03.02.1971
Neðri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

186. mál, Kennaraháskóli Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er athafnasamur hér á þingi þessa dagana. Einn daginn lagði hann fram frv. um skólakerfi, einum eða tveimur dögum síðar lagði hann fram frv. um grunnskóla, og nú hefur hann lagt fram þetta frv., sem hér liggur fyrir, um Kennaraháskóla Íslands. Tvö af þessum frv. a.m.k. eru miklir bálkar, og ég tek undir það með hv. þm., sem hér hafa talað, að það er nokkuð mikið verk fyrir Alþ. að gera sér grein fyrir þessum frv. bálkum á tiltölulega stuttum tíma og það hefði verið betra, að þessi frv. hefðu verið lögð fram í þingbyrjun, ef ætlunin er, að þau verði afgreidd sem lög á þessu þingi. Hæstv. ráðh. gat þess að vísu í framsöguræðu sinni áðan, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefði þegar hlotið samþykki n., sem um það hefur fjallað fyrir hönd rn., einnig samþykki kennarasamtakanna, og mig minnir, að hann segði líka kennaraskólans. Þó vil ég ekki fullyrða það, og má vera, að hann hafi nefnt háskólann líka í því sambandi, a.m.k. nefndi hann rektor háskólans eitthvað í sambandi við þetta mál.

Nú er það auðvitað mjög gott, að þessir aðilar skuli hafa gert sér grein fyrir efni þessa frv. En eftir eru samt margir aðilar, sem hafa ekki átt þess kost að gera sér grein fyrir því. Þjóðin hefur lítið af því frétt — almenningur í landinu, og okkur, sem sitjum hér í þessum sal, er ætlað að vera fulltrúar þjóðarinnar við meðferð löggjafarmála og þá m.a. við meðferð þessa máls. Og eins og ég sagði og aðrir hafa hér tekið fram, þá er okkur og þjóðinni, sem hefur gefið okkur umboð sitt, þ. á m. öllum foreldrum í landinu og nemendum, gefinn lítill tími til þess að gera okkur grein fyrir málinu. En um það þýðir ekki að sakast nú.

Núna alveg nýlega heyrði ég hér á Alþ. umr. um húsnæðismál kennaraskólans, og það mál var einnig til umr. á þingi í fyrra. Ég held, að það hafi öllum borið saman um það bæði í fyrra og aftur nú, að húsnæði kennaraskólans væri allt of lítið og á ýmsan hátt ófullnægjandi miðað við þann mikla fjölda, sem hefur viljað stunda nám í þessum skóla núna síðustu árin. En það er rétt, sem hæstv. ráðh. tók fram, að nemendafjöldi í kennaraskólanum jókst skyndilega mjög mikið eða jafnvei margfaldaðist á tiltölulega stuttum tíma. Nú sýnist mér, að menn hafi komið auga á ráð til þess að leysa húsnæðismál kennaraskólans og vandræði hans með því að leggja skólann niður. Þetta frv. er um það að leggja Kennaraskóla Íslands niður. Lögin um hann frá 1963 eru afnumin með þessu frv., ef að lögum verður — með 25. gr., þar sem stendur: „Jafnframt eru úr gildi numin lög nr. 23/1963, um Kennaraskóla Íslands ...“ En í stað Kennaraskóla Íslands, sem starfað hefur nokkru lengur en í hálfa öld, eða samhliða því, sem hann er lagður niður, er gert ráð fyrir því að stofna Kennaraháskóla Íslands, og almenn inntökuskilyrði í kennaraháskólann skulu vera stúdentspróf.

