02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, sagði hér nokkur orð til þess að mæla á ný fyrir brtt. á þskj. 628. Ég fór fram á það við 2. umr. málsins, að flm. tækju þessa till. til baka eða a.m.k. semdu hana um á ný, þannig að hún gæti samræmzt íslenzkum nafnalögum og íslenzkri nafnvenju. En það getur þessi brtt. alls ekki, eins og ég sýndi greinilega fram á í minni ræðu um daginn, og hv. þm. kom ekkert inn á það í því máli, sem hann flutti hér áðan. Ég gat einnig um, að það gerði mig tortryggnari í þessu máli og ákveðnari í því að mæla með því, að þessi till. yrði ekki samþ., að fréttir hefðu borizt um, að búið væri að semja á vegum sérstakrar mþn. frv. um ný nafnalög, þar sem gert væri ráð fyrir því, að menn tækju upp ættarnöfn. Ég gat ekki betur séð og get ekki betur séð enn — og ég bið hv. þm. að mótmæla því, ef það er rangt — að þessi brtt. sé tekin upp úr þessu frv., þó að ég hafi ekki séð það. Þessi brtt. er miðuð við, að það viðgangist á Íslandi eiginnöfn og kenninöfn, en eftir gildandi nafnalöggjöf er því ekki þannig varið, heldur kenna menn sig við föður sinn eða móður. En það er ekki gert ráð fyrir því í þessari till., að sá háttur verði hafður á. Ég sé því ekki betur en þetta hljóti að vera tekið úr þessu frv., og ég bið þá hv. þm. að mótmæla því, ef það er ekki rétt.

Ég undrast, að hv. þm., sem hafa áhuga á því að breyta til um nafnvenju þeirra, sem fá ríkisborgararétt með Íögum, skuli semja brtt. á þessa lund, en ekki brtt., sem alveg tvímælalaust er miðuð við íslenzka nafnalöggjöf. Það gætu þeir gert með því að nota svipað orðalag eða sama orðalag og er í okkar nafnalöggjöf og er í síðustu gildandi l. um ríkisborgararétt. En það gera þeir ekki, heldur er þessi nýi háttur upp tekinn, og ég sé ekki betur, eins og ég tók þá til orða, en ekki yrði aðeins horfið frá því að gera erlendum mönnum, sem fá ríkisborgararétt með lögum, skylt að taka upp íslenzk nöfn, heldur væri breytt raunverulega íslenzkri nafnavenju, ef brtt. yrði samþykkt. Það væri með því borað gat á íslenzka nafnalöggjöf. Ég sé ekki betur en svo yrði gert með þessu, og í því sambandi benti ég á þetta og spurði um það, og því hefur hv. þm. ekki svarað, hvernig ætti að framkvæma þessa till., sem hér liggur fyrir, ef hún yrði gerð að lagaákvæði. Hvernig ætti t.d. að kenna son eða dóttur við nöfn þeirra sumra, sem hér eiga hlut að máli, svo að vel færi eftir íslenzkri nafnvenju? Það er ekki hugsanlegt. Og þá spurði ég: Ef þetta er viðurkennt, sem hlýtur að verða, ef menn íhuga þetta, hvenær eiga þessir menn, sem hér eiga hlut að máli, að fá íslenzkt nafn, sem hægt er að kenna sig við eftir íslenzkri nafnvenju? Hvenær eiga þeir að fá það nafn? Ef gera á þessa breytingu, sem hv. þm. og aðrir eru að tala um, þá þyrfti að setja í l. ákvæði um, að menn fengju sér íslenzkt nafn til viðbótar sínu gamla nafni, um leið og þeir fengju ríkisborgararétt t.d. til þess, að afkomendurnir gætu kennt sig við það eftir íslenzkri nafnvenju, orðið t.d. Sigurðsson eða Sigurðardóttir o.s.frv. Annaðhvort verður að gera þetta eða setja verður það í lög, að skíra skuli feðurna nýju nafni, um leið og þeir koma með barnið til skírnar, sem hægt er þá að kenna barnið við.

Það er óhugsandi að samþykkja þessa till., eins og hún liggur fyrir, og ég er alveg hissa á því, að hv. þm., góðir og gegnir menn, skuli ekki hafa notfært sér þessar ábendingar, sem ég gaf við umr. um daginn til þess að umsemja till., þannig að hún fjalli þá aðeins um það, sem þeir hafa áhuga á, sem sé að leysa útlendingana frá því að breyta um nafn, um leið og þeir fá ríkisborgararéttinn. En kannske er þetta vegna þess, að hv. þm. finna, að það er mjög erfitt að samrýma slíka framkvæmd íslenzkri nafnvenju. Nú vil ég ekkert fullyrða um, nema hægt væri, ef vel væri gengið frá lagaákvæðinu, að finna slíka leið. En þessi brtt. fær ekki staðizt, og þess vegna mælti ég gegn því, að hún yrði lögfest.

Ég ætla ekki að fara að kappræða hér um það, hvort það geti komið til greina að breyta þessari venju varðandi nafnskipti útlendinga. Það er mál út af fyrir sig. Ég vil hins vegar alls ekki ljá máls á því að breyta einu né neinu í nafnalögunum nú í skyndi, sízt þegar það liggur fyrir, að búið er að endurskoða þau í heild, og við eigum von á slíku frv., að mér skilst, í haust. Ég vil því alls ekki vera með í að breyta neinu núna. Ég vil, að þetta sé skoðað í heild. Og allra sízt finnst mér ástæða til þess að samþykkja brtt., sem ekki getur samrýmzt gildandi nafnalöggjöf. En þó að hv. þm. og aðrir legðu nú vinnu í það að umsemja þessa brtt. og gera hana þannig t.d., að mönnum verði skylt að fá sér viðbótarnafn strax, sem hægt væri að kenna afkomendurna við eða settu t.d. ákvæði um það, að feðurnir yrðu skírðir íslenzku nafni, sem hægt væri að kenna sig við, um leið og þeir færu með börn sín til kirkju, þá mundi ég samt ekki greiða henni atkv. m.a. vegna þess, að ég vil ekki breyta neinu núna. Ég vil sjá, hvað til stendur í sambandi við nafnalöggjöfina, áður en ég tek nokkurn þátt í því að endurskoða nafnvenjuna, sem hefur átt sér stað í sambandi við ríkisborgararéttinn.