11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir bara rétt að benda hæstv. landbrh. á það, að þrátt fyrir þessa lagaheimild, sem hann las úr, þá yrði samt sem áður að baða annað hvert ár og þá mundu þessir menn einmitt baða áfram á því ári, sem almenn böðun færi ekki fram, og það væri ekki æskilegt. Það væri ekki æskilegt, því að nú á að fara fram böðun annað hvert ár. En þeim mönnum, sem eru búnir að baða, væri gerður óréttur með því að verða ekki við þessari ósk. Ég var nú norður í Eyjafirði og hitti marga bændur bæði úr Þingeyjarsýslum báðum og Eyjafirði, og þeir spurðu einmitt mjög um þetta frv. og vissu ekkert um, hvort það væri líklegt til að ná fram að ganga eða ekki. Það er nú svo þarna norður frá, en það kann að vera, að sunnlenzkir bændur viti það, að það sem hæstv. landbrh. ber fram hér, muni kannske ná fram að ganga, en þeir þarna fyrir norðan vita það nú ekki.

Ég get aftur á móti orðið við þeirri beiðni að taka þessa till. aftur núna og óska eftir því, að hún sé ekki borin undir atkvæði við þessa umr., og ég vona það þá, að formaður hv. landbn. boði fund á venjulegum fundartíma, þannig að allir geti mætt og hann verði við ósk ráðh. um það að boða fund, áður en málið kemur til 3. umr.