Ég spyr nú, eins og hv. 6. þm. Reykv. gerði áðan: Ef þetta á að vera svo, að stofnaður verði kennaraháskóli, þar sem inntökuskilyrði eru stúdentspróf, hvers vegna er þá ekki lagt til, að bætt verði nýrri deild við Háskóla Íslands, þ.e. að þessi stofnun verði hluti af Háskóla Íslands? Hvers vegna er það ekki lagt til? Ég bara spyr. Er þessi kennaraháskóli, sem hér er gert ráð fyrir, ekki alveg hliðstæður deildum háskólans eins og heimspekideild, lögfræðideild, guðfræðideild, læknadeild, verkfræðideild og viðskiptadeild o.s.frv.? Er þetta þá ekki bara hluti af Háskóla Íslands, og hvers vegna eiga ekki lögin að segja það? Hver er ástæðan til þess? Það getur vel verið, að sú ástæða sé fyrir hendi, en það hefur ekki verið gerð grein fyrir henni hér. Vera má, að eitthvað sé um það í þessari löngu grg., sem ég hef ekki getað kynnt mér til hlítar enn, en mér sýnist í fljótu bragði, að það sé ekki ástæða til annars en þessi menntun, sem hér er um að ræða, eigi að vera í Háskóla Íslands þegar inntökuskilyrðin eru alveg þau sömu í Háskóla Íslands, og þau eiga að vera við kennaraháskólann.

En ef þetta er húsnæðismál, ef t.d. þessi skipan er á höfð, af því að til er kennaraskólahús hér á öðrum stað í Reykjavík en háskólinn er á, þá vil ég nú gera aths. við það. Það er gert ráð fyrir því, held ég, að byggja fyrir a.m.k. eina háskóladeild á öðrum stað í borginni en háskólinn er á að öðru leyti, og ef þetta er húsnæðismál, þá vil ég beina því til hæstv. ráðh. hvort það kæmi ekki alveg eins til mála, að a.m.k. einhver hluti af þessum fræðum, þ.e. háskólafræðum fyrir kennara, yrði kenndur annars staðar á landinu en í Reykjavík að einhverju leyti. Ef farið er að skipta háskólakennslunni vegna húsnæðis innan borgarinnar, þá virðist hún alveg eins mega vera á fleiri stöðum í landinu, og ætti þetta þá kannske við um fleiri háskólanámsgreinar. Ég vil alveg sérstaklega í því sambandi vitna til ræðu, sem hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, flutti hér í gær, þar sem hann vék að því, að í höfuðstað Norðurlands, á Akureyri, væru uppi hugmyndir lærðra manna um það að koma upp akademískri fræðslu á Akureyri.

Í þessum kennaraháskóla er samkv. grg. frv. á bls. 29 gert ráð fyrir ákveðnum nánar tilgreindum námsgreinum. Það eru í fyrsta lagi þær námsgreinar, sem eru kallaðar kjarni, sem eru uppeldisfræði, sálarfræði, kennslufræði, kennsluæfingar, móðurmál, kristinfræði, félagsfræði og þrjár af fjórum greinum, sem síðan eru taldar upp, og svo loks valgreinar sérstakar, sem eiga að vera móðurmál, stærðfræði, kristinfræði, mótun, söngur, tónlist, handavinna kvenna, saga, landafræði, líffræði, eðlisfræði, efnafræði, enska, þýzka, franska, latína, næringarefnafræði og heimilisfræði, sem skýrð er á dönsku með orðinu husholdningslære, trésmíði eða málmsmíði. Þetta eiga að vera kjarni og valgreinar hins væntanlega kennaraháskóla samkv. því, sem í grg. segir, og eru að vísu sumar þessara greina kenndar í einni deild háskólans, í B.A.-deildinni. Þetta er sem sé auðsjáanlega a.m.k. að nokkrum hluta það, sem kölluð er akademísk fræðsla, sem kennaraefnum er ætlað að njóta.

