03.02.1971
Neðri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru miklir bálkar, sem fram eru lagðir um kennslumál um þessar mundir, og mikið verk að kynna sér öll þessi efni. Og þó að ég hafi haft þetta frv. undir höndum nokkuð lengur en ýmsir aðrir, vegna þess að ég fékk eintak af því ásamt hinum frv. í jólaleyfinu, þá mun það vera svo um flesta hv. alþm., að þeir hafa ekki séð þessi frv. fyrr en nú þessa dagana, svo að segja um leið og þau eru tekin til umr. Enn fremur þýðir þetta, að í þeim flokkum, sem ekki styðja hæstv. ríkisstj. og hafa því ekki fylgzt með undirbúningi þessara mála á fyrri stigum, hafa þessi frv. ekki verið skoðuð eða rædd. Þess vegna er ákaflega erfitt um vik að gefa sterkar yfirlýsingar um afstöðu til einstakra stórmæla, sem í þessum frv. kunna að felast, og þar undir kemur sú stökkbreyting, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. á kennaranáminu, því að það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði í gær í öðru sambandi og vék raunar að núna, að hér er um algera stökkbreytingu að ræða í þessu námi.

Ég mun því í þeim fáu orðum, sem ég segi um þetta mál, ræða nokkuð almennt um kennaranámið, ef svo mætti segja, í stað þess að ræða einstök atriði frv. En ég vil fyrst, áður en ég kem að því, taka undir það, sem hv. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, sagði, að það er mikið tjón, að þetta mál skyldi ekki vera lagt fyrir í haust, fyrst ætlunin var að reyna að fá það afgreitt á þessu þingi. Við erum mjög aðkrepptir orðnir sannast að segja með tíma. Ef meiningin er til að mynda, eins og heyrzt hefur fleygt, að ljúka þinginu um páska, þá eru þetta ekki orðnar margar vinnuvikur, sem eftir eru, með því hléi, sem verður í sambandi við Norðurlandaráð. Þess vegna er það mjög illa farið, að þetta mál skyldi ekki vera lagt fram í haust, þar sem þá hefði gefizt betri tími til þess að íhuga það. En í þessu eru óneitanlega æðimörg stórmæli, og ég vil segja, að þó að það hefði verið eftir að athuga einhver einstök atriði, þá hefði verið betra að leggja frv. fram með fyrirvara um einstök smærri atriði en að setja málið í þennan hnút, því að óneitanlega er það óskaplegur hnútur fyrir hv. alþm. að eiga að taka afstöðu í stórmáli eins og þessu innan um tugi annarra mála, sem þeir verða að taka afstöðu til á þessum stutta tíma, sem við eigum eftir. Og mér skilst, að við fáum heilt flóð af nýjum frv. - sum um hin mestu stórmæli, sem við ekki enn þá þekkjum efnið í. En ég lýsi því yfir, að það stendur ekki á mér að leggja vinnu í það að reyna að kryfja þetta mál til mergjar í þeirri n., sem ég á sæti í. Ég er ekki að segja þetta, af því að ég hafi hina minnstu tilhneigingu til þess að tefja fyrir málinu, síður en svo. En þetta eru athyglisverðar staðreyndir um vinnubrögð og um það, sem ætlazt er til af hv. þm. Og það er full ástæða til þess að ræða um þetta í góðu og í alvöru, og athyglisvert er, að hæstv. menntmrh. sagði hér í gær, að frv. um kennaramenntun í Noregi hefði verið þar til meðferðar í Stórþinginu í 2–3 ár, og kvað engan undrast, þó að það hefði tekið þann tíma. En hérna verða þetta rúmlega tveir mánuðir. Það er ekki nægilegt, þó að sérfræðingar hafi unnið að málunum meira og minna innilokaðir, hversu góðir sem þeir eru. Sú skylda hvílir á þm. að hafa hugmynd um, hvað þeir eru að gera.

