03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þá fyrst leyfa mér að leiðrétta, ef ég hef missagt eitthvað, þegar ég vitnaði í ræðu hæstv. fjmrh., sem hann hélt hér við 1. umr. Ég mun hafa sagt hér áðan, að hæstv. fjmrh. hafi lagt áherzlu á það við fjhn. að gera ekki meiri háttar breytingar á frv. — eða eitthvað í þá átt. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp með leyfi hæstv. forseta það, sem hann sagði, til þess að skýra það um leið, að ég ætlaði ekki að mistúlka orð hans. Hann sagði: „Ég vil taka það hér fram, eins og ég gerði í hv. Nd., að frv. var lagt þar fram eins og embættismannanefndin gekk frá því, og ég tók það þar skýrt fram, að ég hefði ekkert við það að athuga, að á því yrðu gerðar breytingar, svo lengi sem þær breytingar beindust í þá átt, sem fólst innan þess meginramma, sem embættismannanefndinni var settur með þeim tveimur erindisbréfum, sem henni voru í hendur fengin.“ Þetta er það, sem hæstv. fjmrh. sagði, og ég vil ekki hafa rangt eftir honum. Hann vildi sem sé, að þetta yrði innan rammans, sem hann markaði með embættisbréfunum. Mér hefur einhvern veginn fundizt, þegar ég heyrði þessi orð, eins og ekki væri rúm innan rammans fyrir neinar meiri háttar breytingar. Það hygg ég nú líka, að ekki hafi verið, engar meiri háttar breytingar hafi verið gerðar og sízt það, sem talizt gæti til nýmæla.

Þá vil ég lýsa mikilli furðu á því, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. skuli hafa getað misskilið svona hrapallega það, sem hann er beðinn að útvega n. Það er mér hreinlega með öllu óskiljanlegt og ennfremur það, hvers vegna hann lét ekki í té þær upplýsingar, sem hann hélt, að hann hefði verið beðinn um. Það hefði hann þó auðveldlega átt að geta. Þetta gengur ekki alveg nógu vel upp hjá mér. Hitt er annað mál, að þegar þessi beiðni var sett fram, þá hugsaði ég með sjálfum mér eitthvað svipað og hæstv. fjmrh. var að segja núna, að trúlega yrði erfitt að meta þessa breytingu. Ég get út af fyrir sig nokkuð vel skilið það. Hitt er alveg víst, að ráðuneytisstjórinn taldi sig geta reiknað hana út, eða þannig skildi ég hans orð, og það er náttúrlega æskilegt, að reynt sé að gera sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar l. hafa, áður en þau eru sett.

Annars finnst mér allt þetta mál benda til þess, að hér eigi að taka upp nýja siði, og mér fannst hæstv. fjmrh. gera því skóna hér áðan líka, að nú eigi reglan að vera þessi: Það á að setja I. og vita, hvernig þau reynast, og athuga það svo, þegar búið er að reyna l., hvort það eigi að hafa þau. Það er vafalaust hin eina röksemd, sem hægt er að viðurkenna fyrir þessari lagasetningu, þ.e. sú, sem hæstv. fjmrh. bar fram hér áðan. Það er svo um mörg lög. Það er vissulega svo um mörg lög. En hingað til hygg ég þó, að alþm. hafi fremur reynt að gera sér grein fyrir því, áður en þeir samþykktu frv., hvaða afleiðingar þau mættu hafa, frekar en að samþykkja þau fyrst og fara svo að skoða það á eftir, hvort þetta hafi nú verið sæmilega heppnað eða ekki. En hæstv. ráðh. endurtekur það hér, eins og hann gerði við 1. umr., að framhaldsendurskoðunar á þessum málum sé þörf og allt dæmið verði athugað á næsta þingi, eins og hann sagði í ræðu sinni við 1. umr. Þá þarf að athuga dæmið það snemma, að hægt sé að leggja skatta á eftir því á næsta ári ekki bara til ríkisins, heldur til sveitarfélaganna einnig. Og hvaða nauður er það þá, sem rekur til þess að samþykkja þetta frv.? Það fæ ég ekki séð. Svoleiðis tilraunastarfsemi með lagasetningar langar mig ekki til að taka þátt í.

