því, að fulltrúar frá fjhn. Alþ. fylgdust milli þinga með gangi þessa máls og gætu komið að skoðunum sínum í sumar og haust eftir því, sem málum þokaði áfram í embættismannanefndinni, og frv. yrði ekki endanlega lagt fyrir Alþ., nema fjhnm. eða þessi undirnefnd úr fjhn. fengi aðstöðu til þess að kynna sér málið og hefði þá betri aðstöðu til þess í Alþ. að meðhöndla málið en ella væri.

Varðandi þá ásökun á hendur mér, að ég hafi undirbúið málið með röngum hætti með því að setja í það embættismannanefnd, þá má auðvitað um það deila. Ég álít þó hiklaust, og það er mín skoðun, að það hefði í rauninni ekki verið hægt að velja aðra leið. Hér er um að ræða hátæknileg atriði. Hér er um að ræða mjög víðtækt vandamál, sem þarf að skoða frá öllum hliðum, og ég held, að í það hafi verið settir þeir færustu menn, sem um var að ræða í þessu efni. Vitanlega var þeim ætlað að hafa samráð við atvinnurekendasamtökin og aðra þá aðila, sem málið varðaði, og það gátu allir komið þar að sínum skoðunum, og eftir að frv. hafði legið hér fyrir síðasta Alþ., var það auðvitað hægurinn hjá, enda var það rætt við marga aðila frá atvinnurekendasamtökunum milli þinga. Hvort svo endanlega hefur verið farið eftir þeirra till. eða hvort atvinnurekendur hafa svo aftur ekki komizt niður á endanlegar till. sínar fyrr en á seinni stigum málsins, skal ég láta ósagt. Ég ætla ekki að fara að efna til neinna orðræðna um það, tel það ekki þjóna neinu góðu, en ég tel hins vegar, að ótvírætt hafi verið unnið að málinu í góðum hug á þann veg að reyna að samræma sjónarmiðin. Vitanlega var það ekki ætlunin að fara að taka upp nýjar skattlagningarreglur á atvinnureksturinn, ef atvinnurekendur voru þeirrar skoðunar, að það þjónaði alls ekki þeim tilgangi, sem til væri ætlazt, jafnvel þó að reglurnar út af fyrir sig veittu atvinnurekstrinum veruleg hlunnindi.

Ég held því ekki — miðað við bæði vinnubrögð í málinu og viðhorfin, sem ég hef lýst hér gagnvart atvinnurekstrinum varðandi það, hvort hann eigi að ráða sinni skattlagningu eða ekki — að hægt hafi verið að meðhöndla þetta með öðrum hætti, og ég tel, að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi lagt rangan skilning í það, að ég hefði út af fyrir sig ekki getað hugsað mér, að samþ. yrði hér frv., sem atvinnurekendur hefði eitthvað haft við að athuga, enda eru þeir ekki alls kostar sammála þessu frv., eins og kom hér fram í ræðu hv. 7. landsk. þm. En hitt væri jafnfjarstætt, að ég hefði farið að þvinga fram afgreiðslu á Alþ. á frv., sem öll samtök atvinnuveganna hefðu talið, að þjónaði alls ekki þeim tilgangi, sem ætlunin var að þjóna og sem ég hygg, að við út af fyrir sig séum öll sammála um, að sé aðalatriðið, þ.e. að aðstaða íslenzks atvinnurekstrar sé sambærileg við aðstöðu atvinnurekstrar í EFTA-löndum.

Hér hefur verið fundið að því, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hafi ekki gefið víssar upplýsingar, sem hann hafi verið spurður um í fjhn. hv. Ed. Ég hafði ekki neina vitneskju um þessa upplýsingabeiðni og hafði því samband við ráðuneytisstjórann í dag, eftir að þetta var upplýst hér af hv. 11. þm. Reykv., að þessar upplýsingar hefðu ekki borizt. Mér fannst þetta mjög einkennilegt allt saman af þeirri einföldu ástæðu, að ég hef talið — og það hefur verið talið af öllum sérfróðum mönnum, að það væri útilokað að gefa þessar upplýsingar af þeirri einföldu ástæðu, að menn vita ekki, hvaða kostir verða valdir t.d. af hinum ýmsu félagsformum, og ótalmargt annað kemur hér til greina, t.d. vita menn ekki, hvernig arðinum verður ráðstafað. Af þessum ástæðum og öðrum væri það í rauninni gersamlega útilokað að nefna nokkrar ákveðnar tölur í þessu sambandi.

