22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Eins og glöggt kom fram hjá hv. frsm. allshn., hefur það verið mikið deilumál í tvo áratugi hér á Alþ. og annars staðar á opinberum vettvangi, hvaða reglur skyldu gilda um nöfn þeirra erlendra manna, sem Alþ. veitti ríkisborgararétt, og hefur þar sitt sýnzt hverjum. Ég hef frá upphafi persónulega verið þeirrar skoðunar, að þau ákvæði, sem verið hafa í gildi síðan 1952, væru mjög ósanngjörn og óskynsamleg og sá háttur, sem eðlilegast væri að hafa á í þessum efnum, væri sá, að erlendir aðilar, sem fengju íslenzkan ríkisborgararétt héldu sínu nafni, meðan þeir væru á lífi, en börn þeirra og næstu kynslóðir tækju síðan íslenzkt nafn. Ég flutti um þetta till. hér á hinu háa Alþ. á sínum tíma og oftar en einu sinni, en meiri hl. Alþ. reyndist þá á öðru máli. En ekki aðeins þetta atriði hefur verið umdeilt í gildandi reglum um mannanöfn. Ákvæði gildandi laga um ættarnöfn t.d. hafa verið mjög umdeild og raunar með þeim hætti, að þeim hefur engan veginn verið framfylgt.

Það hefur því í raun og veru lengi verið tímabært að endurskoða mannanafnalögin. Fyrir allmörgum árum var efnt til slíkrar endurskoðunar, en frv. þeirrar n. náði aldrei samþykki Alþ. Þess vegna þótti það tímabært fyrir einum 2–3 árum að efna til nýrrar allsherjarendurskoðunar á mannanafnalögunum, og voru til þeirrar endurskoðunar valdir hinir færustu menn, eins og fram kom í framsöguræðu hv. frsm. allshn. Nefndarstörfin hafa reynzt mun viðameiri og viðfangsefnið mun stærra en flesta mun í upphafi hafa órað fyrir og þess vegna hefur það tekið n. nokkur ár — 2–3 ár — að vinna verk sitt. En ég hafði á s.l. sumri ástæðu til þess að ætla af frásögnum formanns n., að frv. n. mundi verða svo snemma tilbúið, að hægt væri í síðasta lagi að leggja það fyrir Alþ., er það kemur hér saman eftir jólaleyfi. Því miður reyndist þetta ekki kleift m.a. vegna utanlandsdvalar eins nm., sem sérfróður er á sviði viss efnis, sem þarna er um fjallað, Ármanns Snævars prófessors, svo að niðurstaðan varð sú, að n. lauk ekki störfum fyrr en nú fyrir u.þ.b. 10 dögum, en hún hefur skilað frá sér mjög veigamiklu og að mínu viti mjög merkilegu nál. Ég vona, að hægt verði að útbýta frv. með þeim fskj., sem n. hefur samið og byggt er á mjög ítarlegum rannsóknum, alveg næstu daga hér á hinu háa Alþ.

Mér dettur auðvitað ekki í hug, að Alþ. geti tekið afstöðu til jafnveigamikils máls og hér er um að ræða á þeim stutta tíma, sem eftir er af starfstíma þingsins, en ég er þeirrar skoðunar, að málið allt sé þess eðlis, að það sé rétt að kynna það nú þegar alþm. og þjóðinni allri, þannig að hægt verði að athuga það og ræða í góðu tómi til næsta þings, og tel þá sjálfsagt, að þeir, sem þá bera ábyrgð á þessum málum, leggi málið fyrir í upphafi þess þings, þannig að næsta þing geti tekið endanlega afstöðu til málsins. En ég skal enga dul draga á það, að mér var það mikið fagnaðarefni — það var mér mikið ánægjuefni, að svo fór, að allir þeir mætu menn, sem í n. áttu sæti, reyndust sammála um það, að rétt væri að breyta gildandi lagaákvæðum um nafnbreytingarskyldu þeirra erlendu manna, sem Alþ. veitir ríkisborgararétt. Og þess vegna þykir mér vænt um, að fram hefur komið till. frá nokkrum hv. þm. um það að taka óbreytt það ákvæði þessa mannanafnafrv. inn í þetta frv. um veitingu ríkisborgararéttar, og vil ég að endingu aðeins láta þess getið, að ég styð þessa brtt. mjög eindregið og mun greiða atkv. með henni.