Hv. 7. landsk. þm. beindi nokkrum orðum til mín, taldi það sýndi lítinn skilning á skattamálum og arðsmálum félaga, sem ég hafði sagt hér við 1. umr. Það getur vei verið, að ég skilji þetta ekki rétt vel og verr en ýmsir og jafnvel verr en hann, en það, sem hann var að tala um og ég var að tala um, er náttúrlega tvennt ólikt. Hann lagði mikið upp úr því, að félögin hefðu ekki getað greitt arð. Það er alveg rétt. Félögin hafa ekki getað greitt arð. En þau geta ekkert frekar greitt arð, þó að sá arður verði skattfrjáls hjá þeim, sem tekur við honum. Það held ég, að ég hafi sagt hér við fyrri umræðu, og það skal ég endurtaka. Það er alveg rétt, að það þarf að búa þannig að atvinnurekstrinum, að hann geti greitt arð. En þetta frv. miðar ekki nema að mjög litlu leyti í þá átt — mjög litlu leyti — og einungis að því, er tekur til fyrninganna. Einkabankarnir hafa ekki sumir hverjir greitt neinn arð. Samvinnubankinn hefur aldrei greitt arð. Vegna þess ákvæðis, sem í l. er, má hann ekki greiða arð, fyrr en vissum skilyrðum er fullnægt í því, að eigið fé og hlutafé sé tiltekin prósenta af sparifénu, sem honum er trúað fyrir. Því marki hefur Samvinnubankinn enn þá ekki náð. Því marki náði Verzlunarbankinn fyrir, að ég hygg, tveimur árum og Iðnaðarbankinn ekki alls fyrir löngu, en það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, sem hann þekkir auðvitað manna bezt, að þrátt fyrir ímyndaðan bankagróða landsmanna er hann nú ekki meiri en þetta, að jafnvel þeir bankar, sem mega greiða arð laganna vegna, hafa orðið að hætta því eins og Iðnaðarbankinn. Ég held, að sá samanburður, sem við hv. 10. þm. Reykv. og ég gerðum á arði af hlutafé og sparifé, sé fyllilega réttur. Hitt er annað mál, að félögin hafa ekki — mörg hver — getað greitt arð. Það er áhyggjuefni. Það er annað mál.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur nú dregið inn í þessar umr. þær till., sem ríkisskattstjóri hefur sett fram í n. um þessi mál, sem rædd voru á fundi í fjhn. um daginn, en ég ætla ekkert að gera það að umtalsefni. Þær liggja hér ekki fyrir, en eru vissulega athyglisverðar. Ég hafði hugsað mér í fyrri ræðu að gera grein fyrir því, að misjafnar skoðanir höfðu komið fram í n. einmitt á þessu máli — svona til þess að benda á, að sú leið, sem hér er valin, sé a.m.k. ekki óumdeilanlega sú rétta; ég gleymdi þessu. Það hefur nú komið hér fram við umr., það var dregið fram af öðrum, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða um það.

Hv. 7. landsk. þm. sagði, að ákvæðin varðandi söluhagnað hefðu verið löguð frá fyrra frv., en hann tjáði sig ekkert um það, hvort þau væru betri en gildandi lög. Eru þau það að hans mati? Eru þau það skilyrðislaust? Ég hygg, að um það megi deila. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í það að þessu sinni, en vissulega má um það deila. Lögin eru flóknari, og það er meiri fyrirhöfn að framkvæma þau, en hagurinn, held ég, að sé lítill.

Hv. 7. landsk. þm. sagði og rökstuddi það, að þetta frv. væri fullt af furðuákvæðum, eins og hann orðaði það. En niðurlagsorð hans voru á þá leið, að hann vonaði, að deildin veitti frv. brautargengi. Hann vill með öðrum orðum endilega, að við sameinumst um það að lögfesta furðuákvæðin. Þetta finnst mér furðulegur málflutningur og furðuleg afstaða hjá hv. stjórnarliðum. Þeir koma hér hver um annan þveran og lýsa því, að þeir séu hundóánægðir með frv., en það sé ekkert annað að gera en samþykkja það, vegna þess að það sé svo seint fram borið. Ég held, að þeir mundu auka virðingu okkar allra, ef þeir legðust á sveif með þeim, sem vilja fresta þessum lögfestingum furðuákvæða og þokuskýja og geyma það til næsta þings að taka þessi mál til raunhæfrar meðferðar.

Fasteignaskattarnir hafa verið nefndir hér, og ég verð að lýsa ánægju minni yfir þeim skilningi, sem hæstv. fjmrh. kom fram með á fyrirhuguðum ákvæðum fasteignaskatta. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri enginn vandi að hafa fasteignaskattana stighækkandi, það væri létt verk og sjálfsagt, skildist mér, að undanþiggja t.d. íbúðarhúsnæði, sem notað er til eigin afnota. Ég tel mikinn feng að þessum ummælum. Sérstaklega finnst mér þau skoðanaskipti, sem farið hafa fram við hæstv. fjmrh. í þessu efni, gleðileg. Ég held, að það séu tvö ár núna, síðan ég leyfði mér að flytja hér frv. í þessari hv. d. um þetta efni — um það að undanþiggja íbúðarhúsnæði til eigin afnota ekki fasteignaskatti, heldur álagi á fasteignaskatt, sem sveitarfélögum var heimilt að leggja á og var einmitt verið að gera hér í Reykjavík um þetta leyti. Ég flutti þetta mál líka í borgarstjórn Reykjavíkur, og þar var það fellt og talið óframkvæmanlegt. Sama sagan gerðist hér á hv. Alþ. Stjórnarforustan taldi það útilokað, að nokkurri slíkri mismunun yrði hægt að koma við. Nú er afstaðan sem sé breytt bæði í borgarstjórn Reykjavíkur og hér á hv. Alþ., og ég er a.m.k. fyrir mitt leyti mjög ánægður að heyra það, að það, sem var talin fjarstæða hjá mér fyrir tveimur árum, sé ekki lengur litið þeim augum, heldur þvert á móti talið sjálfsagt réttlætismál, sem sé um að gera að lögfesta sem allra fyrst. Þetta þykja mér góð tíðindi.

Allt það, sem hér hefur verið sagt við þessa umr., og ekki sízt það, sem komið hefur fram, síðan ég lauk minni fyrri ræðu, finnst mér hníga að því, að sjálfsagt sé að fresta þessu máli. Öll rökin virðast mér hníga að því. Það er yfirlýstur megintilgangur hæstv. fjmrh. með flutningi þessa máls að efla almenningshlutafélög og auka þannig þátttöku fólksins . í atvinnurekstrinum. Þetta er vafalaust góðra gjalda vert, en það liggur ekkert á að lögfesta þetta núna ásamt með þokukenndum ákvæðum og furðuákvæðum. Það er alveg óhætt, og það tapa engir neinu, þó að þetta mál sé athugað betur til næsta þings. En það getur unnizt meira en ég treysti mér til þess að lýsa í stuttri ræðu.