03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér. Ég er ekkert óvanur því að standa hér uppi í ræðustól í þessari hv. d., án þess að af því sjáist nokkur verulegur árangur, og ég tel hann ekkert hafa verið minni í þetta skipti en önnur, sem ég hef verið að malda í móinn gagnvart þessum hæstv. ráðh.

En eitt hafði ég þó upp úr krafsinu, að ég verð sennilega einni bók ríkari, áður en langt um líður, og hef ég oft staðið upp og hlotið minna í hlut eftir en það. Annað fannst mér líka, að kynni að geta talizt ávinningur af minni ræðu, og það var það, sem hæstv. ráðh. sagði um fjárfestingarsjóðina. Í framhaldi af minni ræðu tók hann af öll tvímæli um það, að hann teldi það vera mjög athyglisverða hugmynd, sem yrði tekin til rækilegrar athugunar við það, sem hann kallaði framhaldsathugun málsins. Þetta tel ég einnig mjög jákvætt að hafa fengið fram. En í því sambandi hlýtur þó sú spurning að vakna: Hvers vegna tók hæstv. ráðh. þessa till. ekki til fullkomnari athugunar, áður en hann lagði sitt frv. fram? En það er kunnugt, að þessi till. naut ekki fylgis meiri hl. í embættismannanefndinni, en auðvitað var það hægurinn hjá fyrir hæstv. ráðh. að taka þessa till. upp engu að síður í það stjfrv., sem hér liggur fyrir. En það er kannske, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, verið að taka upp nýja siði og ýmist fresta að taka afstöðu til mála, sem gætu verið til bóta, eða þá prófa ýmislegt, sem flestir gera sér grein fyrir, að í felist stórkostlegar hættur, og segja síðan, að það sé allt í Íagi með það og megi athuga það, ef misnotkun eigi sér stað. En þetta sýnist mér ekki benda til þess, að öll ákvæði frv. hafi verið skoðuð niður í kjölinn, bæði það, að afstöðu til fjárfestingarsjóðsins er frestað af hæstv. ráðh., og eins hitt, að það eru tekin inn ákvæði, sem hæstv. ráðh. viðurkennir, að orki mjög tvímælis og kunni að vera þess eðlis, að það þurfi að breyta þeim innan skamms, vegna þess að þau bjóði misnotkun heim.

Það má svo gjarnan vekja athygli á því, að það, sem stóð upp úr alveg sérstaklega í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. núna, var það, að hann er talsmaður hinna stóru eininga og hinna fjársterku fyrirtækja í landinu. Þetta þykir mér vera yfirlýsing, sem er þess virði, að hún sé undirstrikuð. Það eru ekki hinir smáu atvinnurekendur, sem þó gegna hinu mikilsverðasta hlutverki í okkar þjóðfélagi og í okkar atvinnurekstri, sem eiga að lifa, og fyrir þeim þarf ekki að hugsa, heldur hinum stóru og sterku, og það er auðvitað í fullu samræmi við alla stefnu hæstv. ráðh. og hans ríkisstj. Ég þarf svo ekki að standa hér uppi í ræðustól og eiga orðastað við hæstv. ráðh., til þess að hann geti sannað það, að hann er meiri leikfimismaður í orðasennum en flestir aðrir, sem sitja hér á hv. Alþ., og ekki mun þýða fyrir mig að etja kapp við hann í þeim efnum. En það kalla ég afrek í íþróttamennsku, þegar hann annars vegar lýsir því yfir hér í umr. við 1. umr. þessa máls, að það komi ekki til greina að samþykkja þetta frv., nema samþykki og velvild atvinnurekenda komi til, og segir svo hins vegar núna, að þetta sé alveg rangur skilningur. Hann sé þeirrar skoðunar, að það eigi alls ekki og þurfi ekki að kveðja til hagsmunasamtökin til þess að ákveða, hvernig tekna sé aflað í ríkissjóð. Þetta kalla ég leikfimi, sem er aðdáunarverð á sinn hátt, þó að hún nái ekki því marki að vera þannig, að menn missi sjónar á því, hvaða brögðum er hér verið að beita í orðum.

