02.04.1971
Efri deild: 88. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa fylgi við þetta frv. og vil taka undir þau ummæli, sem komið hafa frá hæstv. forsrh. og síðasta ræðumanni um það, að þetta frv. gæti gengið fram á þessu þingi, þó að liðið sé á þingtímann. Það er alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það hafa áður verið flutt frv. um þetta efni. Þau hafa verið flutt af þm. kjördæmisins í Nd., en í fullu samráði við þm. kjördæmisins, sem átt hafa sæti hér í hv. Ed.

Það er orðin aðkallandi nauðsyn að leysa orkuþörf Norðurl. v., og það er að vísu rétt, sem hér hefur verið bent á, að þetta er ekki út af fyrir sig stórvirkjun. Og sjálfsagt er það líka rétt, sem maður heyrir æðioft, að það sé hagkvæmara að leysa raforkumál með stórvirkjunum. Nú er aðstaða til þess ekki fyrir hendi — í bili a.m.k. — á þessum slóðum. Og það er nú líka svo, að þó að Svartárvirkjun sé ekki stórvirkjun miðað við þær virkjanir, sem hér eiga sér stað á Suðurlandi, þá mundi þetta samt verða stærsta mannvirkið, sem framkvæmt hefur verið í Skagafirði. Og mín skoðun er sú, hvað sem öllu tali um stórvirkjanir og litlar virkjanir líður, að það sé fengur — það sé það mikils virði — fyrir hvert hérað að hafa raforkuframleiðslu innan sinna vébanda.

Ég vil því eindregið mæla með samþykkt frv., og það er óhætt að segja um það, að það hefur þegar farið fram verulegur undirbúningur að þessu máli, og ég held, að það sé óhætt að segja, að þær athuganir allar, sem gerðar hafa verið í sambandi við þetta mál, bendi mjög eindregið til þess, að þetta sé hagstæð eða geti orðið hagstæð virkjun. Og ég vil jafnframt leyfa mér að láta í ljósi þá von, að að þessu frv. samþykktu muni það ekki dragast lengi, að framkvæmdir verði hafnar í þessum efnum, því að þeirra er mikil þörf.

Það er svo, eins og hér hefur fram komið og hæstv. forsrh. vék sérstaklega að, að það hefur komið bréf frá landeigendafélagi Lýtingsstaðahrepps, þar sem þeir fara fram á það, að það sé gengið frá samningum í sambandi við málið og tryggðar skaðabætur, áður en til framkvæmda kemur. Það er, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., auðvitað enginn vafi á því, að lögum samkv. eiga þeir allan rétt í þessum efnum til þess að fá bætt það tjón, sem þeir kunna að verða fyrir í sambandi við þessa virkjun, og ég tel svar hæstv. ráðh. við mótmælum þeirra eða málaleitun, hvort heldur á að kalla það, fullnægjandi, og hann hefur lýst sínum vilja í því efni, og ég efast ekki um, að annar maður, sem kynni að fara síðar með þessi orkumál, mundi telja sig bundinn af því, að fara að í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ráðh. hefur hér gefið um þetta efni. Þannig að ég álít, að landeigendafélagið þurfi ekki að bera neinn ótta í brjósti í sambandi við þetta mál. Sama máli gegnir um það fiskræktarfélag, sem þarna hefur verið stofnað. Vitaskuld á það að fá bætt það tjón, sem það kann að verða fyrir í sambandi við þessar framkvæmdir. Það liggur í augum uppi — og hæstv. forsrh. hefur tekið þannig líka á því máli — að það er engin ástæða til að ætla, að þeir verði neitt vanhaldnir í þessu sambandi.

En það er ekki aðeins landeigendafélagið í Lýtingsstaðahreppi, sem hefur látið í sér heyra í sambandi við þetta mál, heldur hefur mér borizt hér samþykkt, sem gerð hefur verið af hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps. Og ég vil nú leyfa mér að lesa hana og koma henni þannig hér á framfæri, þó að ég geri ekki ráð fyrir því, að það hafi nein áhrif á meðferð þessa máls, enda er sú samþykkt ekki þess háttar í sjálfu sér. En af því að þeir hafa sent mér þetta og óskað eftir því, að Alþ. væri gert kunnugt um það, hvernig þeir líta á þetta mál, þá vil ég leyfa mér að birta það hér og lesa með leyfi hæstv. forseta. Það gætir ofurlítils misskilnings hjá þeim, þar sem þeir gera ráð fyrir því, að hér sé um þáltill. að tefla í stað lagafrv., og ég vil þá leyfa mér að lesa þessa samþykkt, sem er svo hljóðandi:

„Á fundi hreppsnefndar Lýtingsstaðahrepps, sem haldinn var í Steinsstaðaskóla 28. marz 1971, í tilefni af því, að fram hefur komið á Alþ. till. til þál. um heimild til að virkja Reykjafoss í Svartá, vill hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps benda á eftirtalin atriði.

Er þá fyrst, að ekki hefur verið samið við landeigendur vegna virkjunaraðstöðu, né um bætur fyrir landspjöll, sem verða tilfinnanleg. Hér er um að ræða ræktunar- og jarðhitasvæði, sem fer undir vatn eða eyðileggst af jarðraka við vatnsborðshækkun, sem verður með fyrirhuguðu lóni. Fjórar jarðir verða fyrir verulegum landspjöllum og tvær þeirra svo, að ekki getur orðið um búsetu að ræða á þeim, ef af virkjun verður.

Einnig er nú þegar hafin fiskrækt í Svartá framan við Reykjafoss. Um það hefur verið stofnaður félagsskapur og framkvæmdir hafnar. Er vatnsfall þetta af sérfróðum mönnum talið hið ákjósanlegasta til fiskræktar. Með laxgengum stigum í Reykjafossi lengist fiskvegur árinnar um allt að 30 km og að henni eiga land 40 jarðir.

Þar sem ekki hefur verið samið um bætur fyrir tjón af völdum virkjunarframkvæmda, vill hreppsnefndin taka fram, að verði hafizt handa um virkjun þrátt fyrir ófullkominn undirbúning heima fyrir, krefst hún fyrir hönd skjólstæðinga sinna fullra bóta eftir mati færustu manna til handa öllum þeim, sem á einn eða annan hátt verða fyrir tjóni af völdum framkvæmda svo og tjóni af völdum virkjunarinnar, eftir að hún hefur tekið til starfa. Er þetta í fullu samræmi við fyrri afstöðu n. í þessu máli.“ Og undir þetta skrifa svo 5 hreppsnefndarmenn.

Ég tel, að þetta, sem hreppsnefndin setur þarna fram, sé sjálfsagt mál og kemur auðvitað ekki annað til greina en gengið verði frá samningum um þessi efni, áður en í framkvæmdir verður ráðizt, og er þetta í fullu samræmi við það, sem hæstv. forsrh. hefur þegar lýst hér yfir. Þannig að ég álít, að það eigi ekki að þurfa að koma til vandræða í sambandi við þetta mál, og þess vegna tel ég æskilegt, að það verði afgr. á þessu þingi, þó að nú sé skammur tími eftir þingtímans, og vænti þess, að sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, geti hraðað málinu.