Ráðuneytisstjórinn mun hafa misskilið, eftir því sem hann tjáði mér, þá beiðni, sem borin var hér fram, og sagði mér, að hann hefði skilið það svo, að verið væri að biðja um upplýsingar hliðstæðar þeim, sem eru gefnar á þessari skýrslu, sem hv. fjhnm. hafa fengið í hendur um álagða skatta á félög og einstaklinga og jafnframt álögð útsvör, og sagðist játa það, að það væri rétt, að það hefði farizt fyrir hjá sér að gefa upplýsingar um útsvörin. Þau væru ekki innifalin í þessum „skala“ hér, heldur aðeins skattarnir. Hann hafði tjáð n., að það væri auðvitað hægt að gefa það upp, hvað hefði verið lagt á félög bæði í sköttum og útsvörum. Nú er það alveg sýnilegt, að hér hefur verið um einhvern misskilning að ræða milli manna, en ég hef ekki tök á að svara þessu með öðrum hætti, því að þannig hefur ráðuneytisstjórinn misskilið þessa beiðni. Ég efa ekki, að hv. þm. hafa — og þeir hafa báðir staðfest það hér í n. — meint allt annað, en ég hef sem sé ekki aðstöðu til þess að gefa þessar upplýsingar vegna þess, að því hefur verið haldið fram í mín eyru af öllum sérfróðum mönnum um þessi efni, að þessar upplýsingar væri ekki hægt að gefa á þessu stigi málsins. Hitt er annað mál, að embættismannanefndinni hefur verið falið að reyna að kafa til botns í þessu, þegar öll kurl eru til grafar komin, ef svo má segja, og reyna að gera sér grein fyrir þessu dæmi í heild vegna þess, eins og liggur í augum uppi, að það verður auðvitað að brúa þetta bil. Jafnframt er nefndinni í síðara erindisbréfinu falið að gera till. um það, hvernig eigi að brúa þessi bil bæði að því er tekjur ríkissjóðs varðar og sveitarfélaganna.

Varðandi það atriði, að það hafi orðið miklar sveiflur og tekjuskattur félaga sé orðinn miklum mun minni en hann hafði áður verið hlutfallslega, er það ekki vegna aukinna fríðinda nema að sáralitlu leyti, en það kemur til greina allt frá árinu 1963, vegna þess að þá voru settar almennar reglur um skattgreiðslur félaga, og ef skattgreiðslur þeirra hafa minnkað svona mikið miðað við skatta annarra, þá stafar það fyrst og fremst af því, að hagur félaganna hefur verið með miklu lakara hætti. Og það vitum við, að atvinnureksturinn átti við mikla erfiðleika að búa. Það kemur t.d. greinilega fram í því, að á árunum frá árinu 1967 verður allveruleg lækkun á hlutfallsskatti félaga bæði árið 1968 og 1969, en síðan hækkar þetta á árinu 1970 og verður hærra en á árinu 1967. Þetta kemur ekki til af því, að á þessum árum hafi ekki orðið neinar skattalagabreytingar, heldur stafar þetta aðeins af því, að það hefur orðið þessi lélega afkoma hjá atvinnurekstrinum.

Ég get því miður ekki svarað hv. 4. þm. Norðurl. e. um það, hvort nóg er til af hinni merku bók „Viðreisn“, en mér er ákaflega ljúft að leggja mig fram um það, að hann geti orðið sér úti um eitt eintak af bókinni, ef það er til. Það yrði sjálfsagt borið saman við góða lesningu, áður en við færum á okkar kosningafundi. En sannast sagna hefur þetta sennilega verið mjög eftirsótt bók, og það er nú orðinn svo langur tími, síðan viðreisnarstjórnin tók við völdum, að það er kannske ekki að undra, þótt hún sé kannske eitthvað farin að slitna ekki sízt, ef menn hafa mikið „stúderað“ þetta. En þetta skal ég fúslega athuga og bið hv. þm. að hafa samband við mig um það, áður en hann hverfur út í sína kosningabaráttu.

