22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég ætla ekkert sérstaklega að taka það fram, að ég mæli af einlægni. Það verður að ráðast, hvort hv. 4, landsk. þm. tekur það trúanlegt, að ég meini það, sem ég segi, eða ekki. En það er stundum sagt, að þegar menn taka það sérstaklega fram, að þeir tali af einlægni, þá sé það þeim mun vafasamara, að þeir geri það. En ég vil lýsa því yfir, að ég vil koma á atvinnulýðræði á Íslandi, og ég vil koma á samstarfsnefndum í fyrirtækjum, og ég þekki nokkuð til atvinnurekstrar og veit það, að það er ekki unnt að reka eigið fyrirtæki, nema það sé gott samband á milli yfirmannanna og starfsfólksins. Það þarf að vera. Ég var um nokkurra ára skeið í stjórn Áburðarverksmiðjunnar, og ég varð aldrei var við annað en það væri gott samband á milli yfirmannanna og starfsfólksins þar og samstarfið hafi gengið snurðulítið — mjög snurðulítið, og hygg ég, að það séu ýmsir fleiri til þess að bera vitni um það. Þess vegna er nú það, að það virðist ekki bera svo mikið á milli hv. þm. hvar í flokki, sem þeir eru, um það, að þeir vilja, að það verði komið á samstarfi milli starfsfólks og yfirmanna í fyrirtækjunum, svokölluðum samstarfsnefndum.

En ég vil lýsa því yfir, að ég vil heldur, að þessar samstarfsnefndir séu settar á með frjálsu samkomulagi vinnuveitandans og starfsfólksins en með því að lögfesta það. Ef það hefði komið yfirlýsing írá stjórn Áburðarverksmiðjunnar um, að hún væri mótfallin því að koma þessum samstarfsnefndum á, þá hefði ég viljað greiða atkv. með till. hv. 5. þm. Vesturl., því að þá var nauðsynlegt að lögfesta þetta ákvæði til þess að koma samstarfsnefndum á. Nú liggur hins vegar fyrir bréf frá stjórn Áburðarverksmiðjunnar, þar sem hún lýsir því yfir, að hún vilji beita sér fyrir því að koma slíkri samstarfsnefnd á, ef starfsfólkið óskar eftir því. Nú er enginn vafi á því, að starfsfólk Áburðarverksmiðjunnar mun óska eftir því, að slíkt samstarf komist á. Starfsfólk Áburðarverksmiðjunnar mun vilja það — alveg eins og starfsfólk Sementsverksmiðjunnar. Af því leiðir, að þessi samstarfsnefnd kemst á í Áburðarverksmiðjunni, þótt ekkert verði lögfest þar um. Og stundum tölum við um það, að það sé æskilegra að gera frjálst samkomulag en að lögfesta það að ástæðulausu.

Stundum hefur verið talað um það, að Alþ. grípi inn í, þar sem þetta á að vera alveg frjálst. Ég hygg nú, að þegar við athugum þetta, hvernig málin standa í sambandi við Áburðarverksmiðjuna og í ljósi þess, sem stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefur yfir lýst, þá teljist ekki þörf á því að samþykkja till. hv. 5. þm. Vesturl., eins og við annars hefðum gert, ef slík yfirlýsing lægi ekki fyrir, eins og raun ber vitni. Ég ætla ekki sérstaklega að fara að vitna í þá skýrslu, sem hér var lesið úr áðan, og til er orðin vegna þess, að sendinefnd fór frá Íslandi á fund í Ósló, en víst er um það, að í þessari sendinefnd voru fulltrúar ýmissa starfsstétta. Þar var t.d. flokksbróðir hv. 4. landsk. þm., og hann er þeirrar skoðunar, eins og fram kemur í skýrslunni, að það sé eðlilegra að hafa þetta frjálst en lögbundið. Og ef sá ágæti maður ætti nú sæti á Alþ., eins og hann stundum hefur átt, þegar hann hefur tekið hér varasæti, þá er ekkert vafamál, hvernig hans atkv. mundi falla. Ég bendi aðeins á þetta vegna hálfgerðra svigurmæla í garð eins flokks í þessu sambandi, þar sem mátti skilja það, að það væri önnur afstaða hjá þeim flokki til atvinnumála og atvinnulýðræðis en hjá sumum öðrum.

En ég vil benda hv. 4. landsk. þm. á það, að sjálfstæðismenn gera sér grein fyrir því, að það ber að stuðla að atvinnulýðræði og góðu samkomulagi á milli vinnuveitenda og launþega. Við skulum láta það liggja milli hluta, hvort slíkt er af góðmennsku eða af öðrum ástæðum, en ég held, að við getum verið sammála um, að allt annað er óskynsamlegt. Það er óskynsamlegt að hugsa sér það að reka fyrirtæki og hafa ekki gott samband við þá, sem vinna við það, og þess vegna er það, að ég vil stuðla að atvinnulýðræði. Ég vil koma á samstarfsnefndum í fyrirtækjunum. Ég vil gera það á frjálsum grundvelli, þar sem það er hægt, og hér býðst tækifærið til þess að efla atvinnulýðræðið á frjálsum grundvelli. Þess vegna er ég á móti því að lögfesta, þegar þannig stendur á. Um till. tveggja hv. framsóknarmanna um mengun hel ég lítið að segja. Það mun sennilega verða rætt um mengun frá Áburðarverksmiðjunni á morgun, en skyldu ekki allir hv. þm. vera á móti mengun. Kannske kæmi það fram aftur eins og stundum áður, að það eru sumir, sem telja sig sérstaklega til þess valda að vera málsvarar gegn mengun og halda því svo fram, að aðrir hv, þm. gætu alveg sætt sig við það, að loftið yrði mengað.