Það dylst auðvitað engum, að það þarf að fara fram gagnger endurskoðun á kennaraskólanum, því að málin eru þar búin að vera í algeru öngþveiti um sinn. Það er náttúrlega vanvirða það ástand, sem þar hefur ríkt — sérstaklega í sambandi við húsnæðismálin, og þar hefur mönnum verið ætlað að vinna verk, m.a. skólastjóra og kennurum þess skóla, sem er gersamlega óvinnandi við þau skilyrði, sem þar hafa verið. Ég vil taka undir það, sem sagt hefur verið um þetta efni. En hvers vegna hefur straumurinn orðið svona þungur í kennaraskólann? Sú spurning gefur mér tilefni til að segja fáein orð almennt um kennslumálin. Hvers vegna hefur straumurinn orðið svona þungur í kennaraskólann? Er það af því, að allur þessi manngrúi vilji verða kennarar? Nei, það er ekki vegna þess. Það er af því, að í mörgum tilvikum eru aðrar leiðir lokaðar, sem menn vildu heldur fara. Það er vegna þess, að það hefur ríkt öngþveitisástand í framhaldsmenntun á Íslandi. Þess vegna hefur svona farið. Þegar þarna var opnuð í þessum skóla leið til þess að ná stúdentsprófi og leið til þess að fá almenna menntun, flykktust menn auðvitað inn á þessa braut. Þarna var opin leið, og menn fóru hana, vegna þess að það var ekki nægilega greið leið í aðra menntaskóla og sumpart vegna þess, að það voru lokaðar leiðir mörgum þeim, sem vildu taka fyrir annað nám, t.d. á viðskiptasviðinu.

Í því sambandi vil ég aftur upplýsa það, sem ég upplýsti um daginn, að í nágrannalöndunum mun það láta nærri, að einhvers konar viðskiptanám sé opið fyrir um það bil 20% allra framhaldsskólanemenda, en hérna er viðskiptanámsbraut lokuð nema í Samvinnuskólanum og verzlunarskólanum, og þar kemst ekki að nema sáralítill hluti þeirra, sem vilja afla sér viðskiptamenntunar. Dálítið hefur verið úr þessu bætt í sambandi við valgreinar í nýju framhaldsdeildunum við gagnfræðaskólana, en ekki nema sáralítið. Í þessum efnum ríkir því algert öngþveiti, og það er ekki nokkur vafi á því, að ef verið hefði sæmilegt lag á þessum málum, þá hefði aðsóknin að kennaraskólanum minnkað verulega. Um það er ekkert að villast. Ég er að benda á þetta til þess að sýna, að það er ekki nóg að setja ný lög um grunnskóla, og það er heldur ekki nóg að setja ný lög um kennaramenntun, sem færði kennaraskólann í eðlilegra horf. Það verður að halda þessu verki áfram og endurskoða allt menntakerfið á framhaldsskólastiginu. Það verður að stofna nýja framhaldsskóla við hliðina á menntaskólunum eftir sérgreinum, bæði í tæknilegum efnum og viðskiptalegum efnum. Þessi mál hafa verið hörmulega vanrækt, og það er ekki nóg að loka kennaraskólanum kyrfilega fyrir þeim, sem ekki eru harðákveðnir í því að verða kennarar. Það verður að gera miklu fleira. Það verður að opna aðrar skynsamlegar og góðar leiðir fyrir þá, sem vilja halda áfram að mennta sig. Við höfum menntaskólana og svo kennaraskólann, Samvinnuskólann og verzlunarskólann, og það er svona álíka og að komast í gegnum nálaraugað að komast inn í verzlunarskólann. Þá er flest upp talið nema framhaldsdeildirnar í gagnfræðanáminu, sem leiða í raun og veru ekki til neinnar sérstakrar niðurstöðu né áfanga í námi, en eru ætlaðar fyrir þá, sem vilja fara lengra, en tengslin ekki nógu góð. Ég skoraði á hæstv. ráðh. um daginn og vil gera enn, að hann setji sitt lið í að endurskoða þessi mál. Eins og ég sagði áðan, er ekki nægilegt að loka einni leið; það verður að opna aðra. En einmitt þetta, sem ég hef upplýst um viðskiptanámið, er kannske skýrasta dæmið um það, hvernig ástatt er í þessu, en í raun og veru er ósköp líkt ástand í tæknináminu. Það er allt enn í deiglunni og að verulegu leyti óleyst, hvernig á að hafa það nægilega opið fyrir þá, sem vilja fara inn á þær brautir. Ég legg þess vegna gífurlega áherzlu á, að það er ekki nægilegt að endurskoða kennaramenntunina og skyldunámið, heldur verður að fara fram gagngerð endurskoðun á framhaldsnáminu yfirleitt.