Ég held, að það hafi verið á einum stað misskilningur í orðum hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég þykist vita, að hann hafi í rauninni alls ekki átt við, að það hafi í þessari bók verið talað um að alnema tekjuskatt. Það var aldrei sagt. Hitt mun hafa verið sagt, þó að ég muni „Viðreisn“ ekki alveg nákvæmlega, að stefnt væri að því að afnema tekjuskatta af almennum launatekjum. Það var einhvern veginn orðað, hygg ég, með þessum hætti, þó að ég kunni ekki bókina. En varðandi þetta atriði vil ég nánar upplýsa það, að þegar skattalögin voru sett 1963, var miðað við alveg ákveðinn mælikvarða. Þá var miðað við 1. taxta Dagsbrúnar, að ég hygg, með vissu eftirvinnuálagi. Og það er sú viðmiðun, sem alltaf hefur verið höfð síðan. Menn geta deilt um það, hvort sú viðmiðun hafi verið rétt eða röng. Og þessi tala er auðvitað mun lægri en sem svarar meðaltekjum verkamanna eða iðnaðarmanna, sem vitnað var í t.d. í hv. Nd., að væru á fjórða hundrað þúsund krónur eða hefðu verið það á s.l. ári. Hin talan, sem ég hef notað í þessu sambandi, er 192 þús. kr., sem er þessi taxti Dagsbrúnar með 15% álagi, og það er sambærilegur taxti, sem hefur verið notaður í þessari viðmiðun alla tíð frá því, að skattalögin voru fyrst endurskoðuð, eftir að viðreisnarstjórnin tók við völdum. Hvort þetta er rétt eða röng viðmiðun, vil ég ekkert um segja, en þessari viðmiðun hefur verið fylgt, og ég skal játa, að henni hefur ekki verið náð að fullu síðustu erfiðleikaár, vegna þess að skattvísitalan hefur ekki verið hækkuð eins og nauðsynlegt hefði verið þar til á þessu ári, en á það vil ég leggja áherzlu, vegna þeirra hækkana, sem nú verða. Að vísu er það ekki unnið upp, sem vantaði á skattvísitölu síðustu ára, en hún er í ár hærri en bæði hinar almennu kauphækkanir og þó mun hærri en aukning framfærslukostnaðar. Þannig að það jafnast nokkuð upp á við þann mismun, sem varð skattgreiðendum til óhags á erfiðleikaárunum.

Varðandi það atriði, hvort menn vilja breyta skattvísitölu, hvort menn vilja samþykkja þessa beinu skatta á félög eða hafa þá með öðrum hætti, þá er það auðvitað alveg hárrétt, sem hér hefur verið nefnt, að að lokum verða menn að meta það, hvernig eigi að ná saman endum og hvernig eigi að afla fjárins. Ég tel, að Alþ. sem fulltrúi alls almennings í landinu hljóti að verða að meta það og þurfi ekki að kveðja til neina sérstaka fulltrúa hagsmunastétta til þess að ákveða, hvort menn telja réttara að lækka beina skatta t.d. á einstaklingum mjög verulega. Það hefur jafnvel komið fram hugmynd um að afnema þessa skatta og fara inn á aðrar tekjuöflunarleiðir. Þetta er atriði, sem auðvitað er sjálfsagt að ræða um, og þegar þetta dæmi allt liggur fyrir á næsta þingi, sem það hlýtur að gera, getur þetta komið mjög til álita. Það kemur líka mjög til álita, hvort það á að afnema tekjuskatt til ríkisins og láta sveitarfélögin hafa t.d. alla beinu skattana. Svona má lengi orða vissar hugmyndir í þessu efni. Spurningin er sem sé þessi, hvaða aðferðir menn vilja hafa til þess að ná þessum sköttum, sem nauðsynlegir eru til þess, að þjóðfélagið, ríkisvaldið og sveitarfélögin, geti sinnt þeim kröfum, sem til þess hafa verið gerðar á hverjum tíma.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði að því, hvers vegna væri ekki Lagt til að stofna fjárfestingarsjóð eins og ríkisskattstjóri hafði bent á. Ég skal fúslega játa það, að það getur vel komið til álita, og ég álít, að það sé atriði, sem eigi að taka til meðferðar við framhaldsendurskoðun skattalaganna eins og margt annað, sem fram hefur komið í umr. hér á Alþ. um þetta mál í báðum deildum. Þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Sumir hafa viljað fresta málinu af þeim ástæðum. Ég er annarrar skoðunar. Ég tel einmitt, að eigi að reyna að afgreiða málið ekki endilega til þess, að að lokum kveði þetta frv. nákvæmlega á um það, hvernig skattalögin verði, heldur til þess að fá ákveðna stefnumótun frá Alþ. eða meiri hl. Alþ. í því, hvað menn þó helzt geta hugsað sér. Og ég tek alveg undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e., að ég tel, að athuga eigi þessa hugmynd með fjárfestingarsjóðina, en hún var fram sett af ríkisskattstjóra, sem var í minni hl. í þessari n., og frá frv. var gengið endanlega, eins og meiri hl. embættismannanefndarinnar hafði undirbúið það, en hugmyndirnar hins vegar sendar fjhn. Alþ. Og ég er fyrir fram alls ekkert á móti þeirri hugmynd og vil, að hún geti komið til athugunar.