Nú langar mig til að spyrja, og ég spyr nú sérstaklega frá sjónarmiði hinna dreifðu byggða, frá sjónarmiði landsbyggðarinnar og hinna fámennu skólahverfa í landinu. Það er viða erfitt að fá kennara, eins og sakir standa, til þess að kenna börnum og unglingum og alveg sérstaklega, þar sem fámennt er, og reyndar virðast alls staðar vera nokkrir erfiðleikar á þessu utan stærstu kaupstaðanna. Farkennararnir flestir eða allir eru fólk, sem ekki hefur kennarapróf, og í mörgum föstum skólum hefur einnig orðið að ráða fólk, sem ekki hefur kennarapróf. Það er kennaraskortur á landsbyggðinni, ef miða skal við menn með kennararéttindi. Þykir þá gott, ef hægt er að fá til starfa menn, sem ekki hafa þessi réttindi — menn, sem eitthvað hafa gengið í skóla og geta kennt börnum og unglingum. Nú vil ég spyrja: Er ekki hætta á því, ef enn verður aukið við kennaranámið til mikilla muna og heimtað háskólapróf af kennurum, að þessir erfiðleikar verði enn þá meiri fyrir landsbyggðina, þ.e. að fá kennara með réttindi, því að réttindin til þess að kenna börnunum verða bundin við háskólamenntaða menn? Mun þeim, sem eru búnir að leggja svo mikið á sig — svo og svo langa skólavist — og eru orðnir svo lærðir, ekki þykja það enn þá ófýsilegra en kennaraskólamönnunum þykir þó nú að sinna þessum störfum í hinum fámennari skólahverfum og fræðsluhéruðum? Ég get ekki að því gert, að það sezt að mér nokkur beygur vegna þessa. Menn segja kannske, að úr þessu megi bæta með því að bæta kjörin. Ég er ekki alveg viss um það. Ég held, að það sé fleira, sem kemur til, að menn eru svo ófúsir til þess að sinna kennslu á þessum stöðum. Það hefði þótt ótrúlegt, þegar ég var að alast upp fyrir meira en hálfri öld, að það yrði heimtað af kennurum, sem eiga að kenna börnum að lesa og draga til stafs og það einfaldasta í reikningi, að þeir hefðu háskólapróf, væru búnir að vera fyrst níu ár í grunnskóla, síðan fjögur ár í menntaskóla og síðan þrjú ár í háskóla eða kennaraháskóla og þyrftu kannske reynslutíma að auki til þess að geta fengið réttindi til þess að gera þetta, þ.e. að kenna börnum lestur og að draga til stafs o.s.frv. — þetta, sem börnin læra fyrst.

Ég er uppalinn á því útnesi landsins, sem lengst er frá höfuðstöðvunum hér. Þar var það svo, þegar ég var að alast upp ásamt jafnöldrum mínum, þar sem auðvitað var ekkert skólahús og enginn fastur skóli, að mæður okkar og feður, sem ekki höfðu í neinn skóla gengið, kenndu okkur þessi frumfræði, þ.e. að verða læs og að læra að skrifa og ýmsir í okkar hópi a.m.k. voru búnir að ljúka lestrarnáminu um 7 ára aldur; það var ekki óalgengt. Og þess vegna er ég að velta þessu fyrir mér: Er það nauðsynlegt — þó að við göngum út frá því, að það þurfi háskólanám til þess að kenna hin æðri fræði — að alveg sömu kröfur séu gerðar til þeirra, sem eiga að kenna þessa undirstöðu, sem allir eiga að kunna? En nú orðið eiga allir Íslendingar, sem til þess hafa hæfileika, að vera læsir. Kannske eru þeir það ekki allir, því að sumir eru ekki þannig úr garði gerðir, að þeir eigi yfirleitt auðvelt með nám, og verður ekki við því gert eða ástæða til að áfellast það á neinn hátt. En þarf þetta að vera svona, að kröfurnar séu hinar sömu fyrir alla þá, sem eiga að kenna í þessum ofannefnda grunnskóla, sem er fyrir börn á aldrinum frá 7–16 ára, að sömu kröfur séu gerðar til þeirra allra, hvort sem þeir kenna 7 ára barni eða 16 ára ungmenni, sem nú má teljast vera orðið í þann veginn að verða fullorðið, fullorðinn maður eða kona.