Þá vil ég víkja hér aðeins að því, að í þessu frv. er gert hér ráð fyrir kennaraháskóla, en hann á einvörðungu að útskrifa kennara til þess að kenna á skyldustiginu. Það á að vera hlutverk stofnunarinnar. En hann á ekki að útskrifa kennara til þess að kenna á framhaldsstigum. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa gert sér alveg grein fyrir þessu, sem er kannske ekki von, því að mörgu er að sinna. En þetta er ákaflega athyglisvert atriði. Nú er þannig ástatt um kennaramálin á framhaldsskólastiginu — og það verður þá leiðrétt, ef ég fer rangt með — að upplýst var í fyrra, að einungis 16% framhaldsskólakennara hafði í raun og veru full réttindi til þess að kenna í framhaldsskóla eða það nám, sem til þess þurfti. Og mikill fjöldi af kennurunum í framhaldsskólunum voru nemendur, og það voru jafnvel dæmi til þess í framhaldsskólakerfinu, að nemendur voru umsjónarkennarar í bekkjum. Þannig er ástandið í kennaramálunum á framhaldsskólastiginu. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum út af því, að þegar kennaramenntunin í landinu er tekin fyrir, þá skuli þau mál ekki vera tekin fyrir í heild, og ekki athuguð í heild, en yfirvöld menntamála skuli einvörðungu snúa sér að því að skoða þann hlut þessara mála, sem snýr að kennaramenntun fyrir skylduskólastigið. Hér er þó sannarlega um meira en lítið alvörumál að ræða.

Og í þessu sambandi vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Getur hann ekki gefið okkur einhverjar upplýsingar um, hvernig á þeim ósköpum stendur, að svona er ástatt um kennarana í framhaldsskólunum? Hvað verður af öllu því fólki, sem útskrifað er í háskólanum í B.A.-deildunum og ætlunin er að kenni í þessum skólum? Ráðh. hlýtur að hafa margsinnis gert sér grein fyrir þessu. Hvað verður af þessu fólki? Hversu margt fólk er útskrifað úr þessum háskóladeildum og hvað verður af því? Er þessi gífurlegi kennaraskortur á framhaldsskólastiginu vegna þess, að það eru allt of fáir, sem öðlast þessi réttindi, eða er hann fyrir það, að menn snúi sér að öðru, og ef svo er, hvers vegna snúa menn sér að öðru? Það hljóta að hafa farið fram á þessu rannsóknir. Það er óhugsandi, að kennslumálastjórnin hafi horft upp á það ástand, sem hér hefur verið á undanförnum árum án þess að reyna að kryfja þetta mál til mergjar. Og þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. í sambandi við þessi kennaramál, sem að sjálfsögðu er rétt eftir þingsköpum að ræða almennt við 1. umr.: Hvaða áætlanir hefur hann á prjónunum til þess að leysa þennan vanda? Koma ekki frv. eða till. um það frá honum í þessari málefnakeðju, sem óneitanlega virðist hafa verið undirbúin? Ég tel, að það sé alveg gersamlega óhjákvæmilegt að skoða þessi mál í samhengi. Ég dreg ekki úr nauðsyn þess, að endurskoðuð sé menntun kennara á skylduskólastiginu og fram komi lagfæringar á kennaraskólanum, en það er ekki nema hluti af kennaravandamálinu, og það er tæpast, að það sé hægt að slíta þetta í sundur.