Því, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. vék hér að varðandi þá miklu mismunun, sem nú væri gerð á með þessu frv., milli einstaklinga og félaga, hef ég áður vikið að. Þessi mismunun er sáralítil, sem er gerð með þessu frv. Það er út af fyrir sig rétt, að það er viss mismunun. Hún er að vísu meira formlegs eðlis en efnislegs eðlis vegna þess, að ég hygg, að í langflestum tilfellum verði eigendur hlutafélaga að standa sjálfir ábyrgir og jafnvel veðsetja sínar eigur í mörgum tilvikum bönkum og öðrum lánastofnunum til þess að geta fengið lán handa þeim félögum, sem þeir eiga. A.m.k. þar sem ég þekki til, er þetta almennt tíðkað, nema um sé að ræða mjög sterk félög, sem eru ekki mörg hér á landi, þannig að mismunurinn efnislega er ekki svo mikill þarna á milli. Það eru svo aftur auðvitað viss fríðindi út af fyrir sig, sem einstaklingarnir hafa umfram félögin, að þeir eru frjálsir með ráðstöfun eigna, en það eru eigendur í hlutafélögum ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta frv. út af fyrir sig eykur hér ekkert á misræmi að öðru leyti en því, sem svarar hinum skattfrjálsa arði, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp og er fyrst og fremst hugsaður — ég legg áherzlu á það — til þess, að það sé hægt að koma á almenningshlutafélagi og hægt sé að safna fjármagni inn í félögin með þessum hætti, þannig að fólk, sem vill slá sér saman og mynda einhvern atvinnurekstur, geti gert það.

Og ég tek það skýrt hér fram, að verði niðurstaðan sú, sem ég að vísu held, að sé allt of mikið gert hér úr, og embættismennirnir hafa bent á — sérstaklega ríkisskattstjóri í upplýsingum til fjhn. — að ýmsar hömlur séu á, að einhver smáfélög fari að misnota heimild þessara laga til þess eins að ná arði, þá verður vissulega að athuga það, og það er alltaf hægurinn hjá að stöðva slíka þróun, ef menn vilja, með breytingum á þessum lögum. Og það er ég hv. þm. nákvæmlega sammála um, að slíkt á ekki að eiga sér stað. Ég held þó, að menn mundu varla, eins og hér hefur verið bent á, fara að leggja út í þetta vegna þess, að þeir þurfa til þess að fá út úr þessu 60 þús. kr. að leggja þarna fram 600 þús. kr. hlutafé, þannig að meira þarf þetta nú að vera en smárekstur, til þess að það gerist. En kjarni málsins er hitt, og á það legg ég áherzlu, að hugsunin með þessum arðjöfnunarsjóði er sú að skapa möguleika til að koma hér á verðbréfamarkaði og kaupþingi, skapa möguleika til, að hinn almenni borgari eða hópar manna geti slegið sér saman til þess að mynda atvinnurekstur, eins og ég hef lagt áherzlu á, og hv. þm. vita, að gerzt hefur núna í stórum stíl og þá einmitt á þeim stöðum á landinu, þar sem fjármagn er lítið. Einnig er það mikilvægt, að hægt verði að koma hér upp stórum einingum einmitt vegna samkeppninnar, sem íslenzkir atvinnuvegir munu lenda í næstu ár. Og það gerist ekki fremur hér en í öðrum þjóðfélögum með öðrum hætti en þeim, að það verði reist fjársterk hlutafélög.

