03.04.1971
Efri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. segir, að menn eiga að læra af reynslunni í þessum málum, og vissulega er deilan við Laxá víti til varnaðar. En ég vildi samt sem áður undirstrika það, að hér er um heimildarlög að ræða. Með samþykkt frv. er ekki skylt að virkja Svartá, heldur er um heimild að ræða og ég tel ekkert óeðlilegt, þó að slík lagasetning sé gerð, áður en þessi mannvirki eru fullhönnuð, enda í sjálfu sér kannske erfitt að leggja í mjög mikinn undirbúningskostnað, ef alveg er óvíst um vilja og afstöðu löggjafans í þessum efnum. Ég tel vissulega margt af því, sem hv. þm. sagði hér, vera alveg rétt athugað, en mér finnst hann þó ekki draga alveg réttar ályktanir af þessu. Þetta á auðvitað allt saman að athuga, áður en heimildin verður veitt, ef þetta frv. verður að l., og þá er kannske staldrað við og reynt að koma á fullu samkomulagi heima í héraði og athuga alla þessa þætti málsins, sem nú hafa komið fram síðustu mánuðina. En mér finnst, að þetta eigi ekki að vera því til hindrunar, að þessi heimildarlög verði samþ., enda er ég þeirrar skoðunar, að ef ætti að fresta afgreiðslu þessa frv. hér, þá yrði það nú frekar til þess að magna þessa deilu, sem þarna yrði risin, en til þess að lægja öldurnar.