03.02.1971
Neðri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mjög mikilvæg frv. um kennslumál eru nú lögð fram í þessari hv. þd. dag eftir dag, og um þau öll á ein n. að fjalla, menntmn. þessarar hv. d., þannig að hún mun fá ærin verkefni á næstunni. Hæstv. ráðh. fór fram á það, að n. reyndi að afgreiða þetta frv. það fljótt frá sér, að hægt væri að samþykkja það á þessu þingi. Ég skil mjög vel þá ósk hæstv. ráðh. en óneitanlega hefði það verið þægilegra fyrir okkur þm., ef þetta frv. hefði verið lagt fram fyrr á þessu þingi. Ég sé í grg. frv., að sú n., sem hefur samið það, hefur fjallað um það endanlega dagana 24.–29. ágúst og þá hafa drögin verið endursamin og afgreidd ágreiningslaust af n., þannig að mér sýnist, að af hálfu n. hefði verið hægt að leggja þetta mál fyrir þegar í haust. En engu að síður finnst mér það sjálfsagt, að þm. reyni að afgreiða þetta mál frá sér á þessu þingi.

Engu að síður eru það ýmsar spurningar, sem vakna, þegar þetta frv. er lagt fyrir, og einkanlega hefði ég hug á því að fá frekari vitneskju frá hæstv. ráðh. um nokkur atriði. Ég hef lesið þetta frv. og mér var kunnugt um elni þess áður, og ég get lýst því yfir, að ég er sammála frv. í öllum meginatriðum. Ég tel, að fyrir þeirri stefnu, sem tekin er upp með því að gera kennaranám að háskólanámi, séu full rök og hún sé raunsæ og raunar óhjákvæmileg. En við skulum minnast þess, að þegar við tökum ákvörðun um Kennaraháskóla Íslands, þá erum við einnig að taka ákvörðun um að stofna nýjan háskóla á Íslandi til viðbótar við þann, sem fyrir er.

Sú spurning hlýtur að vakna, hvort ekki hefði verið eðlilegt, að kennaranámið hefði orðið sérstök deild í Háskóla Íslands. Þetta er auðvitað rökrétt spurning, um leið og kennaranám er orðið að háskólanámi, hvort það sé ekki bæði af hagkvæmnisástæðum og til þess að nýta starfskrafta betur skynsamlegt, að háskólinn taki þetta verkelni að sér. Mér finnst óhjákvæmilegt, að Alþ. fái fullkomna grg. um þetta atriði — rök með og móti. Ég er ekki að halda fram neinni ákveðinni stefnu í þessu, en þetta verðum við að vita. Það er ekki nokkur vafi á því, að það er mikil nauðsyn fyrir okkur Íslendinga — svona fámenna þjóð — að nýta sem bezt þær stofnanir, sem við höfum, og ef hægt væri að nýta aðstöðu háskólans í þessu sambandi, þá væri sjálfsagt að gera það. Það er auðvelt að færa þau rök gegn þessu, að aðstaða háskólans sé slík nú, að hann geti engin ný verkefni tekið að sér. Húsnæðismál hans eru með slíkum endemum, að á sumum sviðum getur háskólinn alls ekki rækt þau skylduverk, sem hann á að rækja. En þetta eru auðvitað ekki rök, vegna þess að hér erum við að leggja á ráðin um skipan, sem á að,standa um langan aldur, og ef það væri talið rétt, að kennaraháskólinn yrði hluti af Háskóla Íslands, þá yrði að taka um það ákvörðun núna. En jafnvel þó að sú leið yrði ekki farin, heldur yrði hafður sérstakur háskóli til þess að búa menn undir kennarastörf, þá held ég, að það sé algerlega óhjákvæmilegt að hafa þar verkaskiptingu. Um það atriði er ekkert að finna í frv. nema almenna setningu í 1. gr.:

„Heimilt er Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands að skipta með sér verkefnum og viðurkenna sambærilegar námseiningar eða námsþætti hvors annars til þess að forðast tvíverknað.“

Þarna er sem sé einvörðungu um að ræða heimildarákvæði, en enga áætlun. Samt fæ ég ekki betur séð en þegar við ætlum að taka ákvarðanir um það, hversu margir prófessorar, dósentar og lektorar eigi að vera í kennaraháskólanum, þá verðum við að vita það — við verðum að hafa áætlun um það, að hve miklu leyti þetta nám kann að fara fram í Háskóla Íslands. Og ég held, að þetta hljóti að hafa verið kannað í sambandi við þetta frv., og því væri mér þökk á því, ef hæstv. ráðh. gerði frekari grein fyrir þessu atriði.

