26.03.1971
Neðri deild: 70. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki margt, sem ég þarf að bæta við ræðu hæstv. forsrh., enda þarf ég að ná í flugvél eftir nokkrar mínútur norður í land og má því ekki vera að því að flytja langt mál um þetta frv. að þessu sinni. Ég vil þó gagnstætt því, sem mér virtist, að hæstv. ráðh. teldi, leggja áherzlu á, að þetta mál fái afgreiðslu á þessu þingi, og mér sýnist, að ef vilji er fyrir hendi um það, þá ætti það að vera auðvelt verk. Málið er ekki flókið, og fyrr á þessu sama þingi voru afgreidd hér lög um virkjun Lagarfoss, sem eru svo að segja að breyttu breytanda nákvæmlega shlj. þessu frv.

En þetta mál er búið að vera áratugum saman mikið áhugamál heima í Skagafirði — raunar allt frá árinu 1920. Þá þegar var farið að ræða um virkjun Svartár við Reykjafoss, og Skagfirðingar brutust í því æ ofan í æ að fá virkjunarmöguleika þar rannsakaða. Það mun hafa verið fyrst árið 1929, sem Jón heitinn Ísleifsson verkfræðingur gerði áætlun — raunar kallaði hann það bráðabirgðaáætlun — um 800 KW virkjun í Svartá, og var það ekki svo lítil virkjun á þeim tíma. Fleiri góðir menn gerðu till. um þessa virkjun svo sem Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri og Jakob Guðjohnsen, og þeir gerðu raunar meira en það. Þeir gerðu áætlun um dreifingu orkunnar um svo til allan Skagafjörð, og síðar hafa verið gerðar áætlanir um þessa virkjun. Það dylst engum, að orkuþörf í þessu kjördæmi er orðin mikil. Orkuþörfin fer vaxandi með hverju ári, og þessari orkuþörf þarf að svara með síauknu dísilalli, og ef hægt væri að ráðast í þessa virkjun nú sem allra fyrst, mundi vera auðvelt, að ég hygg, að selja strax alla þá raforku, sem hún framleiðir, og leysa þannig af hólmi að langmestu leyti það dísilafl, sem nú er notazt við. Það blandast engum hugur um það, að þó að þessi virkjun gefi e.t.v. ekki jafnhagkvæma útkomu og stórvirkjanirnar, þá er kostnaðurinn eða verðið á þeirri raforku, sem hún mun framleiða, ekki neitt í nánd við þann kostnað eða það verð, sem fæst með raforku frá dísilstöðvunum.

Ég vil benda á það, sem hæstv. ráðh. gerði raunar líka, að undanfarin ár hefur starfað svokölluð raforkumálanefnd Norðvesturlands kosin af sýslunefndum Húnavatnssýslna og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu og bæjarstjórn Sauðárkróks. Þeir hafa rætt mjög um raforkumálin á þessu svæði, og ég held, að ég megi fullyrða það, að ávallt hefur verið innan þessarar n. fullur einhugur um þessa virkjun. Á fundum þessarar n. hafa einnig mætt fulltrúar frá bæjarstjórn Siglufjarðar, og þeir hafa jafnvel látið að því liggja, að þeir mundu vilja verða þátttakendur í þessari virkjun, ef til þess kemur á síðari stigum málsins, að sveitarfélögin taki einhvern þátt í þessu verki.

Ég sá í dagblaðinu Tímanum, sem kom út í morgun, sennilega í tilefni þess, að þetta frv. var lagt hér fram á Alþ. í gær, greinarkorn, sem einhver Skuggabaldur hefur ritað, sem nefnir sig Svarthöfða, og fyrirsögn þessarar greinar er á þessa lund: „Er Laxár-mál í uppsiglingu í Skagafirði?“ Ég held, að ég megi fullyrða það, að hér er ekki um það að ræða, a.m.k. ekki af hálfu okkar heimamanna, að neinn slíkur ágreiningur, sem hefur orðið um Laxárvirkjun, sé um þetta mál. Það hefur, eins og ég sagði áðan, ríkt um þetta mál nær því alger einhugur í Skagafirði og raunar í kjördæminu öllu. Það stendur t.d. hér í þessari gr. með leyfi hæstv. forseta: „Því er mjög veifað af þeim aðilum, sem ætla nú að keyra rafstöðina ofan í miðjan laxastigann í Reykjafossi, að þeir hafi samþykki landeigenda fyrir ofan Reykjafoss fyrir því, að það megi virkja Svartá. Það skal tekið fram í eitt skipti fyrir öfl, að þetta eru helber ósannindi. Enginn landeigandi fyrir ofan Svartá hefur heitið slíku. Tveir eða þrír aðilar, sem eiga mestra hagsmuna að gæta, vegna þess að þeir eiga land að Reykjafossi ...“

Nú get ég skýrt frá því, að þegar ég var heima í hléinu, sem var í kringum hátíðarnar, komu á minn fund þrír bændur framan úr Lýtingsstaðahreppi, sem eru aðilar að þessu landeigendafélagi. Erindi þeirra var það eitt að hvetja mig til þess að koma fram þessu máli, virkjun Svartár við Reykjafoss. Og þeir sögðu mér, sem ég veit líka, að er alveg rétt, að þeir væru margir, landeigendur í Lýtingsstaðahreppi, sem eru sama sinnis og þessir þrír bændur, og ég vil taka það fram, að þessir bændur eru enn þá framar í sveitinni og eiga engar fjárvonir í skaðabótum út af þessari virkjun. Þeir buðu mér að safna undirskriftum úr hreppnum til stuðnings þessu máli. Ég er nú yfirleitt heldur andsnúinn undirskriftum og sagðist ekki telja ástæðu til þess að sinni. Það gæti komið til þess, að ég leitaði til þeirra síðar og fengi slíkar undirskriftir, en ég fullyrði það, að það, sem stendur í þessu greinarkorni, eru helber ósannindi, þ.e. að hér liggi ekki fyrir neitt samþykki landeigendafélagsins í heild. En ég fullyrði það alveg, að innan landeigendafélagsins er mikill áhugi einmitt fyrir framgangi þessa máls. Því er það svo, að ef stofnað verður til einhverrar óeiru um þetta mál, þá hygg ég, að það verði af völdum einhverra utanaðkomandi afla, og ég vænti þess, að sú verði gifta héraðs míns og Norðurl. v., að við látum ekki slík óeirðaröfl brjóta það niður fyrir okkur, sem við viljum byggja upp, og ég spái því, að hlutur slíkra afla verði ekki mikill.