22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Áburðarverksmiðju ríkisins var afgr. frá n. 5. þ.m. Um afgreiðslu frv. varð enginn ágreiningur í n., þannig að n. mælir einróma með, að frv. verði samþ. Þess ber þó að geta, að einn nm. í landbn., Eðvarð Sigurðsson, var ekki viðstaddur. Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni þessa frv. Það var gert hér við 1. umr., enda ekki mikið í því annað en það að staðfesta fyrirkomulag, sem raunar er þegar komið á, og sameina endanlega Áburðarsölu ríkisins Áburðarverksmiðjunni.

Þess ber að geta að n. ræddi nokkuð till. til breytingar á þessu frv. frá Benedikt Gröndal, og segir í nál., að ekki hafi náðst samstaða um þessa brtt. Brtt. fjallar um það, að skotið verði inn í l. ákvæði um það, að sett verði upp samstarfsnefnd, sem starfsmenn verksmiðjunnar skipa öðrum þræði, en vinnuveitendur skipa að hinu leytinu. Hér á landi munu slíkar samstarfsnefndir eitthvað hafa komið til, a.m.k. veit ég, að svo er á farskipum. Þetta mál er nú mikið rætt hér í nágrannalöndunum, og virðist mér eftir því, sem ég hef kynnt mér málið, að jöfnum höndum tíðkist það, að slíkar nefndir séu lögskipaðar og einnig það, að um það sé samkomulag milli vinnuveitenda og starfsmanna við fyrirtækin. Til þess að kynna mér þetta mál nokkru nánar áður en þetta frv. kæmi hér fyrir og þá að sjálfsögðu brtt., náði ég í grg., sem gefin hefur verið út um ráðstefnu, sem haldin var í Ósló 2.–4. nóv. 1970 um þessi mál. Þátttakendur héðan frá Íslandi á þessari ráðstefnu voru fimm, og skal ég játa það, að ég styð mína afstöðu til þessa máls nokkuð við þeirra álit. Þessir þátttakendur héðan voru Barði Friðriksson, Júlíus Kr. Valdimarsson, Pétur Sigurðsson, Snorri Jónsson og Sveinn Björnsson. Og á ráðstefnu þessari voru um 100 þátttakendur frá þessum löndum: Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Ungverjalandi, Íslandi, Írlandi, Hollandi, Noregi, Svíþjóð og Júgóslavíu.

Það kemur að sjálfsögðu ekki til mála að lesa nema lítið úr þessu áliti þeirra Íslendinga, sem sátu fundi þessarar ráðstefnu, en til þess að gefa hv. dm. tækifæri til þess að kynnast þeirra skoðun á þessu máli þá vil ég leyfa mér að lesa hér tvo til þrjá stutta kafla úr álitinu, með leyfi hæstv. forseta. Á bls. 18 í þessari grg. stendur:

„Að dómi þátttakendanna yrði það málinu til óþurftar, að aðrir aðilar en samtök vinnumarkaðarins tækju frumkvæði á þessu sviði, enda væri það vísasti vegurinn til þess að skapa ágreining og átök þvert ofan í allan samstarfsanda, ef þvinga ætti starfsmenn og stjórnendur í einstökum fyrirtækjum til aðgerða.“

M.ö.o. telja þeir, að eðlilegra sé, að þarna gildi frjálsir samningar eða frjálst samkomulag milli stjórnenda og starfsmanna en lögboð. Síðan segir á sömu bls.:

„Að dómi þátttakenda yrði það vænlegra til árangurs, að samtök vinnumarkaðarins tækju frumkvæði á þessu sviði heldur en löggjafinn gripi inn í án þess að reynt yrði til fullnustu, hvort samningaleiðin er fær eða ekki. Það er megintill. þátttakendanna í ráðstefnunni, að heildarsamtökin, sem þar áttu fulltrúa, komi sér nú þegar saman um að stofna n. til að gera drög að málefnasamningi um samstarfsnefndir. Jafnframt því, sem n. væri falið að semja reglur um skipulag og starfshætti samstarfsnefnda í fyrirtækjum, verði henni falið að gera till. um stofnun samstarfsráðs milli heildarsamtakanna, sem hafi það að markmiði að veita fræðslu um stofnun samstarfsnefnda og leiðbeina samstarfsnefndum í einstökum fyrirtækjum um verkefnaval og starfshætti.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa meira úr þessari grg., enda kemur þarna skýrt fram afstaða þessara fimm Íslendinga, sem sátu þessa ráðstefnu og kynntu sér málin eins og þau horfa við í þeim löndum, sem áttu fulltrúa á þeirri ráðstefnu. En þeir voru, eins og fyrr er sagt, Barði Friðriksson, Pétur Sigurðsson, Júlíus Kr. Valdimarsson, Snorri Jónsson og Sveinn Björnsson.

Til viðbótar þessu vil ég svo geta þess, að núna rétt í þessu eða núna í dag barst mér bréf frá Áburðarverksmiðju ríkisins, sem hafði boðað til fundar af því tilefni, að fram hafði komið sú brtt., sem ég gerði grein fyrir hér áðan og verður betur gerð grein fyrir hér á eftir af flm. Á fundi þessum, sem stjórn Áburðarverksmiðjunnar hélt núna fyrir nokkrum dögum, gerði hún svofellda bókun:

„Á fundi stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins 19. marz 1971 var gerð eftirfarandi stjórnarsamþykkt: „Stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins vill beita sér fyrir því, ef starfslið verksmiðjunnar óskar, að skipuð verði samstarfsnefnd við verksmiðjuna með þremur fulltrúum frá hvorum aðila, stjórn verksmiðjunnar og starfsliði hennar, ásamt jafnmörgum varamönnum.“

Þarna er beinum orðum sagt, að verksmiðjustjórnin sé reiðubúin að beita sér fyrir því, að þarna verði komið á samstarfsnefnd svipaðri þeirri, sem brtt. gerir ráð fyrir, ef samkomulag verði um það við starfsmenn verksmiðjunnar.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri. Frá mínu sjónarmiði miðað við þessar tilvitnanir, sem ég hef hér fram fært, tel ég ekki ástæðu til að lögbinda slíka samstarfsnefnd við Áburðarverksmiðjuna, heldur sé eðlilegra, að þar verði farin frjáls samningaleið, ef starfsfólk verksmiðjunnar óskar.