02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði raunar ekki ætlað mér að tala meira um þetta mál en ég gerði við 2. umr. þess. Ég mælti þá nokkur orð til þess að mæla gegn brtt., sem hv. 2. þm. Vestf. flutti, og ég verð enn að taka undir það, sem hv. 1. þm. Austf. segir hér, að mér sýnist till., eins og hún er, gersamlega óframkvæmanleg, því að eigi að gefa barni íslenzkt nafn — það þarf nú ekki raunar að skíra það, því að skírn og nafngift er sitt hvað — þá verður um leið að breyta nafni föðurins, sem honum er sjálfsagt kært, ef taka á mark á því, sem hv. þm. heldur fram og breyta því í íslenzkt nafn. Ég hefði því talið rétt og raunar óskað eftir því, að hv. þm. og þeir aðrir, sem flytja með honum þessa brtt., taki hana aftur og bíði þess, að endurskoðun nafnalaganna fari fram. Það veldur mér engum sárindum, þó að hv. þm. kenni mig við íhald. Ég hef aldrei skammazt mín fyrir það að vera nefndur íhaldsmaður, fremur talið mér það til lofs en lasts. Og ég segi það, að það veitir ekkert af því, að það séu íhaldsmenn bæði hér á hinu háa Alþ. og meðal þjóðarinnar, þegar slíkir frjálslyndismenn eins og þessi hv. þm. bera fram jafnvitlausar till. og hann hefur gert í þessu máli — till., sem er ómögulegt að framkvæma og enginn botnar í.

Hann beindi til mín spurningu sem prests og spurði mig að því, hvort prestar hefðu aldrei skírt nöfnum, sem væru jafnvel ónefni. Jú, því miður. Prestar hafa gert þetta. Og brotið með því lög. Ég geri nú ekki mikið af því að skíra, því að ég er prestur í fámennu prestakalli, en það hefur, held ég, tvisvar komið fyrir, að ég hef neitað að skíra barn nafni, sem beðið var um. Ég gat komizt að samkomulagi við foreldrana um þetta, eftir að við höfðum talað saman, og það olli engum sárindum, og það hygg ég, að prestar gætu yfirleitt, ef þeir reyndu það. En ég held, að það hafi verið tekið fram, þegar nafnalögin voru sett — ég man ekki, hvaða ár það var, það mun hafa verið á áratugnum á milli 1920 og 1930 – að heimspekideild háskólans gæfi út nafnaskrá, þar sem þau nöfn voru tiltekin, sem talin eru góð og gild íslenzk nöfn. Ég hef aldrei séð þetta verk heimspekideildar, og ég efast um, að það sé til enn.

En hvað því viðvíkur, að það valdi fólki miklum sárindum að breyta um nafn, eins og verið er að tala um. Þegar við lítum á þetta frv. og þær brtt., sem því fylgja, sjáum við, að hér eru þó nokkuð margar húsmæður. Ég tel víst, að þessar konur séu giftar konur og yfirleitt giftar íslenzkum mönnum. Ætli það sé ekki svo í flestum tilfellum, að þessar konur séu nú þegar búnar að kasta kenninafni sínu og kenni sig við föðurnafn manns síns. Ég hygg svo vera. Ég kom á framfæri umsókn um ríkisborgararétt fyrir eina konu norður í Skagafirði, sem kennir sig við tengdaföður sinn. Við skulum líta á brtt. á þskj. 576 — á 25. liðinn. Þar stendur: Mortensen, Justa Alexandra Johanna Petrina. Það er nú eitt út af fyrir sig, að það fer algerlega í bága við íslenzk lög, að fólk heiti 4–5 nöfnum. Nú veit ég ekki, hver maður þessarar konu er. Hún er talin húsmóðir, og ég reikna með því, að hún sé gift. Það má vel vera, að hún kalli sig Justu Jónsson. Ég nefni það sem dæmi. Ég get ekki skilið, að það geti valdið þessari konu nokkrum sárindum að kalla sig Jóhönnu Marteinsdóttur, sem sé að kenna sig við föður sinn Martein og vera dóttir hans í stað þess að vera sonur tengdaföður síns.

Nei, ég fellst sem sé ekki á þessa brtt. Það getur valdið í einstaka tilfellum miklum sárindum fyrir fólk að hafna nafni sínu, en ég held, eins og ég sagði hér um daginn við 2. umr. málsins, að það sé svo mikils virði fyrir þetta fólk að fá þennan rétt, að það sé í raun og veru ekki of gott til þess að færa nöfn sín til íslenzks málfars.