03.02.1971
Neðri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Fyrir réttum átta árum voru afgreidd lög hér á hv. Alþ. um kennaraskólann. Ég fagnaði þeirri lagabreytingu þá alveg sérstaklega, sem hefur kannske verið í og með vegna þess, að það var sömu dagana og ég átti 40 ára kennaraafmæli. Ég á ekkert þess háttar afmæli núna og bjóst ekki við því, að nú kæmu enn til breytingar á kennaraskólanum. En ég vil þó taka fram, að ég fagna þessu frv. hliðstætt því, sem ég fagnaði hinu fyrir 8 árum. Þar með er ég ekki að segja, að ekki þurfi rækilega að athuga frv., og efnislega ætla ég mér ekki að ræða um það að þessu sinni. Það fæ ég tækifæri til að gera í menntmn., sem ég á sæti í. En það er ýmislegt í sambandi við þetta mál, sem mér leikur hugur á að vita, hvort hafi verið athugað eða hvað menn hugsa í þeim efnum, og vil ég gjarnan beina þessari fsp. til hæstv. menntmrh.: Telur hann ekki þörf á að bæta launakjör kennara frá því, sem þau nú eru, þegar barnakennarar í landinu allir eru orðnir háskólalærðir menn? Þetta heyrir ekki undir þetta frv., en það er ekki ástæðulaust að hafa það í huga frá upphafi, hvaða áhrif það muni hafa á aðsóknina í hinn væntanlega kennaraháskóla, ef kennarar eiga að búa við þau launakjör, sem nú eru, eftir að hafa varið öllum þessum árum í nám, þ. á m. háskólanám.

Ég held, að mönnum sé það sæmilega ljóst, að um langan tíma var ekki nema nokkur hluti af barnakennurum í landinu með tilskilda menntun, þ.e. höfðu ekki kennararéttindi, og það var fyrst og fremst vegna þess, að launakjör þessa fólks voru svo bágborin, að kennarar gátu farið svo að segja hvert sem var og fengið miklu betri launakjör. Á þetta að gerast, eftir að skólinn er orðinn kennaraháskóli? Því aðeins nefni ég þetta núna, að ég er ákaflega hræddur um, að það hafi mikil áhrif á aðsóknina að hinum væntanlega kennaraháskóla, hvaða launakjör þeim mönnum verða búin, sem þaðan útskrifast. Ef það kæmi á daginn, að þeim væru ætluð hliðstæð launakjör og nú er, þá er ég hræddur um, að það þurfi enginn að kvarta undan því, að hinn nýi kennaraháskóli verði yfirfullur. Ég gæti trúað að það væri vafasamt, að það þyrfti nokkuð að stækka núverandi byggingar. Þetta atriði hefur ákaflega mikil áhrif á það, hvernig aðsóknin verður að þessum væntanlega skóla, þ.e. hvernig að kennurum verður búið, þegar þeir hafa lokið undirbúningsnámi að menntaskóla, síðan menntaskólanámi og að lokum þriggja ára háskólanámi. Þá þarf enginn að halda, að þeir geti sætt sig við það að setjast í barnaskóla og kenna skv. launakjörum, sem þar eru núna. Ég veit, að hæstv. ráðh. á þess engan kost að svara því, hvernig þetta muni verða, heldur vil ég spyrja hann að því, hvort honum finnist ekki full þörf á því áð taka þessa hlið á málinu til athugunar mjög fljótlega og hvort hann telji ekki, að það hafi einhver áhrif á aðsóknina að hinum nýja skóla.

Annað atriði, sem ég vil vekja athygli á og spyrja hæstv. ráðh. um, er það, hvort hann telur ekki sjálfsagt, að nemendur hins nýja kennaraháskóla njóti að fullu sömu réttinda til námslána og stúdentar við Háskóla Íslands njóta nú. Ég held reyndar, að það sé farið að veita þeim einhverja styrki, sem eru í stúdentadeildinni eða í menntadeildinni. En verður því þá ekki hagað þannig, að allir nemendur í hinum nýja kennaraháskóla njóti þar sömu réttinda og stúdentar í Háskóla Íslands njóta nú?

Eins og ég sagði, ætla ég ekki að ræða efnislega um málið á þessu stigi. Ég fæ sannarlega nóg tækifæri til þess núna næstu vikurnar með þeirri athugun, sem fer fram á málinu í menntmn., en ég teldi æskilegt, að þetta tvennt kæmi fram. Ég býst við því, að hæstv. ráðh. svari játandi síðari spurningunni, en fyrri spurningunni er meiri vandi að svara; ég skal játa það. En það er mál, sem ekki má dragast, þangað til fyrstu kennararnir útskrifast úr kennaraháskóla. Nemendurnir, sem þangað ætla að að fara, verða að hafa einhverja hugmynd um það, áður en þeir hefja nám, og ef það yrði niðurstaðan, að þeir ættu ekki von á betri kjörum en barnakennarar búa nú við, þá er ég hræddur um, að þeir snúi við blaðinu og hverfi frá fyrirætlun sinni.