Hæstv. ráðh. vildi skýra hin fyrri ummæli sín svo, að það hafi þurft að athuga stöðuna í skattamálunum vegna inngöngu okkar í EFTA. Þessu hef ég aldrei neitað, að það hafi verið út af fyrir sig nauðsyn. En hvað kom á daginn, þegar reynt var að athuga þessi mál? Kom það ekki á daginn, að aðstaða fyrirtækja í þessum efnum hér á landi væri alls ekki verri en í öðrum EFTA-löndum? Það held ég, að liggi alveg ljóst fyrir. Það hafi ekki aðeins verið ósannað mál, hvort svo væri, heldur allar líkur á því, þó að samanburður væri erfiður, að engra breytinga væri þörf á skattalögunum vegna inngöngu okkar í EFTA, því að staða fyrirtækja hér í skattamálum hafi alls ekki verið lakari en þar. En upp úr þessu stendur það — og það duga engin leikfimisbrögð til að forða sér undan því, að annars vegar er yfirlýsing hæstv. ráðh. um það, að þegar atvinnureksturinn á í hlut, þá á að hafa samráð við atvinnurekendur, og hann taldi það hafa verið skyldu embættismannanefndarinnar að gera það, og hann taldi það sína skyldu, þegar málið kom til hv. Alþ. að afgreiða málið ekki, nema atvinnurekendur legðu blessun sína yfir það, en hins vegar þegar kemur að hlutdeild launþeganna í skattheimtu ríkissjóðs, þá þarf ekki að kveðja hagsmunasamtökin til, þá á Alþ. að ráða án þess að spyrja nokkurn um.

Það fer auðvitað vel á því, að það sannist, að hæstv. ráðh. kann orðrétt betur viðreisnarbókina frægu en ég, og ég er auðvitað tilbúinn að hafa það, sem sannara reynist, að þar hafi staðið, að það ætti að afnema tekjuskatt á almennum launatekjum. Þar byrjuðu nú aftur leikfimisæfingarnar, sem ég kalla svo, hjá hæstv. ráðh., þar sem hann taldi í öðru orðinu, að við þetta hefði verið staðið, en játaði í hinu orðinu, að skattvísitölunni hefði verið þannig hagað, að þetta hefði ekki orðið. Og ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. eða a.m.k. vekja athygli hv. þdm. á því — því að ekki er ég að kveðja hann hér upp í ræðustólinn aftur að óþörfu — hvernig það megi verða, að það sé hægt að tvítugfalda á þessu 10 ára tímabili tekjuskatta einstaklinganna, án þess að það komi niður á almennum launatekjum. Eina skýringin, sem ég annars gæti fundið á þessu, væri sú, að á þessu tímabili hefði komið hér upp í landinu og þá væntanlega fyrir tilverknað ríkisstj. og hennar stefnu stór hópur hálaunamanna, sem bæri þessa skatta. Til þess að koma upp slíkum launaburgeisahóp hafa að vísu verið gerðar ítrekaðar tilraunir í tvígang af hæstv. fyrrv. fjmrh., Gunnari Thoroddsen, 1963 og aftur núna af núv. hæstv. ráðh. En ég held, að þessar tilraunir hafi samt ekki fengið því áorkað, að það geti átt sér stað, að þessi tvítugföldun lendi öll á hálaunastéttum eða hátekjumönnum. Ég held þvert á móti, að það rétta sé, að vegna rangrar skattvísitölu og ýmissa annarra ástæðna hafi meginþunginn af þessu lent á almenningi og þannig hafi það sannazt, að ekki hafi verið staðið við þau loforð, sem gefin voru við vöggu viðreisnarinnar, þ.e. að tekjuskattar af almennum launatekjum væru afnumdir. Það held ég, að sé ákaflega fjarri lagi.

Varðandi það, sem ráðh. sagði um fyrningarnar til andsvars við því, sem ég hélt fram, held ég, að þar hafi hann eitthvað misskilið mín orð eða a.m.k. ekki skilið þau fullkomlega. Það, sem ég átti við, var, að með mjög rúmum fyrningarreglum skapast sú tilhneiging hjá atvinnurekendum að hafa alltaf fyrnanlegar eignir, ef gróðinn er fyrir hendi til þess að geta skotið undan fé, sem annars lendir í ríkiskassanum og til almenningsþarfa. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. skilur sjálfsagt eins vel og betur en ég. Ef sú leið hefði hins vegar verið farin að mynda fjárfestingarsjóði, eins og ríkisskattstjóri lagði til í sínum till., þá held ég, að þessi tilhneiging hefði að vísu ekki orðið, en menn hefðu þá lengri tíma til að hugsa um, í hvað þeir ættu að setja fjárfestinguna, og það skapar meiri tryggingu fyrir því, að hún yrði arðvænleg og hagstæð fyrir þjóðarbúið, og það er ég sannfærður um, að er rétt.

Ég vil svo að síðustu segja það, að mér finnst það hart, að hæstv. ráðh. skyldi segja hér annars vegar, að sumt í ákvæðum þessara nýju l. orkaði svo tvímælis, að líkur væru á, að breyta þyrfti því mjög fljótlega vegna hættu á misnotkun, og hins vegar lýsa yfir því, að athyglisverðar till., sem komu fram í embættismannanefndinni t.d. um fjárfestingarsjóðina, hafi ekki verið rannsakaðar niður í kjölinn og ekki verið tekin afstaða til þeirra. Þar ber allt að sama brunni, eins og hv. 11. þm. Reykv. var hér að tala um, að það ber að fresta þessu máli og athuga það betur, áður en það er afgreitt héðan frá þessari hv. d. og hv. Alþ.