Varðandi það, að fyrningar hafi verið misnotaðar til óeðlilegrar fjárfestingar, þá kann það vel að vera, en ég legg þó áherzlu á það, að ekkert hefur rekið á eftir því hingað til, að það verði gert. Menn hafa getað varðveitt sínar fyrningar, og ekkert hefur knúið þá til þess að halda áfram að fjárfesta nema með þeim hætti, að þeir hafa þó reiknað með, að það væri arður, sem fengist út úr hinni nýju fjárfestingu, því að ef enginn hagnaður fæst, þá hefur enga þýðingu að vera að fyrna — þá er ekkert til þess að fyrna, ef við lendum í ógöngum með okkar rekstur. Og jafnframt vil ég leggja áherzlu á það, sem auðvitað verður að gera í öllum þessum málum — og því á þetta nokkurn rétt á sér, sem hv. þm. sagði — að það er auðvitað hægt að benda á ýmsa galla, sem komið hafa fram ekki endilega vegna fyrningarreglnanna, heldur vegna þess að menn hafa anað út í ýmsa hluti, án þess að það væri þaulhugsað. Þá þarf að leggja áherzlu á það hlutverk, sem sjóðir og bankar eiga að gegna í okkar þjóðfélagi, og vitanlega hafa menn ekki lagt út í stórar framkvæmdir hér án þess að fá til þeirra einhver stofnlán. Það held ég, að hafi í fæstum tilfellum gerzt.

Hv. 7. landsk. þm. vék að ýmsum atriðum bæði þeim, sem hann væri ánægður með, og þeim, sem hann væri óánægður með, og lét í ljósi undrun sína yfir því, að ýmis atriði væru í frv., sem ekki snertu aðeins aðild að EFTA. Ég vil vekja athygli á því, að í framhaldserindisbréfi mínu til nefndarinnar var nefndinni beinlínis falið að taka til athugunar bæði frv., sem legið höfðu hér fyrir Alþ. á síðustu þingum, og einnig önnur atriði, sem nefndin teldi skynsamlegt og eðlilegt að gera breytingar á í sambandi við skattalögin.

Og að lokum hlýtur það auðvitað að verða svo, að allt þetta skattadæmi kemur til meðferðar, og ég sá enga ástæðu til annars en að fram kæmu í þessu frv. einnig ýmis önnur atriði. Það hafa t.d. verið gerðar ýmsar leiðréttingar við persónuskatta, eins og menn hafa hér vikið að, t.d. á skattvísitölu, lögfestingu, sem til fellur, og ýmsum öðrum atriðum fyrst og fremst með hliðsjón af frv., sem hér hafa verið til meðferðar á hv. Alþ., og ég hygg, að flest hafi fengið jákvæða úrlausn, sem var með rökum hægt að benda á, að væru þess eðlis, að sanngjarnt og eðlilegt væri að lögfesta þau að meira eða minna leyti. Komið hefur verið að fullu til móts við sumar þær óskir, sem komið hafa hér fram.

En það var eitt atriði, sem ég vildi leiðrétta hjá hv. 7. landsk. þm., til þess að það ylli engum misskilningi, en sá misskilningur byggist vafalaust á því, að hann hefur misskilið orð mín í sambandi við fasteignirnar. Það er alveg rétt, og ég skýrði frá því, að það væru uppi hugleiðingar um það að stórauka fasteignaskattana. En það er ekki nein persónuleg uppfinning mín, enda tók hann það fram, að komið hefði fram hjá mörgum aðilum og ekki hvað sízt sveitarfélögunum mikill áhugi á hærri fasteignasköttum. Því hefur líka verið haldið fram hér á landi lengi af ýmsum sérfræðingum, hagfræðingum og öðrum, að hér væru óhæfilega lágir fasteignaskattar miðað við önnur lönd, og það er rétt. Ég skal hins vegar játa það fúslega, að ég hef á undanförnum árum verið á móti hækkun fasteignaskatta í venjulegu fasteignagjaldaformi, þó að ég hafi staðið að því að hækka eignarskattinn, en það var með hliðsjón af því, að það kemur út á annan hátt, því að þá fá menn þó frádregið það, sem þeir skulda í fasteignunum, en aragrúi manna hefur, eins og menn vita, á síðustu árum verið að byggja og skulda þar af leiðandi mikið út á sín hús. En látum það vera. Það verður auðvitað að ná þessu með einhverjum hætti, ef menn vilja hverfa frá aðstöðugjaldinu, án þess að ég fari að ræða það hér.