Þetta eru mínar hugleiðingar, sem ég vil beina til n., og væri auðvitað æskilegt, að hæstv. ráðh., sem sjálfsagt hefur hugsað manna mest um þessi mál, segði eitthvað um þetta, því að hér er m.a. um þjóðhagsmál að ræða. Það er þjóðhagsmál, hvort það á að heimta miklu meira starfsnám af mönnum en nauðsynlegt er, því að ef það er gert, er það sóun á fjármunum fyrir þjóðfélagið og þá sjálfa, og það er að bruðla með mannslíf eða hluta úr mannslífi eða mannsævi, ef sú krafa er gerð, að menn séu miklu lengur í skóla en nauðsynlegt er til þess að leysa af hendi það starf, sem þeim er ætlað. Nú er ég ekki að fullyrða, að það sé gert í þessu frv., en þetta allt kemur mér í hug við að hafa litið yfir frv. og þessa löngu grg. — 56 síður samtals, sem því fylgir.

Það er mikið rætt um skólamál og menntamál nú á tímum, og það er eðlilegt, að svo sé. Öldin, sem við lifum á, er ólík fyrri tímum um margt, þó að maðurinn og gerð hans sé kannske lítið breytt frá því, sem var fyrir þúsundum ára. A.m.k. sagði Stephan G. Stephansson:

„Því jafnvel í fornöld sveif hugur eins hátt, –og hvar er þá nokkuð, sem vinnst?“

En umhverfið og heimurinn er orðið mjög breytt. Hins vegar hafa hugmyndir okkar um skóla og skólakerfi, eins og þær hafa verið framkvæmdar til þessa, litlum breytingum tekið tiltölulega a.m.k. í eina öld. Við höfum fengið þær frá Norðurlöndum, og Norðurlandamenn fengu þær frá Mið-Evrópu, þ.e. hugmyndir um skóla fyrir börn og unglinga. En áður en skólar fyrir börn og unglinga voru til fyrir almenning, þá var það til, sem við köllum núna æðri skóla, þ.e. menntaskólar, sem þá hétu latínuskólar, og svo það, sem kallað var „universitas“ eða háskólarnir. Við höfum vanizt á það frá blautu barnsbeini, að svona ætti kerfið að vera, menntaskóli, almennur menntaskóli er hann núna kallaður, sem byggi ungmenni undir að stunda nám í háskóla, sem væri sérgreinaskóli. Háskólar eru sérgreinaskólar. Þar leggja menn stund á sérfræði. Það hefur verið til þessa alveg algild regla hér og ég held alls staðar, þar sem þessu skólakerfi hefur verið haldið uppi, að það sé skilyrði, að þeir, sem fá að komast inn í háskóla, eigi að hafa stúdentspróf. Mér hefur oft komið það til hugar — þó að ég sé enginn sérfræðingur í menntamálum og hafi ekki gefið mig sérstaklega að þeim, en hins vegar verið dálítið í skóla á sínum tíma — hvort þessi undirbúningur undir háskólann sé einhlítur og eigi rétt á sér, hvort hann þurfi endilega að vera svona.

Stúdentar í háskólanum eða eitthvert trúnaðarmannaráð á þeirra vegum gerði í vor till. um það, að nemendum með burtfararpróf úr nokkrum tilgreindum skólum öðrum en menntaskólunum yrði veitt inntaka í háskólann, og bæði mér og sjálfsagt mörgum öðrum þótti þetta þá nokkuð nýstárlegt, að þetta skyldi koma frá stúdentunum. En nokkru síðar las ég grein, sem líka var frá stúdent eða stúdentum, þar sem kom fram enn þá róttækari till., og hún var sú, að öllum, sem þess æsktu, væri heimil innganga í Háskóla Íslands, og skyldu þeir hafa rétt til þess að stunda þar nám, að því þó tilskildu, að við háskólann sjálfan eða einstakar deildir hans væri inntökupróf eða þolraun, sem umsækjandinn ætti að ganga í gegnum, sem ætti að sýna það, hvort hann væri hæfur til þess að stunda nám í háskólanum, hvernig sem hann hefði fengið menntunina, hvort sem hann hefði fengið hana í menntaskóla eða í kennaraskóla, verzlunarskóla, bændaskóla, samvinnuskóla eða kvennaskóla eða bara hann hefði lært af útvarpinu t.d. eða lært af sjálfum sér, lært sjálfur af eigin rammleik. En við vitum, að það er nú ekki alveg dæmalaust, að menn hafi tileinkað sér menntaskólalærdóm án þess að vera í menntaskóla.

