29.03.1971
Efri deild: 78. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

179. mál, Áburðarverksmiðja ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. til l. um Áburðarverksmiðju ríkisins var flutt í Nd. og samþ. þar ásamt tveimur brtt., sem fluttar voru við málið. Frv. þetta felur ekki annað í sér en það, að lög nr. 51 frá 1935 eru felld inn í lög nr. 69 frá 1969, samræmd þeim og gefin út að nýju. Þetta eru lög um Áburðarsölu ríkisins, sem Áburðarverksmiðju ríkisins var falið fyrir 6 eða 7 árum að sjá um rekstur á. Það þykir ekki ástæða til að vera með tvö ríkisfyrirtæki í lögum annars vegar Áburðarsölu ríkisins og svo hins vegar Áburðarverksmiðju ríkisins. Er ekki ástæða til annars en færa þetta saman í einn lagabálk.

En í hv. Nd. var flutt till. af tveimur hv. þm. á þskj. 504. Till. er svo hljóðandi: Þess skal jafnan gætt, að ekki stafi mengunarhætta af rekstri verksmiðjunnar. Þessi till. var samþ. — að ég held — með yfirgnæfandi meiri hluta og naumast hægt að fella hana, úr því að hún var fram komin. En það má segja, að hún hafi verið óþörf vegna þess, að fyrir lá yfirlýsing frá stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins um það að gera allt, sem í mannlegu valdi stendur til þess að útiloka mengunarhættu. Í öðru lagi var flutt brtt. á þskj. 321 af hv. 5. þm. Vesturl. Hún er um samstarfsnefndir og í henni felst að lögbjóða, að skipuð verði samstarfsnefnd verksmiðjunnar, sem fulltrúar frá stjórn verksmiðjunnar og starfsliði eigi sæti í. Þessi till. var samþ., enda þótt ég teldi hana óþarfa, eftir að lesin hafði verið upp yfirlýsing frá stjórn Áburðarverksmiðjunnar um það, að hún vildi beita sér fyrir því að koma á slíkri samstarfsnefnd með frjálsu samkomulagi. Báðar þessar till. stefna að því einu, sem hefði verið gert, hvort sem var, og tel ég ekki neina ástæðu til þess, að þessu ákvæði verði nokkuð breytt hér í þessari hv. d. En ekki tel ég heldur ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, þar sem ekki felst annað í þessari breytingu en ég áður hef lýst. Ég tel, herra forseti, rétt, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.