Þá er það atriði, sem varðar tekjuskattamál sveitarfélaga, en það er kannske sá skatturinn, sem er hvað verstur í sambandi við atvinnureksturinn. Því að sannleikurinn er sá, að almennir tekjuskattar á atvinnurekstri eru ekki háir hér, eins og bent hefur verið á. Það eru þeir alls ekki, en aðstöðugjöldin geta verið óhæfileg vegna þess, að þau taka ekki tillit til afkomu fyrirtækjanna, og þess vegna hefur embættismannanefndin rætt það mál og atvinnurekendur enda látið í ljós sinn vilja í þeim efnum. Þessu verður að mæta með einhverjum hætti, og það hafa komið fram ýmsar hugmyndir m. a. hærri fasteignagjöld og jafnvel launaskattur að einhverju leyti, en ég tek það skýrt fram og legg á það áherzlu, að þegar talað er um fasteignagjöld í þessu sambandi og verulega hækkun þeirra, þá tel ég, að verði að gera hér mun á, hvort um er að ræða einkahúsnæði manna, þ.e. íbúðarhúsnæði, eða verulegar fasteignir umfram það. Það er auðvitað mjög einfaldur hlutur að gera hér mun á, þannig að fólk, sem á aðeins sína eigin íbúð, búi við önnur kjör í þessu efni en þeir, sem eiga meira af fasteignum. Það er ekkert meiri vandi að hafa þetta stighækkandi en hverja aðra skatta. Það er því auðvitað sjálfsagt mál að taka tillit til þess og fara hóflega í fasteignaskattlagningu á almennt húsnæði manna. Það er tvímælalaust rétt. Ekki sízt skiptir það máli hér á Íslandi, þar sem svo vill til, að það munu vera fá lönd, þar sem er jafnmikið um það og hér, að einstaklingarnir eigi sínar eigin íbúðir. Þetta vil ég aðeins láta kom fram, til þess að enginn misskilji skoðun mína á þessu atriði í sambandi við fasteignaskattinn.

Ég skal nú senn láta máli mínu lokið. Það er alveg rétt, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér, að hér er ekki um neina heildarendurskoðun að ræða og það felst ekki í þessu frv., enda hef ég tekið það fram. Hitt er annað mál, að í embættismannanefndinni hefur verið rætt um mörg atriði m.a. allan þann aragrúa smáskatta, sem við höfum hér. Það er mín skoðun, að það eigi að gera kerfið einfaldara. Ég hef látið þá skoðun í ljósi hér áður og gerði það í umr. um till. um staðgreiðslukerfið, þegar hún var lögð fyrir þetta þing og reyndar í fyrra líka. Þá hv. n., sem að því máli vann, er ég ekki að ásaka. Hún vann ágætt starf. Hún gerði ekki ráð fyrir að breyta skattkerfinu að neinu verulegu leyti. Ég tel hins vegar, að það sé ekki mögulegt að innleiða staðgreiðslukerfi skatta, án þess að skattkerfið yrði fyrst gert miklu einfaldara. Annars verður þetta meira eða minna óskapnaður. En verulegar athuganir á þessu hafa farið fram til að undirbúa framhaldstillögur um þetta efni á næsta þingi.

Varðandi það atriði, af hverju Alþ. hefði ekki viljað samþykkja frv. í fyrra, þegar það var lagt fyrir, þá vil ég aðeins vísa til þess, að ég tók það skýrt fram þá, að ég gerði ekki ráð fyrir því, að frv. yrði þá samþ., en teldi það miklu varða um vinnubrögð öll, þar sem hér væri ýmis nýstárleg atriði um að ræða, að leggja einmitt frv. fyrir síðasta þing, þannig að menn gætu milli þinga athugað efni þess.

Ég veit nú ekki, hvort það er ástæða til þess sérstaklega að svara því atriði, hvað oft ég hafi lagt frv, fyrir Nd. Ég vil taka það skýrt fram, að það er ekki af óvirðingu við þessa hv. d., sem ég ber hina mestu virðingu fyrir og fyrir vinnubrögðum öllum hér, heldur vegna þess fyrst og fremst, að það voru fleiri, sem voru í undirbúningsnefndinni, sem sitja í hv. Nd. þ. á m. sá hv. þm., sem boðin hafði verið formennska í þessari milliþinganefnd fjhn., ef ég get kallað hana svo. Ég taldi því rétt að leggja málið fyrir Nd.