Þá er eitt, sem auðvitað hlýtur að koma í hugann í þessu sambandi. Ef á að stofna hér kennaraháskóla á annað borð og horfið verður að því ráði, hvers vegna á þá ekki sá skóli að taka sér fyrir hendur að mennta kennara handa öllum skólastigum — upp að háskólastigi t.d.? Hvers vegna á ekki að undirbúa í sömu stofnuninni kennara til þess að kenna í framhaldsskólunum, sem taka við af skylduskólastiginu og verða með mjög margvíslegu móti? Það verða menntaskólar, það verða viðskiptaskólar og það verða tækniskólar, og þannig mætti lengi telja. Er það skynsamlegt að ætlast til þess miðað við þá reynslu, sem verið hefur, að háskólinn sjái um þessi verkefni? Það hefur alls ekki tekizt að leysa þau af hendi þar, þannig að nokkur glóra sé í ástandinu. Ég hef ekki hugmynd um, hvort það er háskólanum að kenna eða hverjum það er að kenna. Ég játa, að ég er ekki það vel að mér, en ég hlýt að álíta, að hæstv. menntmrh. hafi gert sér grein fyrir þessu og hans menn. Ég hlýt að álíta það. Og eins og ég sagði áðan, þá kemur upp þessi spurning: Á þá ekki að stíga skrefið þannig, að komið sé upp myndarlegum kennaraháskóla, sem útskrifi kennara til þess að fjalla um þessa kennslu á öllum þessum stigum með mismunandi námsbrautum eða námi auðvitað eftir því, hvaða kennslu kennaranum er ætlað að inna af höndum? Þá er náttúrlega ómögulegt að neita því, að það læðist að manni sú hugsun, þegar maður fer að hugsa þetta nánar, að sá, sem búinn er að fá stúdentspróf og ganga þrjú ár í kennaraháskóla, eigi að vera fær um að kenna í menntaskóla og öðrum framhaldsskólum, sem taka við af skyldustiginu. Og auðvitað er hann betur fær til þess en ýmsir þeir, sem nú hafa þessi verkefni með höndum. Ég segi því, að það verði að skoða þetta upp á nýtt meira o minna, og það verður að skoða þetta í samhengi. Ég álít, að einmitt 1. umr. þessa máls sé ákaflega hentugur tími og því sé hér réttur staður til þess að ræða kennaramenntunarmálin í heild og það gífurlega vandamál, sem við búum við að því leyti.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, en ég vil að sjálfsögðu taka undir það, sem annar hv. þm. sagði hér á undan mér, að ég tel, að það þurfi að gera mjög kröftuga gangskör að því að drífa áfram byggingar fyrir kennaraskólann. Ég segi þetta, þó að ég geri nú ekki ráð fyrir því, að ég fái jafnmikið klapp og hv. þm., sem talaði hér áðan, af því að það er aldrei jafnvel séð að endurtaka það, sem áður hefur verið sagt. Ég segi þetta samt, og ég álít, að það sé mjög nauðsynlegt að fylgja því fast eftir.

Þá er enn eitt, sem mér finnst vera ákaflega þýðingarmikið í sambandi við þetta, og það er, að það kæmi fram í sambandi við þetta mál, hvernig kennaraskólinn er búinn undir það hlutverk, sem honum er ætlað í þessu lagafrv. Og þar finnst mér á skorta. E.t.v. er þar allt í lagi og allt tilbúið til þess að taka við því hlutverki, sem gert er ráð fyrir, að skólinn hafi skv. þessu frv. En sé svo ekki, sem ég held, að hljóti að vera, þá þarf að koma fram grg. um það, hvað þarf að gera fyrir kennaraskólann, til þess að hann geti tekið við því hlutverki, sem honum er ætlað.

Mér skilst, að það sé lögð mjög mikil áherzla á að flýta þessu máli, og eins og ég segi, þá skal ekki standa á mér að gera allt, sem ég get til þess, að vel sé unnið í því, en þá væri líka æskilegt að vita, hvort það er ekkert fleira, sem þarf að gera en að samþykkja þetta frv. Og hvað er það? Og hvers vegna er ekkert getið um það? Hvers vegna er aðeins í ræðu hæstv. ráðh. minnzt á, að það liggi svona mikið á að samþykkja frv., en engar skýrslur gefnar um, hvað þurfi að gera fyrir skólann til þess, að hann geti rækt það hlutverk, sem í frv. er gert ráð fyrir? Það sýnist þó, að það ætti ekki að vera þýðingarminna. Ég skora því á hæstv. ráðh. að gera okkur glögga grein fyrir því. Þá höfum við yfirlit um málið og vitum, hvað til þarf á öðrum sviðum og hvað þarf að fylgja með frv., ef um eitthvað slíkt er að ræða.