Ég minnist þess t.d. — ég held, að það sé ekki rangminni hjá mér — að um það leyti, sem ég var þar dálítið viðloðand fyrir mjög löngu, þá kom þar við sögu ungur maður, sem nú er einn af prófessorum háskólans. Hann kom í menntaskólann í Reykjavík um vor, hafði ekki verið þar áður og ekki heldur í öðrum menntaskóla, og tók gagnfræðapróf. Þremur árum síðar kom hann svo aftur og tók stúdentspróf og hafði þá ekki heldur verið í menntaskólanum. En það einkennilega við bæði þessi próf var, að hann var annaðhvort efstur á prófinu eða mjög nærri því að vera efstur. Þetta var til, og þetta er til og getur verið til, að menn geta numið á ýmsan hátt með aðstoð annarra skóla en menntaskóla og með annarra aðstoð en skólanna. En til þess þarf auðvitað bæði hæfileika og ástundun, vilja og löngun til þess að fræðast.

Mér kemur í hug í þessu sambandi, þegar ég er að lesa þetta mikla plagg hér, að kannske verði það þetta, sem koma skal, að háskólinn og kennaraháskólinn taki við nemendum og leyfi þeim að koma inn fyrir sínar dyr og stunda þar nám, ef þeir bara sýna sig hæfa til þess við inngöngu að geta stundað nám í þeirri háskóladeild eða kennaraháskóla, sem um er að ræða, hvernig sem þeir. hafa öðlazt menntunina. Og auðvitað liggur það í hlutarins eðli, að sú sérfræði, sem kennd er í háskóla og kannske kennaraháskóla, er mjög svo mismunandi. Þær eru svo ólíkar þessar greinar, sem stúdentarnir eiga að læra í háskólanum, að það þarf ekki alveg sama undirbúning undir þær allar í raun og veru. Það leiðir mann aftur inn á þessa hugsun, hvort í raun og veru henti á okkar tímum þessi almenna menntaskólafræðsla, sem eitt allsherjar- og einkaskilyrði til þess að komast inn í þessar margvíslegu sérfræðideildir í háskólanum.

Ég held, að ég sé nú búinn að drepa á flest, sem mér hefur komið í hug, síðan hæstv. ráðh. flutti framsöguræðu sína, og í þessum umr., sem farið hafa fram síðan, og þó væri það sjálfsagt ýmislegt, sem ég gjarnan vildi ræða um einstakar gr. frv. sjálfs, ef ég teldi mig þess umkominn. En ég er ekki búinn að kynna mér frv. þannig, að ég geti gert það. Þetta, sem ég hef sagt, eru aðeins almennar hugleiðingar, sem ég vildi láta koma fram, áður en hv. n. tekur málið til meðferðar. En meginmálið er, hvernig á í stórum dráttum að koma fyrir menntun kennaranna, sem eiga að starfa í barnaskólunum og gagnfræðaskólunum og hvort ekki þarf að fara að endurskoða skipulagið eða þau skilyrði, sem verið hafa fyrir inngöngu í háskóla almennt.

Það má aðeins minna á það, að kennaraháskólar hafa lengi verið til í öðrum löndum. Það hefur lengi verið starfandi kennaraháskóli í Kaupmannahöfn t.d. Ég held, að þar hafi það ekki verið neitt skilyrði, að menn væru stúdentar. Menn úr Kennaraskóla Íslands hafa, ef ég man rétt, farið í þennan skóla og eins menn, sem stunduðu nám í kennaradeildinni í Flensborgarskólanum, áður en kennaraskólinn var stofnaður. Það getur verið og er sjálfsagt rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það sé verið að breyta þessu nú á Norðurlöndum, og vel má vera líka, að það sé rétt að gera það. En þó kemur aftur og aftur fram í huga minn þessi spurning: Er það rétt að gera sömu kröfur til allra kennara, sem eiga að kenna börnum og unglingum frá 7–16 ára aldri, hvaða aldursflokki sem þeim er ætlað að kenna?