26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um virkjun Svartár í Skagafirði hefur verið í undirbúningi og athugun að undanförnu, en hins vegar hefur athugun á hagkvæmni virkjunar Svartár átt sér nokkuð langan aðdraganda, eins og getið er um og vísa má til í grg. frv. Fyrrv. raforkumálaráðh. lét sérstaka n. athuga málið. Hún valdi á milli ýmissa kosta, sem um væri að ræða, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri út af fyrir sig hagkvæmt, ef væri hægt að ná þarna hagkvæmri virkjun. Þá voru hins vegar uppi hugmyndir um samtengingu við Laxárvirkjun, eftir að till. um Gljúfurversvirkjun höfðu fram komið, en án þess að ég fari nánar út í þá sálma, þá er niðurstaðan nú orðin, þegar Gljúfurversvirkjun er úr sögunni, að Laxárvirkjunarstjórn sérstaklega aðspurð nú ekki fyrir löngu telur sig ekki vera aflögufæra um neina raforku út af svæði sínu. Í raun og veru má segja, að það hafi legið nokkuð skýrt fyrir, að svo væri, og það var m.a. þess vegna sem ég á öndverðu þingi flutti frv. um virkjun Lagarfoss, sem afgreitt var sem lög fyrir jólin, en það hafði einnig verið lengi til umtals að tengja saman Norðurlandið og Austurlandið frá einhverri stórri Laxárvirkjun, sem nú er ekki lengur um að ræða.

Þetta frv. er eins og önnur af þessu tagi og svipað að formi og efni og frv. um virkjun Lagarfoss. Þar er fyrst og fremst leitað eftir heimild til ríkisstj. til þess að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Svartá í Skagafirði við Reykjafoss í allt að 5500 hestafla raforkuveri og Íeggja þaðan aðalorkuveitu til Sauðárkróks til tengingar þar við veitukerfi Norðurl. v. Svo eru ákvæði um heimild til þess. að taka lán og ákvæði um, að fella skuli niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum. Ríkisstj. er heimilað að festa kaup á vatnsréttindum og landsréttindum, og loks er svo það ákvæði í 6. gr. frv., að óski sveitarstjórnir á Norðurl. v. að gerast eignaraðilar að Svartárvirkjun og öðrum orkuverum á orkuveitusvæðinu, er ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins, en þetta er tilsvarandi ákvæði og er í l. um Lagarfossvirkjun. Það er nokkuð nærtækt, að slík heimild sé í frv. um virkjun Svartár í Skagafirði vegna þess, að eins og fram kemur í grg., þá hefur á vegum sýslunefnda Húnavatns- og Skagafjarðarsýslna ásamt Sauðárkrókskaupstað um nokkur ár verið starfandi raforkumálanefnd. Og þessi raforkumálanefnd hefur haft mikinn áhuga á því að koma þessari virkjun í framkvæmd, og hefur ráðgjafarfyrirtæki, Virkir h.f., hannað virkjun í Svartá við Reykjafoss í Skagafirði á vegum þessara aðila. Þær áætlanir og hönnun, sem þannig liggja fyrir, hafa af Orkustofnun verið taldar hagkvæmar. Hún hefur ekkert út af fyrir sig við þær að athuga.

Það er svo annað mál, að það þarf að ganga rækilegar í málið og undirbúa margt, áður en hægt er að hefjast handa. Mér er það fyllilega ljóst, að þegar frv, sem þetta er borið fram í þinglokin, þá dettur mér ekki í hug að ætlast til þess af þinginu, nema um það væri alveg einróma samstaða, að það geti lokið málinu. En jafnvel þó að svo verði ekki, þá vil ég segja, að það er mjög mikils virði að fá markaða stefnu í þessu máli, sem er gert með flutningi þessa frv. Það væri líka út af fyrir sig mjög æskilegt, að n., sem fengi málið til meðferðar hér, gæti skilað áliti í málinu sem fyrst, sérstaklega ef hún er sammála um málið, því að það mundi styrkja iðnrn. í framkvæmdum sínum, sem það mun vinna að til eflingar framkvæmdum á þessu sviði, enda þótt l. hafi ekki tekið gildi, í trausti þess, að Alþ. geti, þegar það kemur saman á næsta hausti fljótlega samþykkt lög eins og þessi. Og það getur flýtt mjög fyrir að hafa þá unnið að undirbúningi málsins, fullkomnað hönnun virkjunarinnar og undirbúið fjáröflunina.

Ég skal viðurkenna það, að ég hafði búizt við því og reyndar kannske gefið það í skyn, að flutningur þessa máls gæti orðið fyrr á þessu þingi, þannig að það gæti átakalaust náð lögfestingu, en það er nú svo, þegar um mál eins og þessi er að ræða, að oft kemur fram ýmislegt í undirbúningnum, sem tefur framgang þess. Mér er ljós sú mikla orkuþörf, sem er á þessu svæði, og mjög einbeittur vilji fólksins til þess að raforkuver sé reist í héraðinu sjálfu. Ég aðhyllist þá stefnu, að eðlilegt sé, að hlutdeild sveitarfélaga, ef þau óska þess, sé fyrir hendi í raforkuvirkjunum eða rafveitum, sem reistar hafa verið eingöngu af hálfu ríkisins. Ég minni á það, að upphaflega voru það sveitarstjórnirnar, sem réðust í virkjanirnar og jafnvel einstaklingar, og slíkt held ég, að sé í raun og veru farsæl stefna, sem mótuð er í bæði þessu frv. að þessu leyti og í frv. um virkjun Lagarfoss.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.