22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð um þetta mál, sem í mínum augum er ekki ýkja mikilsvert, að því er snertir þetta einstaka fyrirtæki, Áburðarverksmiðjuna. Ég skal játa, að mín afstaða markaðist mjög af þeirri skýrslu, sem ég las hér úr áðan, þar sem það kemur greinilega fram, að þeir fimm Íslendingar, sem fóru á ráðstefnu um þessi mál til Óslóar í fyrra, voru algerlega sammála um það, að eins og á stæði mundi vera heppilegra að fara sér hægt í þessum efnum., þ.e. í því að lögbjóða þessa hluti, en fara meira samkomulagsleiðina. Og það hefur einnig verið upplýst, að þarna voru fulltrúar bæði frá verkalýðssamtökunum og vinnuveitendum. Mér lízt svo á að ef þessi till. frá hv. 5. þm. Vesturl. verður samþ. hér á Alþ., sem ég tel nú enga hættu stafa af út af fyrir sig, þó að verði, þá sé Alþ. að marka stefnu í þessu máli og ætli sér að taka forustuna í því að koma á svona samstarfsnefndum og lögbjóða þær.

Mér þótti það dálítið einkennilegt, sem kom beinlínis fram hér hjá hv. 2. landsk. þm. áðan, sem er mjög gegn og glöggur maður, að verkalýðssamtökin í landinu hafi fram að þessu fylgt sömu stefnu og þessir fimmmenningar láta í ljósi — þeir, sem sóttu ráðstefnuna, en hins vegar var þessi hv. þm. að mæla fyrir því, að þessi till. yrði samþ., þ.e. að Alþ. tæki forustu um það að lögbjóða þessa hluti. Að hinu leytinu sýnist mér, að því er snertir þetta einstaka fyrirtæki, þá komi eitt í sama stað niður, þar sem yfirlýsing liggur fyrir frá stjórn verksmiðjunnar um, að hún vilji beita sér fyrir, að sett verði samstarfsnefnd. Þá þarf ekkert lögboð um það, ef á annað borð er óskað eftir því af hálfu starfsmanna í slíkri verksmiðju.

Þess vegna finnst mér algerlega þarflaust að vera að samþykkja þessa till. út af fyrir sig. Það, sem markaði mjög mína stefnu, var að binda mig við álit þessara manna, sem höfðu kynnt sér þetta sérstaklega, þ.e. að það mundi vera rétt að fara sér hægt í þessu efni og lögbjóða ekki — a.m.k. að sinni — þessa hluti, heldur að reyna þá leið, sem mér finnst eðlilegust, þ.e. að þreifa fyrir sér, hvort ekki komist frjálst samkomulag á. Ég álít, að það sé ekki rétt stefna, að Alþ. sé að skipta sér af öllum sköpuðum hlutum, nema nauðsyn beri til. Þetta er mín afstaða. Hins vegar er ég á því, að það sé mjög eðlilegt að hafa sem mest samráð við starfsfólk í fyrirtækjum, og ég álít, að það sé miklu betra að koma því á með frjálsu samkomulagi en með lögboði.