Þessi umskipti á skipan kennaraskólans eru ákaflega stórfelld, og þau hljóta að verða býsna viðkvæmt mál fyrir þá, sem lokið hafa kennaranámi á undanförnum árum. Og í því sambandi er sérstaklega eitt atriði, sem ég tel, að þm. verði að aðgæta gaumgæfilega. Í 4. gr. frv. er sagt, að inntökuskilyrði í Kennaraháskóla Íslands eigi að vera stúdentspróf, og svo eru í þremur liðum almenn loðin ákvæði um það, að hægt sé að veita mönnum aðgang að skólanum, án þess að þeir hafi stúdentspróf, en þau eru sem sé almenn og loðin og ekkert á þeim að byggja. Almenna reglan er stúdentspróf. M.ö.o.: Ef þetta verður samþ. í þessu formi, þá fá þeir menn, sem nú útskrifast úr Kennaraskóla Íslands, ekki inngöngurétt í kennaraháskólann. Ég held, að þetta sé býsna annarlegt, og ég tel eðlilegt, að menntmn. og Alþ. íhugi það gaumgæfilega, hvort ekki væri rétt, að þarna yrðu þau ákvæði, að kennarapróf veitti inngöngu í kennaraháskólann eftir einhverjum tilteknum reglum. Ég heyri það, að undir þetta er tekið rösklega af kennaraskólanemum, og ég tel, að við eigum, þegar við vinnum að þessu frv., að hafa fullt samráð einmitt við nemendur skólans og við kennarana til þess að kynnast þeirra áliti á þessu frv. og ýmsum vandamálum í sambandi við það.

Í gær ræddum við hér á þingi æðimikið um húsnæðismál kennaraskólans, og ég gagnrýndi þá hæstv. ráðh. fyrir framtaksleysi á því sviði, en eins og kunnugt er, hafa húsnæðismálin verið með algerum endemum nú í næstum því hellan áratug. Ég tel ástæðu til þess að minnast á þetta atriði einnig í sambandi við þetta frv., því að það gefur auga leið, að það verður ekki hægt að taka upp þessa nýju skipan af neinum myndarskap, ef húsnæðismálin verða eins og þau eru nú. Það er að vísu talað um það, að nemendum muni fækka mjög í kennaraháskólanum, þegar þessi nýja skipan er tekin upp. En engu að síður er gert ráð fyrir því, að þarna verði 21 bekkjardeild, en eins og nú er ástatt í skólanum, eru kennslustofurnar aðeins 9. Fyrstu árin verður áfram mikill fjöldi í þessum skóla, því að þeir stóru árgangar, sem nú eru í skólanum, munu halda námi sínu áfram, og ég hygg, að það muni reynast ákaflega erfitt að hefja þessa nýju skipan við þau skilyrði, sem nú eru í skólanum, og því vil ég aftur leggja á það mjög þunga áherzlu, að hæstv. menntmrh. og ríkisstj. leggi á það fullt kapp, að byggingarframkvæmdum verði hraðað eins og kostur er.

Mig langaði að lokum að víkja að enn einu atriði í sambandi við þetta frv. Í 4. tölul. 2. gr. er svo fyrir mælt, að rektor skuli kjörinn af skólastjórn úr hópi fastra kennara til fjögurra ára í senn og síðan megi endurkjósa hann einu sinni án lotuskila. Í aths. við frv. er gefin þessi skýring á þessu ákvæði:

„Með hliðsjón af hinni öru framvindu í uppeldis- og kennslufræðum verður að telja æskilegt að skipta um forstöðumann skólans eigi sjaldnar en á fjögurra til átta ára fresti, ef forða á stofnuninni frá stöðnun og forstöðumanni hennar frá ofþjökun.“

Þetta finnst mér vera býsna athyglisverð kenning, og mér virðist, að þetta eigi ekki aðeins við um stofnun eins og kennaraháskóla. Ég held, að þetta séu almenn sannindi, sem eiga við um ýmsa fleiri þætti í okkar þjóðlífi — um fleiri skóla og ýmsar fleiri stofnanir. Ég vildi því beina til hæstv. ráðh. þeirri fsp., hvort þetta megi e.t.v. skilja svo, að þarna sé verið að taka upp reglu, sem eigi að verða almenn í sambandi við skólana, þ.e. að menn séu ekki eilífir augnakarlar í störfum, sem þeir hafa verið ráðnir til, heldur verði skipt um á nokkurra ára fresti, og kannske mætti þetta einnig eiga við um æðsta mann kennslumála á Íslandi. Það getur vel skeð, að hann geti ofþjakazt. En að öðru leyti ætlaði ég ekki að ræða einstök atriði í þessu frv. frekar. Ég á sæti í þeirri n., sem fær það til meðferðar, og mun fjalla um það þar.