22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sá háttur hefur verið hafður á afgreiðslu þessa frv., að tveir þm. úr allshn. hvorrar þd. ásamt skrifstofustjóra Alþ. hafa athugað frv. og þær umsóknir, sem því fylgdu, og síðan þær umsóknir um ríkisborgararétt, er n. bárust síðar. N. voru sammála um að taka inn í 1. gr. frv. 32 nýjar umsóknir, en þegar frv. var lagt fram, þá voru það samkvæmt 1. gr. tíu menn, sem lagt var til, að fengju ríkisborgararétt. Reglurnar, sem settar eru, eru þær sömu og hafa verið í gildi frá 18. maí 1955, og samkvæmt þessu leggur n. til, að 42 aðilar fái ríkisborgararétt — þeir 10, sem voru taldir upprunalega í frv., og 32, sem síðar hafa bætzt við. Enginn þessara umsækjenda, sem n. leggur til, að öðlist íslenzkan ríkisborgararétt, hefur, að því er bezt verður vitað, sætt þeim viðurlögum hér á landi, sem hindri, að honum verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Samkvæmt þessu verður hér um 42 nýja ríkisborgara að ræða, en þeir eru fæddir í þessum löndum: tíu í Færeyjum, tíu í Þýzkalandi, sex í Danmörku, fjórir á Íslandi, en hafa misst ríkisborgararétt sinn, tveir í Noregi, tveir í Bandaríkjunum og auk þess einn í hverju eftirtalinna landa: Austurríki, Júgóslavíu, Finnlandi, Bretlandi, Tékkóslóvakíu, Sovétríkjunum, Jórdaníu og Alsír. N. var sammála um að mæla með þessari till.

Hins vegar var rætt í n. um 2. gr. frv. um veitingu ríkisborgararéttar, og þar var ákveðið, að n. legði ekki sjálf til, að flutt yrði till. um að breyta 2. gr., en hins vegar hefur það á undanförnum árum nokkuð komið til umr. í allshn. að breyta 2. gr. frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, en beðið hefur verið eftir því, að n., sem hefur verið að endurskoða íslenzk mannanöfn, lyki störfum. Sú n. hefur nú nýlega lokið sínum störfum, og það mun vera í prentun frv., sem mannanafnanefnd hefur samið, en í þessari nefnd áttu sæti: Klemenz Tryggvason hagstofustjóri, sem var formaður nefndarinnar, Halldór Halldórsson prófessor, Matthías Johannessen ritstjóri, Ármann Snævarr prófessor og Einar Bjarnason prófessor, og í væntanlegu frv., sem hér mun koma fram á Alþ. næstu daga, segir í 17. gr.:

„Nú fær maður, er heitir erlendu nafni, íslenzkt ríkisfang með lögum, og skulu þá börn hans, 17 ára og yngri (sbr. 3. málsgr. 6. gr. laga nr. 100/1952), taka upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn, sem samþykkt er af dómsmrn. slík nafnbreyting skal ákveðin samtímis því, að rn. gefur út bréf um, að hlutaðeigendur öðlist íslenzkt ríkisfang. Barni, sem fæðist, eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og það skal fá íslenzkt kenninafn.“

Með lögum nr. 25 frá 1952 var sá háttur upp tekinn, að þeir, sem hétu erlendum nöfnum, skuli ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkvæmt lögum nr. 54 frá 27. júní 1925 um mannanöfn. En fram til 1952 hafði öðlun íslenzks ríkisfangs með lögum engin áhrif á kenninafn hins nýja borgara. Þegar þessi breyting var gerð 1952, urðu um hana mjög harðar umr. hér á hv. Alþ., og það var mikil andstaða gegn þessari breytingu. Ég held, að það sé ekkert áhorfsmál, að það, sem hefur komið í ljós, er það, að umsækjendur um ríkisborgararétt — sumir hverjir — hafa ekki viljað skipta um nöfn, heldur hafa viljað halda sínu gamla nafni, og þó eru þeir miklu fleiri, sem ekki hafa sótt um ríkisborgararéttinn vegna þessa stranga — og ég vil segja ósanngjarna — ákvæðis. Mér finnst, að með þeirri breytingu, sem n. leggur til, sem samið befur frv. um mannanöfn, sé verið að fara bil beggja, þannig að það er tekið tillit til skoðana beggja þessara hópa, sem ræddu þessi mál mjög ítarlega hér á Alþ. 1952 og niðurstaðan varð á þann veg, að þeim, sem fá ríkisborgararétt, sé ekki gert að skyldu að skipta um nafn, en hins vegar aftur tekið upp það ákvæði, að börn þeirra fái ekki ríkisborgararétt samkvæmt ákvæðum laganna frá 1952, nema þau taki upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn samkvæmt lögum um mannanöfn. Barni, sem fæðist, eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og það skal fá íslenzkt kenninafn.

Eins og ég sagði áðan, þá flytur allshn. sem slík ekki brtt. við 2. gr. laganna, og það kom fram í n., að hún var heldur ekki á einu máli um það, en hins vegar, eins og segir í nál. með þessu frv., áskilja einstakir nm. sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. við 2. gr. frv. um veitingu ríkisborgararéttar. Við höfum því leyft okkur að flytja svo hljóðandi skriflega brtt. við frv. um veitingu ríkisborgararéttar: „2. gr. orðist þannig:

Börn þeirra, sem veittur er ríkisborgararéttur með Íögum þessum, fá ekki ríkisborgararétt samkvæmt ákvæðum 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 100/1952, nema þau taki upp íslenzkt eiginnafn og kenninafn, samkvæmt lögum um mannanöfn. Barni, sem fæðist, eftir að foreldri þess hefur fengið íslenzkt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenzkt eiginnafn, og jafnframt skal það fá íslenzkt kenninafn.“ Þessi brtt. við frv. er flutt af mér, Braga Sigurjónssyni, Halldóri E. Sigurðssyni og Steingrími Pálssyni.

Ég vil leggja á það mikla áherzlu, að ég álít það mjög mikilvægt, að jafnágætir menn og þeir, sem hafa verið að endurskoða lögin um mannanöfn, hafa náð algeru samkomulagi í þessum efnum. Ég nefndi áðan, hvaða menn það eru, sem hafa verið að endurskoða þessi lög, og þetta frv. er nú að koma hér fram, eins og ég sagði hér áðan, næstu daga. Ég tel, að þau ákvæði, sem hafa verið í gildi í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar, hvað þetta snertir, séu ósanngjörn og það sé eðlilegt, að þeim verði breytt, og ég tel, að n., sem endurskoðað hefur lögin um íslenzk mannanöfn, hafi farið þar mjög hóflega í sakirnar og með till. hennar sé verið að taka nokkurt tillit til sjónarmiða beggja aðila, sem hér deildu fyrir tæplega 20 árum um þetta efni.