02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni stjfrv. um virkjun Svartár í Skagafirði. Þetta er þó ekki fyrsta frv., sem komið hefur fram á Alþ. um virkjun þessarar ár, því að tvívegis hafa í hv. Nd. verið flutt frv. um virkjun Svartár í Skagafirði. Þessi frv. hafa verið flutt af þm. Norðurl. v., sem eiga sæti í Nd., en í samráði við þm. kjördæmisins hér í Ed. Þau frv. náðu ekki fram að ganga, en nú er hér komið stjfrv. um þetta mál, sem hefur verið samþ. í Nd. og er nú komið hér til Ed. á síðustu dögum þingsins.

Það hefur löngum ríkt mikill áhugi heima í kjördæminu á framgangi þessarar virkjunar. Forráðamenn á sviði raforkumála og sveitarstjórnarmála hafa mjög beitt sér fyrir þessu og geta nú vonandi uppskorið ávextina af sínu erfiði. Þeir sjá nú fram á, að horfur eru á, að þessi virkjun verði að veruleika við samþykkt þessa frv. Þessi virkjun er að vísu mjög lítil, ef borið er saman við aðrar virkjanir, sem reistar hafa verið á síðustu árum, en engu að síður er hún mjög hagstæð, og hún bætir úr brýnni þörf heima fyrir. En þó að samstaða hafi verið mikil um þetta frv. heima í kjördæminu, þá hefur að vísu gætt nokkurs andófs núna upp á síðkastið hjá landeigendum og veiðiréttareigendum. Ég tel þó, að þær kröfur, sem þeir hafa gert, séu ekki sambærilegar við það, sem bændur við Laxá hafi gert, og yfirleitt séu allar horfur á því, að það sé mun betra að semja við þá, sem búa á bökkum Svartár en Laxár. Hæstv. ráðh. gerði þessu máli mjög góð skil í sinni ræðu, og skal ég ekki fara frekar út í það. Ég get alveg fallizt á það, sem hann hafði þar fram að færa. En aðalástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var einvörðungu sú að leggja ríka áherzlu á það, að þetta frv. verði að l. og það nái fram að ganga hér í þessari hv. d., þó að lítill tími sé til stefnu.