26.03.1971
Neðri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það vildi svo til fyrir allmörgum árum, að ég kom hér inn á Alþ. sem varamaður Jóns á Reynistað. Þá daga, sem ég sat á þingi þá, var veiting ríkisborgararéttar hér til meðferðar í þinginu. Ég sagði nokkur orð um málið þá, og þá var einmitt mikið talað um 2. gr. frv., og ég lýsti þá stuðningi mínum við þá gr. Ég er sama sinnis enn og ég var þá, að ég tel, að við eigum ekki að sinni a.m.k. að breyta þessari gr. Og ég vil mjög svo taka undir það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér rétt áðan, að mér sýnast þeir vankantar vera á brtt. — hann lýsti henni rækilega — að ég tel ekki heppilegt, að við förum að samþykkja hana, enda er mér tjáð, að nafnalögin séu í endurskoðun og þess sé að vænta, að frv. komi fram um það mál annaðhvort á þessu þingi eða þinginu í haust, og ég tel því rétt alveg eins og hv. 1. þm. Austf., að þessi mál verði þá skoðuð öll í heild.

Ég skal vera mjög stuttorður, herra forseti, en ég viðurkenni það, að það getur verið mjög viðkvæmt mál fyrir fólk að leggja niður nafn sitt, en ég bendi þá á það, að með því að veita þessu fólki íslenzkan ríkisborgararétt erum við að veita þessu fólki að mínum dómi mikinn rétt, og mér finnst það ekki vera svo mjög útlátasamt fyrir þetta fólk að leggja fram þá fórn að breyta nafni sínu til samræmis við íslenzkt málfar fyrir það að fá þennan mjög svo mikilsverða rétt. Nú er það í mörgum tilfellum svo, ef við lítum t.d. á brtt. hv. allshn. eða á frv. sjálft, að hér er í rauninni ekki um neina breytingu að ræða í sjálfu sér. Það er t.d. hér maður, sem heitir Alfred Theodor Christensen. Ég get ekki meint, að það geti verið nein útlát fyrir þennan mann að heita Alfreð Kristjánsson. Ég skil ekki, að það þyrfti neitt að særa hann, þótt hann héti Theódór Kristjánsson, sem mér þykir þó fremur leiðinlegt nafn í íslenzku. Alfreð er, held ég, þó norrænt nafn. Og svona er um fleiri. Johannessen, Carl Martin, gæti heitið Karl Jóhannesson eða Marteinn Jóhannesson. Þetta breytir sem sé að mínum dómi engu fyrir þetta fólk.

En svo eru líka hér önnur nöfn, sem ég á erfiðara með að þýða á íslenzka tungu, en það eru líka nöfn, sem ég kann alls ekki að bera fram, og það mundi taka þó nokkurn tíma að muna það, hvernig ætti að skrifa þau. Gæti það ekki valdið sárindum fyrir þetta fólk, þegar við væntanlegir samlandar þess förum að bögglast á nöfnum þess, kunnum ekki að bera þau fram og kunnum ekki að skrifa þau. Ég held, að það gæti líka valdið sársauka. Ég veit t.d. ekkert, hvernig ég á að bera fram, svo að rétt sé, nafn nr. 40, Vasulka, Bohuslav. Ég veit ekki, hvar ég á að setja áherzlur. Ég kann ekki þetta mál og veit ekki, hvar ég á að að hafa áherzlur á þessum orðum, þannig að þessum manni sárnaði ekki við mig, þegar ég væri að tönnlast á nafni hans. Ég ætla ekki að segja fleira um þetta. Ég er á móti brtt. og legg eindregið til, að hún sé felld og við höldum okkur við það, sem við höfum haft á undanförnum árum í þessum efnum.