Ég skal svo að lokum taka það fram, að ég er hv. 4. þm. Norðurl. e. algjörlega sammála um nauðsyn þess að breyta hlutafélagalöggjöfinni og hef lagt á það áherzlu við ríkisstjórnina, að það verði gert, enda er sú löggjöf í endurskoðun, og það ber auðvitað brýna nauðsyn til þess í sambandi við hlutafélögin almennt, eins og þau hafa verið byggð upp, að um þetta sé sett ný löggjöf. Hún er orðin gersamlega úrelt, og ekki hvað sízt verður þetta óumflýjanlegt, ef við ætlum að fara að setja hér á laggirnar kaupþing og hafa hér opin hlutafélög. Þá þarf m.a. að reyna að tryggja það, að það sé ekki verið að ginna út úr fólki fé í alveg óraunhæfan atvinnurekstur, sem jafnvel hefur borið á, þó að það sé í smáum stíl, en gæti orðið meira, ef það yrði farið almennt að auglýsa eftir hlutafé. Það þarf að vera öryggi fyrir því, svo sem verða má, að menn séu ekki ginntir til þess að leggja fé sitt í einhver gervifélög.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða sérstaklega um það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði um sparifé og þau sérhlunnindi, sem verið væri að veita hlutafénu. Ég tel þarflaust að efna til frekari orðræðna um það. Mörgu af því, sem hann sagði, er ég sammála, en ég er hins vegar jafnsannfærður um það, að ef við eigum að geta byggt hér upp almenningshlutafélög og ef við eigum að geta náð þeim árangri að mynda hér stórar einingar til framleiðslu — stærri en við höfum nú — og fengið nýtt fjármagn inn í atvinnureksturinn, þá verður það ekki gert nema með því að búa betur að hlutabréfaeigendum en nú er. Það er að vísu rétt, og ég tek undir það með honum, að spariféð er undirstaða alls góðs sparnaðar og hefur auðvitað grundvallarþýðingu fyrir hagkerfið, en sparifé nýtur hér fríðinda, sem yfirleitt er ekki í öðrum löndum. Það stafar vitanlega af því, að við höfum búið hér við verðbólgu og þar af leiðandi er fullkomlega hægt að réttlæta þetta, og ég tek það skýrt fram, að ég er algjörlega andvígur því að svipta sparifé þessari aðstöðu. En hinu skulum við ekki heldur loka augunum fyrir, jafnvel þó að megi tala um það, að það sé einhver verðtrygging í því að eiga fé í hlutafélögum, að sannleikurinn hefur verið sá, að þessi atvinnurekstur hefur ekki gengið það vel hér á Íslandi, a.m.k. ekki að staðaldri, að það hafi verið mögulegt að borga arð, þannig að þeir menn, sem leggja fé sitt í banka, eru þá frjálsir með að taka það þaðan, ef þeir vilja, en þeir menn, sem leggja sitt fé í hlutabréf, leggja út í fullkomna óvissu, þó að það eigi að nafninu til að heita, að þetta sé verðtryggt með því, að eignir félaganna vaxi.

Ég vek athygli á því dæmi, sem einmitt 7. landsk. þm. benti á áðan og á við þá tegund stofnana hér í okkar þjóðfélagi, sem ganga bezt og eru hvað öruggastar, þar sem er bankakerfið sjálft, að jafnvel þar hefur ekki verið mögulegt nema að takmörkuðu leyti að borga arð — hvað þá á fjöldamörgum öðrum sviðum. Stórfyrirtæki hér hafa ekki getað greitt arð nema að sáralitlu leyti. Og ég legg á það áherzlu að lokum, að fyrir mér vakir það eitt með þessari arðjöfnunarsjóðshugmynd, eins og getið er um í erindisbréfi embættismannanefndarinnar, að laða fjármagn að atvinnurekstrinum og þá fyrst og fremst heilbrigðum atvinnurekstri í landinu, en ekki að gefa neinum manni kost á því að svindla eða misnota þetta. Það verður þá að bregðast við því með þeim hætti, sem tiltækur er, ef það sýnir sig, að það sé viðleitni í þá átt. Með hliðsjón af þeirri miklu þörf, sem á því er, að fá hér aukna þátttöku almennings í atvinnurekstrinum, sem er vitanlega sú lifæð, sem öll okkar afkoma er undir komin, að ör blóðrás sé um hverju sinni, er þetta það eina, sem fyrir mér vakir, en ekki að hlynna að einum né neinum af persónulegum velvilja við þá.